6. júní 1999 | Sunnudagsblað | 3197 orð

Að láta drauminn rætast

Þuríður Sigurðardóttir var um árabil ein vinsælasta dægurlagasöngkona þjóðarinnar. Hún hefur starfað sem flugfreyja, verið í útvarpi og sjónvarpsþula. Þuríður hefur sungið inn á hljómplötur og með mörgum helstu danshljómsveitum landsins. Ólafur Ormsson ræddi við Þuríði um ferilinn og það sem hún er að fást við í dag.
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 990606 \: SLÖGG:: að lata drauminn ræt STOFNANDI:: TDFA \: \: Að

láta drauminn rætast Þuríður Sigurðardóttir var um árabil ein vinsælasta dægurlagasöngkona þjóðarinnar. Hún hefur starfað sem flugfreyja, verið í útvarpi og sjónvarpsþula. Þuríður hefur sungið inn á hljómplötur og með mörgum helstu danshljómsveitum landsins. Ólafur Ormsson ræddi við Þuríði um ferilinn og það sem hún er að fást við í dag.

ÞURÍÐUR Sigurðardóttir á ekki langt að sækja sönghæfileikana. Sigurður Ólafsson faðir hennar var þjóðkunnur söngvari. Erling bróðir Sigurðar var einn fremsti söngvari þjóðarinnar þegar hann dó ungur, 24 ára, úr berklum og Jónatan bróðir þeirra var um árabil landsþekktur hljómsveitarstjóri og tónlistarmaður.

Það sem öðru fremur einkennir Þuríði Sigurðardóttur er glaðværð. Hún brosir oft og hlær og kemur gjarnan auga á björtu hliðarnar í lífinu.

Uppruni og æskuár

Þuríður Svala Sigurðardóttir er fædd í Reykjavík 23. janúar árið 1949. Hún er dóttir Ingu Valfríðar Einarsdóttur húsmóður og sjúkraliða og Sigurðar Ólafssonar söngvara og hestamanns. Þuríður á fjóra bræður og eina systur.

"Það var yndislegt að alast upp í Laugarnesinu. Við bjuggum í litlu og þröngu húsnæði sem var gamalt bárujárnsklætt timburhús. Ég var mikið náttúrubarn og úti í leikjum og íþróttum allan liðlangan daginn. Það var mikið byggt á þessum árum í Laugarnesinu og gaman að fylgjast með uppbyggingunni. Ég sakna samt alltaf víðáttunnar og leiksvæðisins, sem var móinn og fjaran. Ég fer þangað oft og hef gert alla tíð. Pabbi var bæði með hesta og kindur og það má segja að ég sé alin upp í sveit í útjaðri Reykjavíkur. Pabbi var svona blanda af bónda og heimsmanni. Hann var með stóra fjölskyldu og vann alla tíð verkamannavinnu með söngnum og m.a. fyrir Reykjavíkurborg. Einnig starfaði hann hjá Háskólanum með tilraunadýr og sá um að fæða rottur sem voru notaðar í ýmsar tilraunir hjá Rannsóknarstofu Háskólans. Hann vann líka á Tilraunastöðinni á Keldum fyrir sauðfjárveikivarnir."

Var Laugarnesið ekki ævintýraheimur á bernskuárum þínum?

"Jú. Þarna var Laugarneskampurinn, braggahverfi sem byggt var á árum síðari heimsstyrjaldarinnar. Við sóttum mikið niður í Kamp og þar var mikið fjör. Þar var barist með spjótum og farið í allskonar leiki. Þar voru leynifélögin Rauða gríman og Svarti hanskinn. Laugarnesið var nánast autt svæði út á Teiga. Þegar ég var að alast upp var eitt og eitt hús á stangli við Laugarnesveginn og Kleppsveginn. Það var mikið mál að fara í bæinn og ég fór ein í fyrsta skipti niður í miðborg Reykjavíkur þegar ég var tólf ára. Ég rataði lítið um gamla miðbæinn þegar ég var komin á unglingsár.

Laugarnesskólinn var mjög góður. Það var skemmtilegur agi og skólinn var alltaf hreinn, bónuð gólf og allt mjög snyrtilegt innan dyra og á skólalóðinni. Það var alltaf sunginn morgunsöngur og þannig lærði ég mikið af ættjarðarljóðum og lögum. Ég hafði gaman af að teikna, fékk góða kennslu í teiknun og fékk að njóta mín við að teikna. Lét mig jafnvel dreyma um að fara í myndlistarnám. Í Laugarnesskóla byrjaði ég að syngja, söng fyrst einsöng með barnakór á vorsýningu þegar ég var tólf ára og lauk barnskólaprófi. Ég var alveg ægilega taugaóstyrk. Frá Laugarnesskóla lauk ég síðan miðskólaprófi og gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla verknáms vorið 1965. Framhaldsnám stóð ekki til boða. Ég fór strax að vinna. Gagnfræðapróf þótti bara nokkuð góð menntun hér áður fyrr. Ég var reyndar aldrei sátt við að læra ekki meira. Við höfðum góðan kennara í Laugarnesskóla, Magnús Einarsson, sem var bæði aðalkennari við skólann, söngkennari og tónlistarstjóri."

Er það þá þegar á barnsaldri að þú færð áhuga á tónlist?

"Ég hafði aldrei neinn sérstakan áhuga á tónlist. Ég hafði gaman af að syngja, en ekki opinberlega, mér fannst það óþægilegt. Ég söng heima og helst þegar enginn heyrði. Prófaði mig áfram með lög sem Helena Eyjólfsdóttir og Ellý og fleiri höfðu sungið. Ég hlustaði mikið á útvarpið, óskalagaþættina og síðasta lagið fyrir fréttir. Á þeim stundum var dauðaþögn á æskuheimili mínu og ég held að ég hafi þekkt alla íslensku óperusöngvarana á þeim tíma."

Á Röðli

Þú segir að þú hafir verið taugaóstyrk þegar þú söngst með barnakórnum á vortónleikunum í Laugarnesskóla 1961. Varð einhver bið á því að þú tækir upp þráðinn að nýju og létir verða af því að syngja opinberlega?

"Já, ekki fyrr en ég var orðin sextán ára. Þá var verið að leita að ungu fólki til að koma fram á eftirmiðdagsskemmtunum í Lídó í Reykjavík þar sem Tónabær er núna. Bróðir minn, Ævar, benti á mig og hann taldi að ég hefði einhverja hæfileika. Ég kom fram með hljómsveit í Lídó og það má segja að það verið upphafið á mínum söngferli. Það voru að verða miklar breytingar í tónlistinni. Rokkið var að detta upp fyrir í þeirri mynd sem áður var. Bítlarnir komnir til sögunnar og margar frábærar söngkonur eins og Cilla Black, Dusty Springfield, Shandie Shaw og Cher, sem var mín uppáhaldssönkona. Þessar söngkonur ruddu brautina fyrir sólósöngkonur og þær voru ekki margar á þessum árum."

Hvað tók við eftir að þú fékkst þessa reynslu í Lídó?

"Þá kom Svavar Gests og spurði hvort ég vildi syngja inná plötu. Lúdó og Stefán voru að taka upp fjögurra laga plötu og Svavar vildi að ég væri þar með í einu lagi. Þar söng ég ásamt Stefáni fyrsta lagið mitt á plötu, Sonny og Cher lag, sem heitir á íslensku, Elskaðu mig, við texta Ómars Ragnarssonar."

Er það þá eftir að sú plata kom út að þú ert ráðin með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar?

"Já, eftir að platan kom út hafði Magnús samband við mig og ég byrjaði að syngja með hljómsveitinni á Röðli árið 1966, sex kvöld í viku. Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar var virkilega góð. Þarna voru frábærir hljóðfæraleikarar t.d. Vilhjálmur heitinn Vilhjálmsson, sem var jafnframt einn aðalsöngvari hljómsveitarinnar. Foreldrar mínir höfðu áhyggjur af því að ég skyldi byrja að syngja með danshljómsveit aðeins sautján ára, voru hrædd við óreglu sem var oft fylgifiskur hljómsveitarmanna. það voru óþarfa áhyggjur. Ég féll aldrei í þá gryfju. Ég kom þarna inn í yndislegan hóp og Magnús reyndist mér vel og ég fékk góða skólun í sambandi við söng. Magnús er mikill músíkant og frábær útsetjari, besti kennarinn sem var hægt að fá á þessum tíma. Röðull var eina vínveitingahúsið sem var opið sex kvöld í viku. Við sungum mikið raddað og það var feiknalega vel unnið, byrjuðum aldrei með neitt nema það væri fullæft og það voru gerðar miklar kröfur. Við fengum aldrei að nota nótur eða texta á sviðinu, vorum með ákveðið prógram af gömlum klassískum perlum og Magnús hugsaði vel um að vera með nýjustu dægurlögin.

Það var yndislegt að vinna fyrir Helgu Marteinsdóttur, sem átti Röðul. Hún var oft frammi í anddyrinu á kvöldin í peysufötum. Röðull varð eins og annað heimili manns. Alltaf matur á kvöldin og reiknað með því að við kæmum í mat. Helga hugsaði vel um fólkið sitt og ég á t.d. dýrindis hálsmen frá henni sem hún gaf mér þegar ég varð tvítug. Ég starfaði með hljómsveit Magnúsar á Röðli í fimm ár. Síðasta árið sem ég var með hljómsveitinni vorum við í Þjóðleikhúskjallaranum og upp úr því hætti hljómsveitin. Þetta var þokkalega launað starf. Ég var að hugsa um að fara í myndlistarnám eða í leikhúsförðun sem ég hefði þá getað haft atvinnu af, en það varð ekki úr því þá."

Þið tókuð upp nokkur lög?

"Já, hljómsveitin tók upp tvær fjögurra laga plötur sem Svavar Gests gaf út árið 1969. Þar söng ég m.a. lögin, Ég ann þér enn og Ég á mig sjálf."

Var það ekki á árunum með hljómsveit Magnúsar að þú söngst inn á plötu með föður þínum?

"Jú, tólf laga plötu sem heitir, Feðginin. Svavar Gests átti hugmyndina og valdi lögin. Platan var tekin upp 1971 við frumstæðar aðstæður í Ríkisútvarpinu við Skúlagötu. Hún seldist upp í stóru upplagi og fólk er ennþá að spyrja mig hvort eitthvað sé til af henni. Þó að þessi plata hafi að mörgu leyti verið gölluð þá halda margir upp á hana. Pabbi naut sín ekki fyllilega við þær aðstæður sem voru á upptökustað, sem voru ólíkar því sem hann þekkti áður fyrr þegar hann söng inn á hljómplötur og allt var tekið upp á stundinni með hljómsveit í bakgrunni. Þegar platan Feðginin var tekin upp var búið að taka upp leik hljómsveitarinnar. Við pabbi vorum mjög andlega tengd og ég held að það hafi skilað sér að einhverju leyti á plötunni, þessi tilfinning, þó svo að það hafi líklega mátt gera þetta betur."

Í helstu danshljómsveitum

Hvað tók við eftir að þú hættir með hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar?

"Í september 1973 fór ég að syngja með hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar á Hótel Loftleiðum, sem var mjög vinsæll staður á þeim árum. Ég var þar með hljómsveitinni fram á vor 1974. Eftir að ég hætti á Hótel Loftleiðum stofnuðum við Pálmi Gunnarsson, fyrrverandi eiginmaður minn, hljómsveitina Íslandíu. Það var sjö manna hljómsveit og við vorum einn vetur hjá Sigmari Péturssyni í Sigtúni við Suðurlandsbraut, en Sigmar hafði þá byggt nýtt og glæsilegt samkomuhús. Við Pálmi sungum inn á tvær tólf laga plötur, 1973 og '74, fyrir SG hljómplötur, útgáfufyrirtæki Svavars Gests, lög eftir Gunnar Þórðarson.

Ég var síðan ráðin söngkona með hljómsveit Ragnars Bjarnasonar í Súlasal Hótel Sögu haustið 1975. Sumargleðin var á fullu og hafði verið í nokkur ár þegar ég kom inn. Sumargleðin var orðin heilt fyrirtæki og ferðaðist um landið á sumrin. Þetta var einstaklegur skemmtilegur tími, mikið hlegið enda frábærir húmoristar með eins og t.d. Bessi, Ómar og Magnús Ólafsson, sem brugðu sér í allra kvikinda gervi. Sumargleðin var með skemmtiatriði í tvo tíma og síðan var ball á eftir. Ég var í hinum ýmsum hlutverkum og spilaði meira að segja á trommur í pásum. Þar sem við komum fram var yfirleitt fullt út úr dyrum. Það þýddi ekkert að taka pásu, því þá hefði allt logað í slagsmálum! Það varð að halda uppi stuðinu og fólkinu niðri. Þetta voru sko alvöru böll! Þegar við mættum á staðina sáum við tilhlökkunina í fólkinu. Það mættu allir sem mögulega gátu á þessar skemmtanir."

Tók Sumargleðin upp plötu?

"Ekki meðan ég var innanborðs, en við Ragnar Bjarnason sungum inn á eina plötu saman. Það eru lög eftir föðurbróður minn, Jónatan, og Svavar gaf út þá plötu. Svo söng ég eitt lag inn á plötu "Geymdu þína ást", með Magnúsi Ólafssyni eftir að ég hætti. "

Hvað varstu lengi með hljómsveit Ragnars í Súlnasal?

"Í þrjú ár. Ég hafði áður verið flugfreyja hjá Arnarflugi á sumrin, en þegar ég var með Ragga var ég í Sumargleðinni á sumrin. Ég hætti að syngja með hljómsveit Ragnars í nokkur ár og var þá flugfreyja hjá Arnarflugi, en byrjaði síðan aftur að syngja með hljómsveitinni á Hótel Sögu veturinn 1981 og var með fram á vor 1982.

"Eftir að ég hætti með hljómsveit Ragnars Bjarnasonar fór ég að koma fram hjá Ólafi Laufdal á Broadway við Álfabakka. Fyrsta sýningin sem ég tók þátt í var upprifjun á Bítlatímabilinu og þar kom ég fram sem sólóisti. Ég var með í nokkrum sýningum þarna um miðjan níunda áratuginn. Þegar Bítlaárin voru rifjuð upp veturinn 1985-86 var Gunnar þórðarson með átta manna hljómsveit á Broadway og þá vorum við þar í framlínunni, Björgvin Halldórsson, ég og Sverrir Guðjónsson. Þetta er ógleymanlegur tími. Það var mikil aðsókn að Broadway við Álfabakka og hver sýningin af annarri gekk þar fyrir fullu húsi um helgar. Á sumrin var ég flugfreyja, en yfir vetrarmánuðina tók ég þátt söngskemmtunum sem voru settar upp á Broadway. Það var virkilega ánægjulegt að taka þátt í þessum sýningum. Eftir það var ég ekki lengur í framlínunni á dansstöðunum eins og ég hafði verið í um það bil tvo áratugi."

Flugfreyjuárin

"Eftir að hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar hætti árið 1972 fór ég til Spánar og byrjaði að starfa þar sem flugfreyja. Ég hafði orðið þörf fyrir að víkka sjóndeildarhringinn. Birgir Karlsson gítarleikari í hljómsveit Magnúsar vann þá hjá ferðaskrifstofunni Sunnu og hann lét mig vita af því að Guðni í Sunnu ætlaði að fara að leigja flugvélar að utan til að fljúga með sitt fólk. Spánskt flugfélag varð fyrir valinu og það vantaði íslenskar flugfreyjur. Ég sótti um fyrir hvatningu Birgis og fékk starfið. Það voru á annað hundrað umsækjendur. Ég var mjög ánægð með að fá vinnuna og hóf flugfreyjuferil á Spáni."

Áttu ekki margar góðar minningar frá því að þú varst flugfreyja?

"Starfið var mjög skemmtilegt og ég kynntist mörgu fólki. Þetta var auðvitað alveg nýtt fyrir mér þar sem ég hafði lítið ferðast erlendis. Ég fór á undirbúningsnámskeið og þegar því var lokið starfaði ég á DC 8 þotum og við flugum til Bretlands, Norðurlandanna og Íslands. Á Spáni bjó ég í sex mánuði. Flugfreyjustarfið hafði verið hlutastarf, sumarstarf. Og eftir að ég hætti með hljómsveit Gunnars Þórðarsonar á Broadway árið 1986 varð flugfreyjustarfið aftur mitt aðalstarf og þá fór ég til starfa m.a. í Líbíu og Saudi-Arabíu. Þegar Arnarflug fór á hausinn fór ég að vinna með Atlantsflugi sem var leiguflugfélag og síðan með Atlanta og var hjá þeim í eitt ár og fór m.a. annars með þeim í pílagrímaflug. Það var mjög eftirminnilegt og það var gaman að kynnast nýjum þjóðum og fólki. Fólk er reyndar allsstaðar svipað og sama hvort það er hvítt eða svart. Mér finnst ég alltaf finna einhvern samnefnara í trúarbrögðum og karakterum fólks. Það eru allir svolítið smeykir við að fljúga og ég sá sömu viðbrögðin allstaðar og þakklætið um borð í flugvélunum.

Það er aðeins ein óþægileg minning frá þeim árum sem ég starfaði sem flugfreyja. Mér eru minnisstæð viðbrögð vinnufélaganna, sem voru tveir Íslendingar og tveir Írakar, þegar við vorum á gangi í París á dögum Atlantsflugs. Það var ráðist á mig af götugengi og viðbrögð félaganna voru þau að Írakarnir snerust til varna, en Íslendingarnir hlupu eins og fætur toguðu í burt og hurfu eins og stormsveipur fyrir næsta húshorn!" Þuríður hló og hafði gaman af að rifja upp atvikið.

Í ljósvakamiðlum

"Ég fór að vinna hjá Aðalstöðinni 1990. Helgi Pétursson var þá útvarpsstjóri á Aðalstöðinni og hann hafði heyrt mig ávarpa farþega í flugi og hefur líklega kunnað að meta hvernig ég talaði við fólkið og réð mig sem dagskrárgerðarmann. Ég byrjaði með fjögurra tíma morgunþátt frá klukkan níu á morgnana. Það voru viðtöl og leikin tónlist. Það var mikið rætt um þessa síbylju og fólk sem hafði ekkert annað að segja en hvað klukkan væri. Helgi var að leita að þroskuðum einstaklingi til að nálgast hlustendur á annan hátt og þá jafnvel dagskrárgerðarmanni með þá reynslu sem ég hafði að baki. Það var verið að reyna að byggja upp góðan útvarpsþátt og án þess að væri mikið áreiti. Ég tók fyrir eitthvað ákveðið þema og vann svo út frá því og ég hafði mjög gaman af að starfa á Áðalstöðinni. Mig grunaði ekki hvað þetta var mikil vinna að sjá um beinar útsendingar í fjóra klukkutíma.

Við fórum síðan að vinna saman ég og Hrafnhildur Halldórsdóttir með nýjan morgunþátt sem var sendur út frá klukkan sjö á morgnanna og vorum með viðtöl og höfðum léttleikann í fyrirrúmi og kölluðum okkur Morgunhænur, hlógum mikið og höfðum gaman af. Við skiptumst á að vera á tækniborðinu og í útsendingu.

Ólafur Laufdal var með Aðalstöðina á þeim árum þegar ég starfaði á útvarpsstöðinni. Það var mjög gott að vinna hjá Óla, hvort sem var á Broadway eða á Aðalstöðinni. Óli hætti síðan með reksturinn og það var ákveðið að skipta um áherslur með nýjum eigendum."

Og þegar þú hættir hjá Aðalstöðinni. Byrjaðir þú þá að vinna hjá Útvarpi umferðarráðs?

Já, ég hafði verið með fastan lið hjá Aðalstöðinni um umferðina og þegar ég hætti þar höfðu þeir Óli H. og Sigurður Helgason hjá Útvarpi umferðarráðs sambandi við mig og vildu fá mig sem þriðju röddina í þáttinn. Ég sló til. Það var eina ferðina enn sem kastaði mér ósynd í djúpu laugina, en Óli H. er sérstaklega ljúfur vinnuveitandi svo það kom varla að sök!"

Þú starfaðir um tíma sem þula hjá Sjónvarpinu?

"Það var hringt í mig frá Sjónvarpinu og mér boðið þularstarf og ég ákvað að taka því boði. Ég hélt nú að væri verið að gera at í mér. Í allri þessari unglingadýrkun þá gat ég ekki séð að Sjónvarpið væri á höttunum á eftir mér í þetta starf, en þá vildu þeir einmitt breikka aldurshópinn og mér fannst að það gæti verið gaman að prófa þetta. Ég var þá í 75% vinnu sem fulltrúi hjá Útvarpi umferðarráðs. Þá var ég einnig að syngja um helgar með hljómsveitinni Vanir menn og í kvöldskóla í FB og kláraði listabraut þar. Ég fór stundum héðan að heiman klukkan hálf sjö á morgnana og kom klukkan hálf ellefu á kvöldin og var að vinna á fjórum stöðum. Auk þess sem ég reyndi að stunda hestamennsku sem er sameiginlegt áhugamál okkar hjónanna. Þetta var orðið einum of mikið og ég ákvað að hægja á og hætti bæði hjá Sjónvarpinu og umferðarráði."

Í myndlistarnám

"Ég hóf nám í myndlist á listabrautinni í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti fyrir þremur árum. Þegar ég hætti að fljúga var ég mikið að hugsa um að hefja myndlistarnám, enda vann ég þá bara venjulegan vinnutíma. Ég sótti um fyrir fimm árum og þá var mér hafnað. Ég sótti um á síðustu stundu. Síðan sótti ég aftur um árið 1996 og fór framarlega í biðröðina og þá gekk það. Það eru engar hæfniskröfur inn í kvöldskólann, kannski fremur spurning um hvar þú ert í röðinni. Ég ákvað að taka námið á tvöföldum hraða og lauk því á tveim árum, útskrifaðist vorið '98.

Ég byrjaði í myndlistarnámi á síðastliðnu hausti í nýja Myndlista- og handíðaskólanum í Laugarnesinu og þar eru gerðar miklar kröfur. Það er fjögurra ára nám. Námið er fornám og það er farið í gegnum síuna og síðan er hægt að sækja um inn í deild. Námið sem ég kláraði í FB svarar til fornámsins, þannig að ég sleppti því, en ég er á fyrsta ári í deild, í sérdeild í málun og ég á tvö ár eftir. Við lærum listasögu og listheimspeki jafnframt því sem við erum að vinna við málun. Þetta er fullt nám og á háskólastigi eftir 1. ágúst þegar stofnaður verður formlega Listaháskóli og ég stefni að því að ljúka þaðan námi eftir tvö ár. Listaháskólinn er í mótun og ég útskrifast væntanlega úr myndlistardeild."

Og þú ætlar þá að helga þig myndlistinni?

"Já, ég stefni að því að hafa myndlist að atvinnu. Ég var lítið að teikna eða að mála þegar strákarnir mínir, Sigurður Helgi, sem er floginn úr hreiðrinu og Erling Valur voru að alast upp. Þá sjaldan að ég hef ekkert haft annað að gera þá hef ég verið að fást við að teikna, og áður eingöngu í tómstundum og það hefur verið mjög þægileg tómstund. Þessi tvö ár eiga eftir að verða mikill reynslutími, en mig langar mest að fást við að mála í framtíðinni og sá draumur sem ég átti á unglingsárum að verða myndlistarmaður er að rætast."Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson

Þuríður Sigurðardóttir.ÚR sjónvarpsþætti hljómsveitar Magnúsar Ingimarssonar árið 1966. Frá vinstri Helga Möller, Brynja Nordquist, Birgir Karlsson, Þuríður, Magnús, Vilhjálmur Vilhjálmsson og Elín Edda.

HLJÓMSVEIT Ragnars Bjarnasonar á Hótel Sögu. Frá vinstri Árni Scheving, Andrés Ingólfsson, Stefán Jóhannsson, Þuríður, Ragnar, Eyþór Stefánsson og Jón Sigurðsson.

ÞURÍÐUR Sigurðardóttir á Broadway á níunda áratugnum.

ÞURÍÐUR og Bessi Bjarnason í sjónvarpsþætti Sumargleðinnar árið 1980.Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.