Ragnheiður Guðmundsdóttir Elsku amma. Skrýtið hvað lífið kemur manni sífellt á óvart. Sem betur fer veit maður ekki fyrirfram hvað bíður manns. Það að þú skulir vera farin frá okkur er mjög óraunverulegt. Það er ekki svo langt síðan við vorum að ræða um afmælið þitt í sumar. Ég var að segja þér frá því að mér væri boðið til Danmerkur í sumar og þú sagðir að ég mætti ekki missa af afmælinu þínu. Hvern hefði þá órað fyrir því að stuttu seinna værir þú látin. Ég hugga mig við að þú þurftir þó ekki að þjást í lengri tíma. Það er svo margt sem ég mun sakna. Ég mun sakna þess að koma til þín og sjá þig spila bridge í tölvunni, svo bölvaðir þú tölvunni í sand og ösku þegar þér fannst hún gera vitleysu. Þau voru ófá skiptin sem við rökræddum stjórnmál. Þú hafðir mjög ákveðnar skoðanir, m.a. fannst þér við unga fólkið ekki standa okkur nógu vel í baráttunni fyrir bættum lífskjörum. Þú vildir sjá harðari aðgerðir. Ég á eftir að sakna þess að sitja og borða pizzu með þér og horfa á Leiðarljós. Þú misstir helst ekki af því. Mér eru minnsstæðar stundirnar í "STRÆTÓ", þar naustu þín til fulls. Elsku amma, nú kveð ég þig í hinsta sinn. Ég veit að það er vel tekið á móti þér af þeim sem þú hefur elskað og misst.

Þín

Anna Heiða.