Ragnheiður Guðmundsdóttir Ævin líður furðu fljótt,

feigðar sniðinn hjúpur.

Autt er sviðið, allt er hljótt,

aðeins friður djúpur.Grípa mein hið græna tré,

grefst hinn beini viður.

Brákast grein þó blaðrík sé,

brotnar seinast niður.

(Á.K.) Í dag kveðjum við hana Heiðu frænku sem lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 14. maí sl. eftir stutta sjúkdómslegu. Hún var fædd að Króki í Ásahreppi 16. ágúst 1929, þriðja yngst í hópi 14 systkina.

Ung missti hún móður sína og ólst upp hjá föður sínum sem naut aðstoðar eldri systra hennar við heimilishaldið.

Mig langar aðeins að minnast hennar með örfáum fátæklegum orðum og þakka henni samfylgdina.

Elsku frænka, um þig á ég margar og góðar minningar, t.d. þegar við sátum saman heilt kvöld og flettum ljóðabókum til að finna nógu fallegt ljóð til að hafa í minningargrein um hann afa, pabba þinn, og svo grétum við báðar. Þú varst þvílíkur dugnaðarforkur að orðin "ekki hægt" voru ekki til í þínum huga. Þú varst alltaf boðin og búin að gera allt sem þú gast fyrir alla, sérstaklega þá sem minna máttu sín.

Einu sinni spurði ég þig, meira í gamni en alvöru, hvort þú vildir ekki leysa mig af í vinnunni svo ég kæmist í frí og það var sko ekkert mál. Þú tókst þitt sumarfrí til þess og eftir það fannst þér það bara sjálfsagt að ef ég þyrfti að fara frá, þá kæmir þú og bjargaðir málunum. Ég þurfti engar áhyggjur að hafa, því ég vissi að allt var í eins góðum höndum og hægt var.

Hjá þér voru engin vandamál til, aðeins mismunandi erfið verkefni að leysa. Alltaf varstu svo kát og hress, það geislaði af þér krafturinn. Því að vera að vola þegar lífið hafði uppá svo mikið að bjóða? Þú sagðir alltaf að það að hafa góða heilsu og eiga góð og heilbrigð börn, væri það besta sem Guð gæti gefið nokkrum manni.

Alla tíð vannstu við matargerð og varst listamaður á því sviði og margan góðan bitann hef ég hjá þér fengið og margt af þér lært.

Þú áttir svolítið erfitt með að sætta þig við þegar þú, sökum meiðsla, þurftir að hætta að vinna. Þú hafðir alla tíð unnið svo mikið að þú kunnir ekki að vera aðgerðarlaus, en það tókst eins og allt annað. Þú hafðir eignast landskika á æskuslóðum móður þinnar og komið þér þar upp sælureit í gömlum strætó sem þú hafðir innréttað sem sumarbústað. Þar áttir þú margar góðar stundir við að gróðursetja plöntur og dytta að ýmsu eða bara finna til góðgerðir handa gestum. Til þín var alltaf gott að koma.

Elsku Dúna, Óskar, Helga og Erlendur, þið hafið misst mikið og svo snöggt, en það er huggun harmi gegn að hún þurfti þó ekki að líða kvalir.

En minning hennar mun lifa og ylja okkur um ókomna tíð.

Ég sendi aðstandendum öllum innilegar samúðarkveðjur, ég er viss um að vel hefur verið tekið á móti henni þarna hinumegin og hún mun vaka yfir ykkur öllum áfram.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibj. Sig.) Elsku frænka, ég kveð þig með söknuði og þakka fyrir að hafa átt þig að.

Hvíl þú í friði.

Þín frænka,

Elsa Aðalsteinsdóttir.