RAUÐI kross Íslands vinnur nú að því að koma um það bil 28 manna hópi albanskra flóttamanna frá Kosovo til Íslands. Þetta eru allt nánir ættingjar Kosovo-Albana sem búsettir hafa verið á Íslandi í þrjú ár eða lengur, að sögn Hólmfríðar Gísladóttur hjá Rauða krossi Íslands. Hólmfríður sagði að það gengi seint að koma fólkinu til landsins.
Rauði krossinn undirbýr komu fleiri flóttamanna til Íslands

28 ættingjar frá

Kosovo á leiðinni

RAUÐI kross Íslands vinnur nú að því að koma um það bil 28 manna hópi albanskra flóttamanna frá Kosovo til Íslands. Þetta eru allt nánir ættingjar Kosovo-Albana sem búsettir hafa verið á Íslandi í þrjú ár eða lengur, að sögn Hólmfríðar Gísladóttur hjá Rauða krossi Íslands.

Hólmfríður sagði að það gengi seint að koma fólkinu til landsins. Vegan álags ytra miði ekkert heilu dagana og árangurslaus símtöl til að reyna að greiða fyrir hópnum skipti tugum eða hundruðum.

Fólkið er flest skilríkjalaust og verið er að vinna að því að fá Alþjóðaráð Rauða krossins til að gefa út ferðaskilríki til fólksins.

15 úr þessum hópi eru nú í Svartfjallalandi, ýmist í flóttamannabúðum eða inni á heimilum vina eða vandalausra. Reynt verður að koma fólkinu heim í gegnum Sarajevo vegna þess, að ólíklegt þykir að unnt verði að fara með fólkið stystu leið yfir til Albaníu vegna spennu milli Svartfjallalands og Albaníu.

Í Sarajevo eru svo fimm til viðbótar úr þeim hópi, sem hér fær landvistarleyfi; skilríkjalaust fólk bíður þess að komast til Íslands. Þannig að hugsanlega koma 20 manns í gegnum Sarajevo. Til viðbótar er 8 manna hópur í Albaníu, sem þarf að fá útgefna pappíra fyrir. Vitað er um tvo til viðbótar, sem veita átti landvistarleyfi, sem eru inni í Kosovo en ekkert er hægt að gera fyrir það fólk.

Um 200 Kosovo-Albanir á Íslandi

Þegar utanríkisráðherra ákvað að taka við hér á landi tilteknum hópi náinna ættingja þeirra Kosovo- Albana sem hér hafa búið undanfarin ár bárust um 170-180 umsóknir, að sögn Hólmfríðar.

Nokkrir úr þessum hópi, sem fengu atvinnu- og dvalarleyfi, komu til landsins á eigin vegum um svipað leyti og fyrstu flóttamennirnir komu hingað til lands en aðrir eiga einnig umsóknir í meðförum hjá stjórnvöldum. Kosovo-Albanir, búsettir á Íslandi, eru nú um 200 talsins, að meðtöldum þeim 73 flóttamönnum, sem komið hafa til landsins undanfarnar vikur.