Ragnheiður Guðmundsson Kær vinkona mín er látin.

Á mig sækja ótal minningar um samveru okkar Heiðu fyrr og síðar.

Þegar ég sit nú og blaða í Spámanninum rekst ég á tilvitnun hans um vináttuna: "Þú skalt ekki hryggjast þegar þú skilur við vin þinn, því það sem þér þykir vænst um í fari hans getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallið sést best af sléttunni."

Vissulega þekkti ég Heiðu vel og alla hennar góðu þætti, en núna þegar hún er farin finnst mér ég sjá í enn skýrara ljósi mannkosti þessarar góðu vinkonu minnar.

Á höfuðbólinu Stóra-Hofi, þar sem ég dvaldi mörg sumur á yngri árum, var jafnan líf og fjör og fjöldi ungs fólks yfir sumarið. En haustið, sem hún Heiða kom þar til starfa, hafði verið ákveðið að ég yrði einnig þar yfir veturinn. Ég man að mér þótti hálfdapurlegt þegar sumarfólkið var farið, en koma þessarar dökkeygðu, hláturmildu stúlku breytti öllu. Allir dagar urðu ævintýri. Við urðum óaðskiljanlegar í mörg komandi ár. Hún hafði allt til að bera sem prýða mátti góða vinkonu: kát, skemmtileg, ákveðin og áræðin, en umfram allt hjálpsöm og trygg í gegnum þykkt og þunnt.

Og hvað við skemmtum okkur vel!

Ég fékk að fara eina helgina með Heiðu í heimsókn út að Króki, þar sem hún átti heima. Þar mætti ég slíkri hlýju og gestrisni að fágætt var, og þar hitti ég Guðmund föður Heiðu, sem seinna varð tengdafaðir minn. Strax og ég tók í hönd hans fann ég að þar fór höfðingi, traustur, virðulegur og góður. Og slík glaðværð sem ríkti þar meðal allra dætra hans og sona, sem enn voru í föðurhúsum, var með eindæmum. Ég á heldur ekki orð yfir fegurð fjallanna og umhverfisins og hef hvergi á byggðu bóli komið á fegurra bæjarstæði heldur en í Króki í Holtum.

þannig var umhverfið sem hún Heiða mín ólst upp í, stórbrotið og glæsilegt eins og hún sjálf.

Eftir hin glaðværu æskuár okkar í sveitinni og einnig samveru okkar á húsmæðraskólanum á Hverabökkum skildu leiðir um árabil. Vissum við þó alltaf hvor af annarri. Við tóku ár búskapar og barneigna hjá báðum. En vissulega urðu tengslin meiri en venjuleg vinátta, því þegar ég giftist mínum elskulega Gísla, bróður Heiðu, hafði ég tengst þessari góðu fjölskyldu fyrir lífstíð.

Við áttum svo því láni að fagna að endurnýja gömul kynni með ýmsu móti. Báðar vorum við orðnar einar í okkar ranni þegar við eignuðumst landið okkar austur í Rangárþingi. Þar í faðmi hins óvenjufagra fjallahrings áttum við hin síðustu ár margar unaðsstundir. Og draumurinn okkar Heiðu, að rækta þar okkar eigin skógarlund, er næstum því farinn að rætast. En eins og flestir vita sem fást við ræktun þarf að hafa næga þolinmæði þegar brjóta á nýtt land. Þegar ég sagði henni Heiðu vinkonu minni það, og eins að hún ætti ekki að ætlast til neins í dag eða á morgun, heldur hugsa í árum eða jafnvel öldum, gat hún bæði grátið og hlegið í senn, því þolinmæði í þessum málum var ekki hennar sterka hlið.

Við höfðum báðar komið okkur upp litlu athvarfi í landinu okkar, og fór hún Heiða mín ekki endilega troðnar slóðir þar, því einn góðan veðurdag stóð gamall strætisvagn þar í móunum. það var gaman að sjá hvað henni tókst að gera allt heimilislegt og myndarlegt þar, bæði úti og inni. Heimilið í strætó var eins og undarlegt sambland af sígaunavagni og hefðarstofu. Naut hún þar einnig aðstoðar sinna mannvænlegu barna, sem ætíð stóðu við hlið hennar. Barnabörnin, sem voru sólargeislar í lífi ömmu sinnar, áttu þar ómældar gleðistundir. Sama mátti segja um mín börn og barnabörn og annarra, sem alltaf voru velkomin, því hún var mikill barnavinur.

Fuglarnir í móum og mýrum áttu einnig hug hennar og var hún orðin ótrúlega glögg á fuglanöfn og lifnaðarhætti þessara vængjuðu vina.

Engan hitti ég á lífsleiðinni góðviljaðri, réttsýnni og ákveðnari. Skoðanir sínar lét hún tæpitungulaust í ljós; rík réttlætiskennd og samúð með lítilmagnanum var henni í blóð borin. Mörg hin síðari ár var Heiða nánast óvinnufær eftir slæma byltu sem hún hafði hlotið á vinnustað. Hún lét það aldrei buga sig og var ótrúlegt að sjá hverju hún gat komið í kring í landinu sínu, og draumar hennar og bollaleggingar um hvað hún vildi gera í framtíðinni hrifu mann með sér. Þá vorum við oft og tíðum fullar af eldmóði og ekki grunaði okkur að við ættum eftir svo stutta samleið.

En sá illivígi sjúkdómur sem svo marga leggur að velli hafði haldið innreið sína og hafði svo hljótt um sig að engan grunaði að endalokin væru svo nærri.

Börnin hennar og barnabörn sem syrgja ástkæra móður og ömmu munu öll erfa hina mörgu góðu eiginleika og mannkosti Heiðu, hvert á sinn hátt. Og bæði þau og við hin, sem jafnan fórum ríkari af hennar fundi, munu ætíð minnast þessarar sérstæðu konu með þakklæti fyrir allt og allt.

Megi guð gefa að hópurinn hennar sameinist um lundinn hennar og haldi þannig merki hennar á lofti um ókomin ár. Ég sendi ástvinum hennar mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið góðan guð að styrkja ykkur í sorginni.

Dagbjört.