OLUSEGUN Obasanjo, hershöfðingi, sór í gær embættiseið sem réttkjörinn forseti Nígeríu og lauk þar með 15 ára valdatíð hersins í þessu fjölmennasta landi Afríku. "Ég mun standa vörð um stjórnarskrá Nígeríu, með Guðs hjálp," sagði Obasanjo.

Obasanjo tekinn við

Abuja í Nígeríu. Reuters.

OLUSEGUN Obasanjo, hershöfðingi, sór í gær embættiseið sem réttkjörinn forseti Nígeríu og lauk þar með 15 ára valdatíð hersins í þessu fjölmennasta landi Afríku. "Ég mun standa vörð um stjórnarskrá Nígeríu, með Guðs hjálp," sagði Obasanjo.

Nelson Mandela, fráfarandi forseti Suður-Afríku, og Karl Bretaprins voru meðal þeirra er voru við athöfnina. Obasanjo var látinn laus úr fangelsi fyrir tæpu ári, en hann var hnepptur í varðhald fyrir meinta tilraun til uppreisnar gegn fyrrverandi einræðisherra landsins, Sani Abacha.

Abacha lést í júní sl., og síðan hafa tilraunir til að koma á lýðræði í landinu gengið heldur brösuglega. Nígería stendur nú frammi fyrir einhverjum mesta efnahagsvanda sem steðjað hefur að landinu frá því það varð sjálfstætt ríki.