Svana E. Sveinsdóttir Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,

borgina hrundu sé við himin ljóma,

og heyri aftur fagra, forna hljóma,

finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.

Minning þín opnar gamla töfraheima.

Blessað sé nafn þitt bæði á himni og jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu.

Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.

Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.

(Davíð Stefánsson.) Með þessu fallega kvæði vil ég kveðja móður mína sem nú er kvödd hinstu kveðju. Þegar ég minnist hennar þá sækja á huga minn minningar frá æskuárunum í Keflavík. Mamma hafði alltaf frá svo mörgu skemmtilegu að segja, hún hafði gaman af því að vera innan um fólk, var glaðlynd og mikil félagsvera. Á þeim árum sem við systkinin vorum að alast upp var tíðarandinn annar en hann er í dag. Mæðurnar voru í flestum tilfellum heimavinnandi og þannig var það á okkar heimili. Mamma var þessi kjölfesta í uppeldinu, hún saumaði á okkur fötin hvort sem var á okkur eða dúkkurnar, hún bakaði mikið og vildi alltaf eiga nóg til að bjóða með kaffinu. Allir sem þekktu Svönu vita að hún lagði mikið upp úr því að hafa heimilið hreint og hlutina í röð og reglu og var það ríkur þáttur í uppeldinu að hafa okkur systkinin sem snyrtilegust. Hún lagði mikið upp úr því að vera sjálf vel til höfð, fannst sérstaklega gaman að klæða sig upp á, enda fannst mér mamma alltaf vera afar glæsileg kona.

Mamma og pabbi komu oft nú á seinni árum og dvöldu á heimili mínu. Þau kynntust þannig vel drengjunum mínum sem nú kveðja ömmu sína með söknuði. Þeim þótti afar vænt um hana og á milli þeirra voru einstaklega miklir kærleikar.

Mikið á ég eftir að sakna hennar mömmu minnar, hún fór svo snögglega að það á eftir að taka mig langan tíma að átta mig á því.

Það að heyra ekki lengur hressandi málróminn og finna ekki glaðværðina sem umkringdi hana alla tíð á eftir að mynda tómarúm sem erfitt verður að sætta sig við.

Ég vil fyrir hönd fjölskyldunnar þakka hjúkrunarfólkinu á deild B7 á Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem hlúði að mömmu síðustu klukkustundirnar í þessu lífi. Það var táknrænt að um það leyti sem hún skildi við þá snjóaði lítillega þrátt fyrir að vorið væri komið. Það var alltaf hátíðarstemming í huga hennar þegar fyrsti snjórinn féll á haustin, þá sagði hún: Það er farið að "fukta" og kveikti alltaf á kerti.

Hún mamma umvafði okkur öll til hinstu stundar og nú að leiðarlokum vil ég fyrir hönd fjölskyldunnar þakka allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Guð geymi þig, elsku mamma mín.

Þín dóttir

Jenný.