Í ÁRSSKÝRSLU Rauða kross Íslands, sem lögð var fyrir aðalfund félagsins í gær, kemur m.a. fram að tekjur félagsins á síðasta starfsári, frá 31. júlí til 31. desember 1998, voru tæplega 346 milljónir króna. Á þessum sex mánuðum varði félagið um 104 milljónum til alþjóðahjálparstarfs, sem náði til 36 landa. Af þeirri upphæð var um 60 milljónum króna varið til neyðaraðstoðar.
Ársskýrsla Rauða kross Íslands

Sextíu milljónir í neyðaraðstoð á sex mánuðum

Í ÁRSSKÝRSLU Rauða kross Íslands, sem lögð var fyrir aðalfund félagsins í gær, kemur m.a. fram að tekjur félagsins á síðasta starfsári, frá 31. júlí til 31. desember 1998, voru tæplega 346 milljónir króna. Á þessum sex mánuðum varði félagið um 104 milljónum til alþjóðahjálparstarfs, sem náði til 36 landa. Af þeirri upphæð var um 60 milljónum króna varið til neyðaraðstoðar.

Verkefni vegna náttúruhamfara og félagslegrar neyðar voru áberandi í hjálparstarfi félagsins á starfsárinu, sem nær aðeins til síðari helmings 1998 vegna breytinga á fjárhagsári félagsins. Aðstoð við Rússa, en talið er að um 17 milljónir þeirra lifi undir fátæktarmörkum, var umtalsverð. Hún fólst í matvælum, fatnaði og fjármagni að andvirði um 36 milljónir króna. Þá varði Rauði krossinn um tíu milljónum til hjálparstarfs vegna náttúruhamfaranna í Mið-Ameríku þegar fellibylurinn Mitch gekk yfir.

Tólf sendifulltrúar störfuðu fyrir félagið víða um lönd og sjálboðaliðastarf var sem fyrr öflugt. Nefndir eru tugir sjálfboðaliða sem tóku þátt í móttöku flóttamanna á Blönduósi og sjálfboðaliðar ungmennahreyfingarinnar sem unnu að margvíslegum verkefnum.

Í neyðarathvarfi fyrir börn og unglinga, sem er í Rauðakrosshúsinu, dvöldust 76 ungmenni og gestakomur í Vin, athvarf fyrir geðfatlaða, voru yfir átta þúsund.

Tombólubörn fá sérstakar þakkir í skýrslunni en hundruð þeirra færðu félaginu tæpar 180 þúsund krónur á tímbilinu sem varið var til aðstoðar börnum í Hondúras þar sem fellibylurinn Mitch geisaði.