Jóhanna Kristjánsdóttir Elsku amma Hanna. Það er svo vont að kveðja þig, en ég verð víst að gera það samt, eins og þú sagðir svo oft: "Maður verður að gera fleira en gott þykir." Þú nefnilega varst eiginlega mamma mín í sex ár, varst heima þegar ég kom úr skólanum og hjálpaðir mér með heimalærdóminn og kenndir mér svo ótal margt um lífið og tilveruna. Það var svo gott að sitja við eldhúsborðið og spjalla saman, þú varst svo flink að útskýra hlutina fyrir mér, þvílík þolinmæði sem þú sýndir mér alla tíð. Þú barst líka svo mikla virðingu fyrir mér og tókst virkan þátt í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur, ég söng fyrir þig þegar ég kom heim af kóræfingu og ég veit ekki um margar ömmur sem vita nánast allt um NBA-körfuboltann, öll helstu fótboltaliðin o.s.frv. Annars var mest gaman þegar þú gistir hjá okkur, sem þú gerði svo oft. Þá spjölluðum við saman langt fram á nótt, ég á dýnunni og þú í mínu rúmi. Mamma þurfti stundum að þagga niður í okkur og segja okkur að fara að sofa, en þá lækkuðum við bara róminn. Mest gaman var þó þegar mamma var í útlöndum og við vorum bara tvö heima. Jæja, amma mín, ég gæti haldið lengi áfram svona, en ég ætla bara að geyma allar þessar yndislegu minningar með sjálfum mér og varðveita þær alla mína ævi og nota allt sem þú kenndir mér. Ég er viss um að þú hefur það gott hjá afa Guðmundi og Krissa frænda og vonandi getur þú lagt kapal og ráðið krossgátur þar eins og hér. Ég gleymi þér aldrei og ég er búinn að ákveða að ég ætla að segja Thelmu Hrund hennar Hönnu Maríu allt um þig og kenna henni að þekkja þig. Ég var að læra ljóð í skólanum í vetur og langar til að kveðja þig, elsku amma, með því:

Hver er hin grátna

sem gengur um hjarn

götunnar leitar, og sofandi barn

hylur í faðmi og frostinu ver,

fögur í tárum en mátturinn þver,

hún orkar ei áfram að halda.

(Jónas Hallgr.) Þinn

Daníel.