Dröfn Pétursdóttir Snæland Ég var svo lánsöm að eiga eina yndislegustu ömmu að. Til rúmlega ellefu ára aldurs bjó ég í Ólafsvík og hitti þá ömmu ag afa þegar ég kom til Reykjavíkur og einnig komu þau oft til okkar á jólunum. Ég stærði mig af því að eiga mýkstu ömmuna (og kallaði hana oft ömmu mjúku). Eitt skipti þegar hún kom í heimsókn kom vinkona mín til að sjá ömmu mjúku, því hún var með svo mjúka húð og alveg ekta amma. Hún spilaði oft við mig og ég fór líka með henni í spilakassana og var mjög montin yfir því hversu heppin hún var alltaf, hún fór t.d. ekki öðruvísi á bingó en að koma heim með nokkra vinninga.

Eitt sumarið fór amma með fjölskyldu minni til Svíþjóðar. Þar fór hún á kostum í tívolíinu og vann tvær fullar ferðatöskur af böngsum og dóti. Vonbrigðin urðu mikil þegar töskunum var stolið, en amma gaf mér sætan strumpabangsa sem situr nú á rúminu mínu þar sem amma er farin frá mér.

Nú síðustu árin var amma mér miklu meira en bara amma. Ég fór oft til hennar og ég gat sagt henni allt sem mér bjó í brjósti. Hún var einn besti trúnaðarvinur sem ég hef átt. Við sátum oft og drukkum kaffi saman og spjölluðum, en amma hafði þann einstaka hæfileika að spá í bolla eftir kaffidrykkjuna. Hún var þessari einstöku gáfu gædd og var spennan oft mikil þegar hún las úr bollanum. Mjög margir spádómar ömmu hafa ræst. Þetta voru orðnir fastir liðir að skreppa í kaffibolla til ömmu.

Amma var mjög hress og lífsglöð kona, hló og gantaðist með mér eins og hún væri jafnaldri minn. Hún studdi mig alltaf í ákvörðunum mínum og mér leið einstaklega vel í návist hennar.

Síðasta sumar bjó ég í London og skrifaði henni alltaf bréf og sagði henni frá öllu sem ég var að gera og hringdi líka í hana til að heyra í henni. Henni fannst mjög skondið þegar hún fékk pakka frá útlöndum einn daginn, því að í honum reyndist vera kaffibolli sem búið var að drekka úr. Hún vissi líka hvaðan hann kom, ekki frá neinni annarri en mér. Stuttu seinna hringdi ég spennt og hún spáði í gegnum símann, alltaf kom á óvart þegar hún hitti naglann beint á höfuðið.

Amma var mjög tilfinningamikil og hjartnæm manneskja. Henni fannst við eiga það sameiginlegt að vera mjög viðkvæmar og með stórt hjarta, eins og hún orðaði það. En þess vegna náðum við svo vel saman, þrátt fyrir 60 ára aldursmun vorum við mjög góðar vinkonur.

Amma saumaði mikið og fannst gaman að dansa. Hún var oft hrókur alls fagnaðar hér heima, t.d. í skötuveislu, þar sem hún hló smitandi hlátri og sagði skemmtilegar sögur.

Allar okkar samverustundir geymi ég að eilífu í hjarta mínu.

Í byrjun þessa árs brotnaði amma mjög illa og var lögð inn á spítala. Ég hélt þá að amma kæmi heim eftir að brotin myndu gróa en eitt leiddi af öðru og heilsu hennar hrakaði mjög ört. Allur líkaminn fór að gefa sig og einn daginn rann það upp fyrir mér að amma átti ekki afturkvæmt af spítalanum og ég vildi ekki trúa því. Ég gat ekki hugsað mér að missa einu ömmuna sem ég átti, sem ég elskaði svo mikið. Ég sat og hélt í hönd hennar þangað til hún kvaddi þennan heim.

Elsku amma, ég veit að þér líður vel núna hjá hinum englunum og þjáningar þínar eru á enda. Núna hittumst við ekki lengur yfir kaffibolla hjá þér en ég er þess fullviss að þú ert fallegasti engillinn á himnum og vakir yfir mér. Ég er svo lánsöm að eiga minningar um allt sem við höfum gert saman.

Elsku besta amma mín, ég sakna þín svo mikið en huggun er að vita að þú verður með mér í anda um ókomna framtíð.

Guð geymi þig og minningu þína, það mun ég gera alla ævi.

Jóhanna Kristófersdóttir.