Dagbók, sjálfsævisaga, bréf og kvæði Magnúsar Hj. Magnússonar, skáldsins á Þröm. Sigurður Gylfi Magnússon tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. 2. bindi. Ritstjórar: Kári Bjarnason og Sigurður Gylfi Magnússon. Háskólaútgáfan, Reykjavík 1998, 423 bls.

Sagnfræði hins einstaka

BÆKUR

Einsaga

KRAFTBIRTINGARHLJÓMUR GUÐDÓMSINS

Dagbók, sjálfsævisaga, bréf og kvæði Magnúsar Hj. Magnússonar, skáldsins á Þröm. Sigurður Gylfi Magnússon tók saman. Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar. 2. bindi. Ritstjórar: Kári Bjarnason og Sigurður Gylfi Magnússon. Háskólaútgáfan, Reykjavík 1998, 423 bls.

KRAFTBIRTINGARHLJÓMUR guðdómsins geymir valin brot úr umfangsmiklum persónulegum textum sem Magnús Hj. Magnússon (1873-1916) skildi eftir sig. Bókin skiptist í fjóra hluta; inngang Sigurðar Gylfa Magnússonar sagnfræðings; sjálfsævisögu Magnúsar sem fjallar um æsku hans; valin skeið úr dagbókum sem hann hélt öll fullorðinsárin og loks fáein bréf, alþýðufræði og kveðskapur eftir Magnús. Í ítarlegum inngangi sínum rekur Sigurður Gylfi æviferil Magnúsar og fjallar um textasköpun hans í ljósi sagnfræði og söguspeki. Megninhluti bókarinnar, ríflega 270 síður, er helgaður sýnishornum úr dagbókunum. Auk styttri brota hafa verið valdir fjórir kaflar sem ná óslitið yfir tiltölulega löng tímabil og gefa þeir heillega sýn á greinargerð Magnúsar um umhverfi hans, líf og hugsanir frá degi til dags. Kaflarnir, sem lýsa tíðindaríkum tímabilum í lífi Magnúsar, fanga vel athygli lesandans jafnframt því að gefa góða mynd af samfellu dagbókarritunarinnar.

Útgáfa þessara persónulegu heimilda sætir tíðindum einkum fyrir tvennar sakir. Annars vegar skiptir útgáfan máli fyrir bókamenn ­ en alþekkt er að Halldór Laxness sótti innblástur og fyrirmyndir að persónusköpun Ólafs Kárasonar Ljósvíkings í dagbækur og sjálfsævisögu Magnúsar. Því má ætla að ritið komi til með að standa sem nokkurskonar neðanmálsgrein við Heimsljós og verði ómissandi lesefni í Laxnessfræðum framtíðarinnar.

Hins vegar hefur útgáfa sem þessi þýðingu fyrir orðræðu sagnfræði hér á landi. Bókin er gefin út undir formerkjum aðferðafræði sem nefnd hefur verið einsaga. Aðferðir einsögunnar greina sig frá aðferðum þeirrar félagssögu sem einkennt hefur sagnfræði undanfarna áratugi og fæst við Íslandssögu síðari alda. Einsagan er upptekin af hinu einstaka og sérstæða, útmörkum samfélagsins, í stað þess að leitast við að gefa yfirsýn yfir samfélagsþróunina með vísan til hins dæmigerða. Eftir sem áður krefst einsagan hlutdeildar í hinni almennu sögu. Fræðimenn sem ástunda einsögu vilja meina að rannsóknir á ævislóðum sem lágu utan meðalvegarins opni fyrir mikilvæga sýn á samfélagið, sýn sem hulin er hefðbundinni félagssögu. Í inngangi sínum tekst Sigurður Gylfi m.a. á við tengslin milli sérstæðrar lífsbaráttu sveitarómagans, lausamannsins, barnakennarans, þurrabúðarmannsins, tukthúslimsins og skáldsins Magnúsar Hj. Magnússonar og þeirrar almennu samfélagsmyndar sem dregin hefur verið upp af söga aldamótaáranna síðustu. Hann kemst að eftirfarandi niðurstöðu: "Maðurinn sem bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðamennirnir reynir meira á formgerð samfélagsins en hinn sem læðist með veggjum og er því líklegri til að varpa ljósi á raunverulegt gangvirki þess" (bls. 91). Sigurður Gylfi er jafnframt upptekinn af þeirri sérkennilegu skírskotun sem líf Magnúsar hefur til persónu Ljósvíkingsins. Samspil dagbókarinnar og texta Laxness verður honum tilefni til að velta upp sambandi sagnfræði við raunveruleika fortíðarinnar og því hvort sögulegur skáldskapur sé ef til vill betur til þess fallinn að koma fortíðinni til skila við nútímann. Þannig geti listræn sköpun skáldsins á stundum opnað fyrir gleggri skilning á tíðaranda og kringumstæðum heldur en vísindalegar aðferðir sagnfræðingsins.

Tilkall Sigurðar Gylfa til sagnfræðilegs sannleika fyrir hönd hins einstaka og fyrir hönd skáldskaparins er áleitið söguspekilegt vandamál fyrir iðkendur sagnfræði. Vandinn snýr ekki eingöngu að því hvernig sagnfræðin getur gefið sem sannasta heilstæða mynd af fortíðinni, heldur líka að því hvers eðlis sannleikurinn er. Eru kannski til margir ósamstæðir sannleikar sem eru frekar háðir orðræðu þess sem starir í söguna heldur en fortíðinni sjálfri?

Hvað sem líður afstöðu manna gagnvart sannleikshugtakinu veitir dagbók Magnúsar óvenju beinan aðgang að hugarheimi alþýðumanns sem bjó við kringumstæður sem virka harla framandi í samhengi tilveru flestra núlifandi Íslendinga. Fyrir þær sakir eru dagbækurnar allrar athygli verðar. Ég hygg líka að bókin muni nýtast þeim sem rannsaka alþýðumenningu tímabilsins, ekki síst nemendum í sagnfræði sem sjaldnast hafa mikið tóm til að liggja yfir handrituðum heimildum. Leiðir það hugann að aðgengi að þessum mikilsverða brunni um sögu þjóðarinnar sem handrituð söfn eru. Bókaútgáfa sem þessi getur aldrei orðið annað en lítið sýnishorn af þeim víðfeðmu persónulegu og opinberu handrituðu gögnum um fyrri tíð sem leynast þar sem fáir af þeim vita. Því er það brýnt að farið verði af alvöru að huga að tölvuvæðingu slíkra gagna, þannig að þau yrðu í ríkara mæli aðgengileg fræðimönnum og almenningi, t.a.m. á vettvangi Netsins.

Ólafur Rastrick

Sigurður Gylfi Magnússon

Magnús Hj. Magnússon