Ívar Ólafsson Ívar Ólafsson var fæddur og uppalinn Svarfdælingur en flutti ungur til Akureyrar, þar sem hann hóf nám í eldsmíði hjá Sveini Tómassyni (sem nú er látinn). Síðan lá leiðin í Vélsmiðjuna Odda þar sem Ívar vann við járnsmíði og nokkru seinna í Véla- og plötusmiðjuna Atla. Fljótt eftir 1950 hófu þeir samstarf Ívar og Björn Kristinsson (sem einnig er látinn). Upphafið að því samstarfi var fólgið í vinnu utan venjulegs vinnutíma, þá aðallega um helgar og á kvöldin eftir að annarri vinnu lauk. Þessa aukavinnu sína stunduðu þeir í bragga sem þeir höfðu komið sér upp á Oddeyri. Árið 1954 bættist Jónas Bjarnason rennismiður í hópinn. Þetta voru ungir og athafnasamir menn fullir af krafti og starfsorku. Ívar og Jónas keyptu síðan hlut Björns og héldu þessari vinnu áfram. Árið 1958 stofnuðu þeir sitt eigið fyrirtæki Jánsmiðjuna Varma og uppúr því hófu þeir að byggja nýtt húsnæði undir starfsemina og fluttu sig úr bragganum.

Fyrirtækið dafnaði og stækkaði, þar var starfrækt plötusmiðja, rennismiðja og síðar blikksmiðja. Allt þetta útheimti mikla vinnu og ósérhlífni og var Ívar þar í fararbroddi, frístundirnar voru fáar, það var fyrst og fremst hugsað um að skila sinni vinnu og gera fyrirtækið sem best úr garði. Vinnan var Ívari mikils virði og líklega hefur honum alltaf liðið best þegar hann hafði sem mest að gera, hann var mjög fær í sínu fagi og hafði vandvirknina ætíð að leiðarljósi, hann var ekki að telja tímana sem hann lagði í verkin, fyrst og fremst var hugsað um að gera hlutina vel.

Í byrjun árs 1984 gerði hjartveiki vart við sig hjá Ívari og þurfti hann í framhaldi af því að ganga í gegnum mikla læknismeðferð, þá kom sér vel hið mikla æðruleysi sem Ívar hafði til að bera, hann tók þessum veikindum sínum með mikilli ró og skynsemi. Hann átti því láni að fagna að hafa son sinn Stefán Ævar við vinnu í plötusmiðjunni og sá hann um allt gengi sinn vana gang þrátt fyrir þetta áfall. Ívar komst aftur til vinnu og sló þá hvergi af frekar en áður. Þó ekki sé hægt að segja að Ívar hafi náð fullkominni heilsu eftir þetta var ekki að finna annað á honum, en að hann væri vel hraustur og treysti sér til allra verka. Samstarf þeirra Ívars og Jónasar var farsælt og hefur hvergi borið skugga á í þessi rúmlega fjörutíu ár.

Járnsmiðjan Varmi starfar nú sem plötusmiðja og rennismiðja, en húsnæði blikksmiðjunnar var leigt fyrirtækinu Blikkrás fyrir nokkrum árum.

Að Ívari er mikill sjónarsviptir og eigum við eftir að sakna hans sem góðs drengs og félaga. Við þökkum honum samfylgdina og þökkum Guði fyrir þá gæfu að hafa fengið að starfa með honum.

Eiginkonu, börnum, tengdasyni og öðrum ættingjum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Samstarfsfólk í Jánsmiðjunni Varma.