Stefán Ágúst Soto Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.(V. Briem.) Elsku Stefán minn. Mig langar að kveðja þig með nokkrum línum þó ég sé ekki búin að sætta mig við að þú sért farinn frá okkur. Þú sem áttir allt lífið framundan og framtíðin blasti við þér. Búinn að finna framtíðarnám og starf, lögfræði, og allt lék í lyndi hjá þér. Þú varst svo hamingjusamur en varst þá kallaður brott með engum fyrirvara.

Þegar ég stóð hjá kistu þinni á gamlársdag og horfði á þig rifjuðust upp margar gamlar minningar frá því að þú varst lítill drengur hér heima og allt sem við ætluðum að gera þegar þú yrðir stór. Við ætluðum að giftast og labba upp á háa fjallið og reyna að ná í karlinn í tunglinu og margt fleira. Já, Stefán minn, við áttum margar góðar stundir saman sem aldrei munu gleymast.

Nú ertu kominn heim og verður lagður á milli afa og ömmu sem örugglega hafa tekið á móti þér ásamt nafna þínum og fleiri ástvinum.

Elsku Sigríður mín, Jakob, Katrín, Marco og aðrir ástvinir, Guð blessi ykkur í ykkar miklu sorg.

Þín frænka,

Hanna.