István Mohácsi, sendiherra Ungverjalands, var staddur hér fyrir skömmu og átti viðræður við íslensk stjórnvöld. Í samtali við Hrund Gunnsteinsdótturræddi hann um þróun mála í Kosovo, afstöðu ungverskra stjórnvalda og framvindu mála í ESB-viðræðum.
ISTVÁN MOHÁCSI, SENDIHERRA UNGVERJALANDS Á ÍSLANDI

NATO-aðild veitir Ungverjum aukið öryggi

István Mohácsi, sendiherra Ungverjalands, var staddur hér fyrir skömmu og átti viðræður við íslensk stjórnvöld. Í samtali við Hrund Gunnsteinsdóttur ræddi hann um þróun mála í Kosovo, afstöðu ungverskra stjórnvalda og framvindu mála í ESB-viðræðum.

ISTVÁN Mohácsi, sendiherra Ungverjalands á Íslandi, með aðsetur í Svíþjóð, var staddur hér á landi fyrir skömmu og ræddi við fulltrúa íslenskra stjórnvalda, stjórnarandstöðunnar og Ungverja búsetta á Íslandi. Einnig átti Mohácsi viðræður við fulltrúa undirbúningsnefndar fyrir verkefnið Reykjavík menningarborg árið 2000.

Ungverjaland, ásamt Tékklandi og Póllandi, gerðist nýlega aðili að Atlantshafsbandalaginu (NATO). Hefur aðildin haft áhrif á umræðu í landinu um átökin í Kosovo?

"Staða Ungverjalands er sérstök að því leyti að það er eina aðildarríki NATO sem hefur landamæri að Júgóslavíu. Að auki eru um 400.000 manna ungverskur minnihlutahópur í Júgóslavíu, nánar tiltekið í Vojvodina, eða Vajdasag, eins og héraðið heitir á ungversku."

Mohácsi segir loftárásirnar ekki hafa haft áhrif á stuðning almennings við bandalagið. Um sjötíu til áttatíu prósent af ungversku þjóðinni er hlynnt NATO-aðild samkvæmt könnun sem gerð var eftir að NATO hóf loftárásir á Júgóslavíu, sem er litlu minna hlutfall en áður.

"Þetta [hernaðaríhlutunin] var slæmur kostur, en meirihluta Ungverja er það ljóst að á endanum verður að koma á lýðræði, friði og velmegun í Serbíu þar sem allir íbúar eru hamingjusamir og hafa jafnan rétt, óháð því hvort þeir eru Serbar, Albanar, Ungverjar, Slóvakar, Króatar eða tilheyra einhverjum öðrum af þeim minnihlutahópum sem þarna búa."

Telurðu líklegt að afstaða ungverskra yfirvalda til Kosovo-deilunnar væri önnur, væri landið ekki aðildarríki að NATO?

"Líklega ekki. Nú er við höfum gerst aðilar að NATO finnst okkur við vera öruggari. Ef eitthvað kæmi fyrir vitum við að aðildarríki NATO eru reiðubúin að verja okkur, líkt og við erum reiðubúin að verja þau. Værum við hins vegar ekki aðilar að bandalaginu stæðum við einir, sem þessa stundina er ekki mjög traustvekjandi. Við þekkjum þetta svæði mjög vel og við vonumst til að rödd okkar fái hljómgrunn innan bandalagsins."

Nú flúðu nokkur þúsund Serbar Serbíu meðan á loftárásunum stóð. Hefur borið á flótta Ungverja frá landinu?

"Já, ungir karlmenn á herskyldualdri hafa hundruðum saman flúið Vajdasag [Vojvodina] því þeir hafa, af skiljanlegum ástæðum, ekki viljað þjóna í júgóslavneska hernum og berjast við Albana í Kosovo. Enda hvers vegna ætti ungverskur drengur að drepa Albana í Kosovo?"

Vojvodina var sjálfsstjórnarhérað innan Serbíu, líkt og Kosovo, áður en Milosevic komst til valda og aðspurður um það hvort hann teldi það líklegt að héraðið komi til með að sækjast eftir sjálfsstjórn á ný, sagði Mohácsi ungversk stjórnvöld telja það velta einvörðungu á vilja Serba og Ungverja í Vojvodina.

"Meirihluti Serba og Ungverja í Vojvodina aðhyllist sjálfsstjórn. Líklegast verður einhvers konar sjálfsstjórn komið á líkri þeirri er var frá fyrri hluta áttunda áratugarins og var afnumin á seinni hluta þess níunda. Fólki ætti að líða vel í eigin landi, sem er því miður ekki tilfellið eins og er."

Uppbygging á Balkanskaganum öllum mikilvæg

Mohácsi sagði mikið uppbyggingarstarf þurfa að fara fram í Júgóslavíu áður en lýðræði nái að skjóta rótum og fólk geti lifað í sátt og samlyndi.

Mohácsi benti á mikilvægi þess að við uppbyggingarstarfið væri byggt á reynslu fyrri ára og árhundruða til að koma á langtímafriði á Balkanskaga. Í því sambandi væri brýnt að uppbyggingin ætti sér ekki einvörðungu stað í Júgóslavíu heldur á Balkanskaganum öllum.

"Í dag ætti augu manna að beinast að uppbyggingu á öllu svæðinu með það fyrir augum hvernig Balkanskaginn ætti að líta út í framtíðinni, hvernig stjórnmálaleg og efnahagsleg tengsl þessi lönd eiga að hafa sín á milli. Ef litið verður á Júgóslavíu sem einangrað dæmi er ég hræddur um að tilskilinn árangur muni ekki nást."

Hvernig vindur Evrópusambandsviðræðum fram?

"Þær halda áfram samkvæmt áætlun. Við erum í hópi þeirra landa sem líklegust eru til að verða aðilar að ESB í næstu atrennu en viðræður fara nú fram af miklum krafti. Sem stendur erum við að kynna stöðu landsins efnahagslega og á öðrum sviðum samfélagsins, s.s. á sviði landbúnaðar-, mennta- og heilbrigðismála.

Alls þurfum við að skila inn 29 skýrslum en við höfum lokið 60% af þeirri vinnu og er ráðgert að henni ljúki í lok þessa árs."

Mohácsi sagði Ungverjaland vonast til að gerast aðili árið 2002, en þá hefur ESB sagt hugsanlegt að bandalagið muni taka inn ný aðildarríki.

"Það sem mun verða hvað erfiðast fyrir Ungverjaland að sigrast á fyrir aðild eru umhverfis- og landbúnaðarmál. Ungverjaland er aftarlega á merinni hvað umhverfismál varðar í samanburði við lönd Vestur-Evrópu. Ekki vegna þess að við vitum ekki hver vandamálin eru, heldur vegna þess að endurbætur á umhverfissviði eru mjög kostnaðarsamar."

Mohácsi sagði það helsta sem torveldi aðlögun landbúnaðarins að skilyrðum ESB vera léleg samkeppnisstaða margra ungverskra bænda.

"Margir bændur eru ekki nægilega í stakk búnir að takast á hendur samkeppni við önnur ríki ESB þar sem landbúnaður í þeim ríkjum er verulega niðurgreiddur í samanburði við ungverskan landbúnað."

Mohácsi sagðist þó bjartsýnn á að björninn yrði unninn og að Ungverjaland yrði brátt aðili að sameiginlegri landbúnaðarstefnu ESB. Enda væri stuðningur við aðild mjög mikill þar sem Ungverjum fyndist þeir eiga mikið sameiginlegt með öðrum Evrópuþjóðum.

Morgunblaðið/Kristinn

ISTVÁN Mohácsi, sendiherra Ungverjalands á Íslandi, segir nýtilkomna aðild Ungverjalands að Atlantshafsbandalaginu veita þjóðinni aukið öryggi, ekki síst í ljósi átakanna handan landamæranna.

Reuters BANDARÍSKIR hermenn gæta herþotu á Taszar-flugvellinum í Ungverjalandi en þaðan voru farnar eftirlitsferðir yfir Júgóslavíu meðan á lofthernaðinum stóð.