Ragnheiður Guðmundsdóttir Margur öðlingurinn er á stærsta vinnustað þjóðarinnar, Háskóla Íslands. Óneitanlega eru það líka forréttindi að fá að starfa með æsku landsins, skynja þekkingar- og framtakslöngun hennar, leggja sitt af mörkum í mótun mikilla einstaklinga og stækka sífellt sviðið, þar sem mannsandinn ræður ríkjum. Hæfara fólk, betra mannlíf, hamingjusamari þjóð, ­ "ó fagra veröld". Nýlátnir eru af starfsmönnum skólans próf. Gunnar Guðmundsson, læknir og próf. Þorleifur Einarsson, jarðfræðingur, persónulegir vinir og tilhlökkun að hitta alla daga. Einnig minnist ég með virðingu og þökk próf. Ólafs Björnssonar, hagfræðings og alþingismanns, stjórnmálaskörungs og eins brautryðjenda sinna fræða á Íslandi. Ólafur Magnússon, gjaldkeri Háskólans, er nýlátinn, sem og yfirsmiðurinn Magnús Bergsteinsson, eftirminnilegir félagar, sem kunnu lausn á öllum vanda. "Kraftaverkin gerum við strax, hitt tekur aðeins lengri tíma." Minntu jafnvel helst á Sigurstein Árnason, yfirsmið skólans í áratugi, sem öllu bjargaði. Núna kveðjum við Ragnheiði Guðmundsdóttur, fyrstu matráðskonuna okkar. Við höfðum lengi hist í kaffinu í aðalbyggingunni fyrir aldarfjórðungi, Stefán háskólaritari og Perla Kolka, Guðlaugur rektor og Erla aðstoðarháskólaritari ásamt fleirum, bak við skáp í vélritunarherberginu, inn af herbergi Sigurðar, deildarfulltrúa VR, og maulað kexið okkar og marmelaði. Þetta var mjög þjóðleg samkoma og vakti tilhlökkun allan daginn. Landið og miðin undir í umræðunni, þingeysk stórmenni og útgerð á Suðurnesjum brotin til mergjar, sem og starfsmannamál stofnunarinnar, fjármál og húsnæðismál. Stjórnmál þjóðarinnar fengu auðvitað líka sinn skerf og jafnvel framboðsmál til embættis forseta Íslands. Kvenfólkið með klæðaburð allra á hreinu, Stefán landsfrægur íþróttamaður og söngvari og reyndur sem yfirvald Þingeyinga.

"Hún er sérfræðingur í smurbrauði," kvað Erla upp úr einn daginn og við mændum á hana. Kjaraátökin 1978 höfðu nefnilega fært okkur mötuneyti og nú var búið að ráða matráðskonuna. Guðlaugur rektor lét okkur strax eftir besta staðinn í húsinu, með útsýni yfir höfuðborgina og flugvöllinn og stækkunarmöguleika inn í gömlu kennarastofuna á norðurgangi. Smurbrauðið hennar Ragnheiðar reyndist líka strax það besta, sem við höfðum smakkað. Í eldhúsinu var allt það helsta til matseldar og við Ragnheiður hófum þegar mikla landvinninga á sælkeramarkaði íslenskra matvæla. Ekki mátti reyna um of á kostnað, þannig að við höfðum okkar aðferðir við reksturinn. Töluðum við Jón á Reykjum um kjúklinga og stórbændur austanfjalls um naut. Smám saman tókst okkur að eigin mati og margra annarra að gera þetta að einu besta mötuneyti landsins og best rekna. Við trúðum á íslenskan heimilismat, enda þjóðhagslega best, fyrir utan allt annað. Kjöt, fiskur, grænmeti og mjólkurvörur, allt ferskt, og það síðarnefnda daglega frá Hreini í Hagabúðinni. Heilbrigt eins og sjálfur víkingastofninn. Á jólunum "glattaður" hamborgarhryggur og "fromage". Tuttugu ár í ævi mötuneytis eru langur tími. Heimsveldi hafa haft það á orði að enga mikilvæga samninga ætti að gera, ­ jafnvel ekkert mikilvægt ætti að ræða, ­ nema yfir góðum mat. Slíkan kost gaf Ragnheiður starfsfólki Háskólans svo sannarlega, enda hafa mörg mál fengið farsæla lausn í mötuneytinu. Kostnaður starfsfólks í lágmarki, ­ líklega ein besta kjarabót, sem við höfum gert. Stofnunin þurfti ekki að sjá á eftir starfsfólki sínu úr húsi í matartímanum. Sumir gleypa jafnvel í sig á fimm mínútum og eru eins og nýir menn á eftir. Ragnheiður var fædd á Króki í Holtum, nálægt fæðingarstað móður minnar. Við urðum strax miklir vinir. Yfir henni hvíldi þessi hressi yndisleiki, gleði og fjör. Bróðir hennar var Guðbjartur, þekktur hestamaður hér í borg. Stundum á haustin, þegar ég hafði verið á fjalli á Landmannaafrétti, ­ kominn í bæinn ­, þá horfði Ragnheiður á mig kímin á svip: "Ég þorði aldrei í Landréttir, þeir slógust svo mikið." Mamma, sem líka var matráðskona, sagði ósjaldan að hún saknaði þess að vera ekki sterkari, þegar hún var að bisa við stóru pottana. Það er oft erfitt að vera kona og eldamennska á stórum vinnustað er ekkert grín. Þegar við horfum á helstu prófessora og fræðimenn þjóðarinnar í guðfræði, læknisfræði, lögum, heimspeki, bókmenntum og málvísindum, hagfræði, viðskipta- og verkfræði, félags- og raunvísindum ásamt starfsfólki stjórnsýslunnar verða gott af matnum, þá vitum við að ævintýrið, sem hófst á bak við skápinn í vélrituninni á sínum tíma, hefur vel gagnast íslenskri þjóð. Þökk sé matráðskonunum og öllum brosmildu aðstoðarstúlkunum. Fyrir nokkru dró Ragnheiður sig í hlé frá pottunum okkar, erfiðið var of mikið. Þá fékk hún meiri tíma til þess að sinna börnunum sínum, sem hún elskaði svo heitt. Hversu mörg voru ekki orðin og stundirnar, sem hún átti um þau. Glöðust var hún alltaf, þegar þau gáfu sér tíma að kíkja í skólann til mömmu. Þau hafa nú mest misst, sem og barnabörnin. Ég votta þeim mína dýpstu samúð, sem og ættingjum öllum og vinum. Kærri vinkonu og félaga í brauðstritinu, sem og þjóni við musteri hámenningar íslensku þjóðarinnar, þakka ég samfylgdina. Guð ástar og gleði taki Ragnheiði mína sér að hjarta og veiti henni sinn frið. Guðlaugur Tryggvi Karlsson.