Dröfn P. Snæland, viðbót sunnudag

Það er undarleg tilfinning að setjast niður og skrifa minningargrein um ömmu sína. Ömmu, sem ég hélt að yrði alltaf til, en við ráðum ekki við mátt lífsins.

Elsku hjartans amma mín, ég kveð þig með söknuði og kvíða, já kvíða, því hvað er framundan þegar öllum mínum spurningum er ósvarað? Ég álít samt að eitthvað hafi áunnist þegar ég rifja upp síðustu daga þína og man þegar við sátum tvær einar inni á herbergi á spítalanum og þú lagðir hönd þína á mína og sagðir að nú væri allt orðið gott og allir sáttir. Þú varst ákaflega hamingjusöm þann dag og þá hélt ég að nú færir þú að komast heim. En heilsan brást og þú kvaddir okkur hljóðlega þann 10. mars sl.

Elsku amma, ég gæti skrifað heila bók um allt það sem á daga okkar dreif, um alla bíltúrana í Hveragerði (þegar afi skrapp í golf til Skotlands), allar stundirnar sem við sátum saman og töluðum saman yfir kaffibolla, allar þær nætur sem ég eyddi hjá þér, alla morgnana þegar þú vaktir okkur afa með morgunmat í rúmið og um allar reglur lífsins sem þú lagðir fyrir mig.

Elsku hjartans amma mín, við kveðjum þig að sinni.

Dröfn, Jón Ari og börn.