Guðrún Theódóra Beinteinsdóttir Var hringt í þig? ­ Nei. ­ Um leið og hjúkrunarkonan á Landakoti spurði áttaði ég mig. Hún Gunna frænka var dáin. Ég kom beint af sjónum snemma árdegis, en hún hafði látist fyrir rúmum klukkutíma. Þú sem varst svo hress á Landspítalanum aðeins viku áður þegar ég fór út á sjó.

Ég man þá daga vel þegar ég var "passaður" á Sporðagrunninu hjá Gunnu og Halla. Í þá daga var ég litla barnið og fannst gott að vera hjá þeim, enda var "stjanað" við mig á allan hátt. Á þeim árum vann Halli í Kjötbúðinni Borg og Gunna hjá Sláturfélaginu. Sem barn hljóp ég eftir sundinu milli Borgarhúsanna og Halli stóð í dyragættinni með stóru hvítu svuntuna, já, það er eins og þetta hafi gerst í gær. Fyrir tæpum tíu árum dvaldi ég hjá þeim í stuttan tíma við próflestur. Eins og nú lifnuðu allar góðu minningarnar í huga mínum. Hjá Gunnu og Halla var ég alltaf velkominn.

Eftir að Halli lést á síðasta ári urðu samskipti fjölskyldu minnar og Gunnu enn þá nánari og ég fór oft til hennar til að fara yfir póstinn með henni, því þar sem hún hafði alla tíð verið skrifstofudama var það hennar lágmarkskrafa að hafa allt pappírskyns í röð og reglu.

Fyrir rúmum mánuði fórum við í leiðangur niður í bæ. Hún bað mig um að keyra sig á sínum bíl, enda var það í seinni tíð hennar aðalsmerki að eiga sinn eigin bíl og aka honum þótt heilsunni væri farið að halla. Ekki grunaði mig þá að þetta yrði okkar síðasti bíltúr saman.

Föstudaginn langa sl. komu mamma og Gunna í mat til okkar. Þessi kvöldstund var sérstaklega hlýleg og vel heppnuð eða eins og Gunna sagði sjálf: "svona eiga heimboð að vera".

Gunna frænka var mjög hrifin af drengjum okkar Þórunnar, Sigurði og Agli. Sigurði fannst gott að halda í höndina á Gunnu og hún sagði mér að hann hefði mikla hlýju fram að færa með hendinni. Siggi minn er ekki sáttur við að Gunna sé dáin og talar um að hún komi brátt aftur. Egill okkar þriggja ára kallaði Gunnu oft ömmu og fyrir það fékk hann sérstaka athygli.

Við eigum eftir að sakna þín, Gunna mín, við minnumst brossins, þíns hlýja viðmóts, þú og mamma að spila fjórhent á píanóið, þið tvær að þrasa og jafnvel sígarettanna, en ég hélt að þeirra yrði aldrei saknað.

Margréti Hafliðadóttur og fjölskyldu þökkum við hlýhug og umhyggju alla tíð.

Margir hafa aðstoðað og hjálpað Gunnu frænku síðustu mánuði. Er þeim öllum þakkað.

Mamma, þinn söknuður verður sjálfsagt mestur, því þið tvær voruð nánast eins og eitt alla tíð.

Gunnu frænku og Hafliða kveðjum við með söknuði eins og öll mín fjölskylda gerir.

Valgeir og fjölskylda.