STURLA Böðvarsson, samgönguráðherra, segist ekkert vilja segja um hvort einkavæðingu Landssímans ljúki á þessu kjörtímabili. "Ég mun fara ofan í þetta mál og kynna mér allar hliðar þess hvað undirbúninginn varðar. Á þessu stigi vil ég ekkert annað segja um málið," sagði Sturla.
Samgönguráðherra um einkavæðingu Landssímans

Ein spurningin

er um hraðann

STURLA Böðvarsson, samgönguráðherra, segist ekkert vilja segja um hvort einkavæðingu Landssímans ljúki á þessu kjörtímabili.

"Ég mun fara ofan í þetta mál og kynna mér allar hliðar þess hvað undirbúninginn varðar. Á þessu stigi vil ég ekkert annað segja um málið," sagði Sturla.

Um það hvort hann vildi ljúka einkavæðingu Landssímans á þessu kjörtímabili sagði hann að stjórnarsáttmálinn kvæði á um að undirbúa ætti sölu fyrirtækisins. "Þegar sala er undirbúin er vitað að hverju er stefnt. Ein spurningin er um hraðann og mat manna á því hvernig skuli staðið að þessu og þá, þegar undirbúningi er lokið, hvort kostirnir séu nægjanlega fýsilegir til að hægt sé að stíga þessi skref um sölu," sagði Sturla. "Þetta er margflókið mál. Annars vegar er um að ræða að tryggja hagsmuni eigandans, þ.e. að ríkissjóður fái sem mest fyrir þessa eign þegar seld verður og hins vegar að tryggja hagsmuni neytenda sem eiga mikið undir því að fá ódýra þjónustu hjá þeim fyrirtækjum, sem sinna fjarskiptunum."

Sami símkostnaður í þéttbýli og dreifbýli?

Sturla var spurður hvort hann sæi t.d. fyrir sér að skilyrði um jafnan símkostnað landsbyggðar og þéttbýlis kæmu til greina við einkavæðinguna. "Nú er ekki sami símkostnaður þegar litið er til gagnaflutnings, en ég held að þeir sem ætla sér að taka þátt í þjónustu og viðskiptum við íbúa landsins eigi mjög mikið undir því að þetta markmið, sem Síminn í ríkiseigu hefur sett sér, nái einnig til þeirra sem vilja hasla sér völl í þessum viðskiptum."

Sturla sagðist þó ekkert vilja um það segja á þessu stigi hvort til greina kæmi að binda einkavæðinguna skilyrðum um jafnan símkostnað á landinu.