Jóhanna Kristjánsdóttir Okkur langar með örfáum orðum að minnast hennar ömmu okkar. Þegar við hugsum til hennar Ömmu Hönnu skjóta upp kollinum minningar um hlýjan faðm, endalausa þolinmæði og takmarkalausa ást. Því voru engin takmörk sett hvað hún amma gat gefið okkur af sér og veitt okkur margt. Þótt hún og afi hefðu aldrei haft sérstaklega mikið á milli handanna var ævinlega til nóg af dekri fyrir okkur krílin hvort heldur var veraldlegt eða annars konar. Amma gat setið og hlustað á okkur mala um hvaðeina sem okkur lá á hjarta og alltaf séð okkar hlið allra mála enda sannfærð um að við gætum sigrað heiminn. Við þökkum henni ömmu öryggið, hlýjuna og elskuna sem við munum búa að alla tíð. Þær gjafir sem hún færði okkur frá hjartanu sínu eru okkar dýrmætasta eign og nú þegar við kveðjum hana veitir það okkur huggun að hugsa til þess að hún amma hefði á þessari stundu stappað í okkur stálinu og viss um að við myndum spjara okkur þó við efumst nú sjálf. Við búum að því að hafa átt hana ömmu og kveðjum hana með söknuði. Við biðjum Guð að vaka yfir og veita styrk mæðrum okkar, systkinum og Bíbí töntu.

Hanna María og Magnús Haukur.