SJÁLFSTÆÐISMENN á Suðurlandi héldu Þorsteini Pálssyni og konu hans Ingibjörgu Rafnar veglegt kveðjuhóf á Hótel Selfossi á föstudagskvöld. Vel á annað hundrað Sunnlendingar heiðruðu þau hjón með nærveru sinni. Fjölmargir tóku til máls og voru þeim hjónum þökkuð góð störf og vinátta við Sunnlendinga í þau sextán ár sem Þorsteinn hefur verið þingmaður kjördæmisins.
"Þökkum Ingibjörgu lánið á Þorsteini" Hveragerði. Morgunblaðið.

SJÁLFSTÆÐISMENN á Suðurlandi héldu Þorsteini Pálssyni og konu hans Ingibjörgu Rafnar veglegt kveðjuhóf á Hótel Selfossi á föstudagskvöld. Vel á annað hundrað Sunnlendingar heiðruðu þau hjón með nærveru sinni.

Fjölmargir tóku til máls og voru þeim hjónum þökkuð góð störf og vinátta við Sunnlendinga í þau sextán ár sem Þorsteinn hefur verið þingmaður kjördæmisins. Halldór Gunnarsson, Holti, talaði sérstaklega til Ingibjargar Rafnar, eiginkonu Þorsteins, og sagði Sunnlendinga nú vera að skila henni Þorsteini aftur eftir langa og farsæla samvinnu. Sunnlendingar gerðu sér vel grein fyrir því álagi sem fylgdi því að eiga eiginmann í jafn erilsömum störfum og Þorsteinn hefur gegnt í gegnum tíðina og fyrir þau störf þökkuðu þeir nú.

Helgi Ívarsson, Stokkseyri, flutti hnitmiðaða ræðu til þingmannsins og konu hans og þeir voru margir sem tóku undir orð hans þar sem hann þakkaði Þorsteini framlag hans til Suðurlands sem og til landsins alls. Ingibjörg og Þorsteinn hverfa nú til nýrra starfa á erlendum vettvangi en hann mun taka við stöðu sendiherra í London innan skamms. Ef marka má orð sunnlenskra sjálfstæðismanna má ætla að gestkvæmt verði í sendiráðinu í London enda hafa þau hjón eignast marga góða vini á Suðurlandi í gegnum störf sín þar síðustu 16 ár. Morgunblaðið/Aldís Hafsteinsdóttir ÁRNI Johnsen, Þorsteinn Pálsson og Steindór Gestsson frá Hæli, leiðtogar sunnlenskra sjálfstæðismanna frá 1967.