Jóhanna Kristjánsdóttir Ég er hrygg og vansæl þessa dagana, því systir mín og vinkona er látin. Ég vil minnast hennar og rifja upp okkar áhyggjulausu æskustundir. Lífið er ekki dans á rósum, en sumt stendur upp úr. Við áttum góða æsku á Ísafirði og nutum ástríkis í foreldrahúsum. Áttum alltaf heima í Norðurtanganum, Tangagötunni.

Þar var margt gert til gleði og gamans. Við veiddum marhnúta á Norðurtangabryggju, vorum í mömmuleik á Rístúni, fórum til berja í Múlann og í fjölskylduferð með nesti upp í Stórurð á sunnudögum. Á unglingsárum hjóluðum við út í Hnífsdal eða inn í skóg. Mér finnst að það hafi alltaf verið logn og sól. Veturinn var langur, en það gerði ekkert til, því það var svo margt hægt að gera. Svell var búið til við barnaskólann og íþróttavöllinn við Grund. Við fórum á báða staðina og skemmtum okkur vel. Ég dvel við æskuárin vegna þess að þegar ég hitti systur mína fáum dögum fyrir andlát hennar, brugðum við okkur heim á Ísafjörð og upplifðum það sem ég skrifa niður núna.

Það var allt eins og það hefði gerst í gær. Þetta var góð stund og við höfðum gaman af. Við vorum samrýndar systur, enda líka vinkonur. Sú vinátta entist alla tíð.

Hanna systir var hraust framan af ævi, varð sjaldan eða aldrei misdægurt. Henni varð þungt um sonarmissinn, en tók því eins og öllu öðru, sem við ráðum ekki við. Hún varð ekkja þrem árum eftir þetta áfall. Þá fannst mér henni verða svolítið brugðið.

Áfram var haldið, en eitthvað var brostið. Heilsan var ekki eins góð og áður. Undanfarin ár hefur hún verið mjög lasin, en ekki viljað gera neitt úr því.

Hanna systir var lagleg stúlka og glaðlynd. Hún hafði góða kímnigáfu og hélt henni alla tíð. Hún var vinmörg og mannblendin, hrókur alls fagnaðar með félögum sínum. Helga Guðbjörg og Anna Guðný, dætur Hönnu, lifa móður sína. Þær hafa reynst henni vel í veikindum hennar, sýnt henni nærgætni og natni.

Systir mín var ekki lengi á sjúkrahúsi, fór ekki fyrr en allt annað var útilokað. Dætur hennar voru hjá henni þar til yfir lauk.

Ég votta þeim og ömmubörnum Hönnu og langömmubarninu mína dýpstu samúð og finn til samkenndar með þeim í sorg þeirra. Guð blessi systur mína og afkomendur hennar og gefi þeim styrk á erfiðum tíma í lífi þeirra.

Björg Kristjánsdóttir.