SUMIR hallast nú að því í bílaborginni Detroit að þess verði ekki langt að bíða að Ford taki við af General Motors sem stærsti bílaframleiðandi heims. Sölutölur fyrstu fjóra mánuði ársins renna stoðum undir kenningar af þessu tagi.
Nær Ford fyrsta

sætinu af GM?

SUMIR hallast nú að því í bílaborginni Detroit að þess verði ekki langt að bíða að Ford taki við af General Motors sem stærsti bílaframleiðandi heims. Sölutölur fyrstu fjóra mánuði ársins renna stoðum undir kenningar af þessu tagi. GM hafði sett sér þær áætlanir að halda 30% markaðshlutdeild á árinu vestra og hafði reyndar gott betur fyrstu fjóra mánuðina, eða 30,6%, en á það er bent að heildarsalan á fólksbílum heldur áfram að aukast hraðar en sala á GM bílum. Samdráttur varð í sölu á Chevrolet, Saturn og Cadillac í apríl, allt merki í eigu GM, á sama tíma og söluaukning varð hjá Toyota og Honda sem og flestum evrópskum bílframleiðendum.

Ford, sem er undir nýrri yfirstjórn stjórnarformannsins William Clay Ford yngri, gæti á þessu ári haft sætaskipti við GM sem stærsti bílaframleiðandi heims og yrði það í fyrsta sinn síðan 1930 sem Ford skipaði það sæti. Síðastliðin tvö ár hefur orðið meiri hagnaður af starfsemi Ford en GM, sem hefur átt í langvinnum kjaradeilum við verkalýðsfélög innan bílaiðnaðarins, og þurft að horfa upp á minnkandi markaðshlutdeild.

Salan eykst hraðar hjá Ford

Þrátt fyrir að Ford hafi á síðasta ári selt 1,4 milljónum færri bíla en GM er bent á að salan aukist hraðar hjá Ford. GM hefur dregið úr starfsemi sinni og einbeitt sér í auknum mæli að framleiðslu fólksbíla og jeppa ásamt pallbílum, en Ford víkkar stöðugt út starfsemina, síðast með kaupum á Volvo og öðrum fyrirtækjum sem tengjast bílgreininni.

Nýlega keypti Ford Kwik-Fit verkstæðakeðjuna og í Bandaríkjunum er fyrirtækið að hleypa af stokkunum metnaðarfullu verkefni sem lýtur að endurvinnslu á bílum. Á blaðamannafundi 13. maí sl., að afloknum hluthafafundi, gaf Jac Nasser, forstjóri og aðalframkvæmdastjóri Ford, til kynna að enn frekari útvíkkun starfseminnar væri ekki útilokuð.

Sérfræðingar segja að helsti styrkur Ford felist einmitt í getu fyrirtækisins til að útvíkka starfsemina og að auka fjölbreytni í bílaframleiðslu á sama tíma og dregið er úr kostnaði. Ford hefur ekki hikað við að hætta framleiðslu á bílum sem hafa selst hægt og verið ráðandi á jeppa- og pallbílamarkaðnum vestra.

Ford hefur hins vegar selt mun minna af fólksbílum en GM. Nýjustu bílar Ford, þ.e. Focus, Thunderbird sportbíllinn og Lincoln LS, gefa stjórnendunum hins vegar ástæðu til bjartsýni.

WILLIAM Clay Ford yngri var í forsæti í fyrsta sinn á hluthafafundi 13. maí sl. Sýnt var beint frá fundinum á risastórum sjónvarpsskjá á Times torginu í New York.

FORD Thunderbird er einn þeirra bíla sem stjórnendur Ford binda vonir um að bæti afkomu fólksbíladeildarinnar. Ennþá er bíllinn þó einvörðungu á hugmyndastigi.