Kosovo-Albaninn Adem Gasi segist bjartsýnn á framtíð Kosovo-héraðs "Draumur minn hefur ræst ­ Kosovo er frjálst" Hann neyddist til að flýja heimaland sitt, Kosovo, er Serbar ráku hann ásamt eiginkonu hans og átta þúsund íbúum Klína frá heimilum sínum í mars sl.
Kosovo-Albaninn Adem Gasi segist bjartsýnn á framtíð Kosovo-héraðs "Draumur minn

hefur ræst ­

Kosovo er frjálst"Hann neyddist til að flýja heimaland sitt, Kosovo, er Serbar ráku hann ásamt eiginkonu hans og átta þúsund íbúum Klína frá heimilum sínum í mars sl. Í samtali við Hrund Gunnsteinsdóttur segir Adem Gasi, fyrrverandi dómari og forseti bæjarstjórnar, frá flótta sínum undir vernd Frelsishers Kosovo um hálendið í átt til Svartfjallalands, frá hörmungunum sem hann og fólkið hans hafa þurft að þola í fjöldamörg ár, frá viðræðum hans við dómsmálaráðherra Íslands og vonir hans um bjarta framtíð Kosovo-héraðs.

ADEM Gasi er 55 ára Kosovo-Albani sem flúði frá Kosovo 28. mars síðastliðinn og kom hingað til Íslands ásamt eiginkonu sinni 4. maí. Gasi er fæddur og uppalinn í Lazic, sem er lítið þorp í nágrenni Klína, vestur af Pristína, héraðshöfuðborg Kosovo. Foreldrar hans voru bændur en auk Gasis áttu þau eina dóttur. Gasi sleit barnsskónum í Lazic þar sem hann gekk í barnaskóla en í Djakovica stundaði hann framhaldsnám. Gasi útskrifaðist svo með lögfræðipróf úr háskólanum í Pristína. Frá árinu 1991 hefur hann starfað með Kristilega demókrataflokknum í Kosovo sem framkvæmdastjóri flokksins og hefur hann setið fyrir flokkinn á hinu óformlega þingi í Kosovo frá árinu 1992. Um 50.000 meðlimir eru í Kristilega demókrataflokknum í Kosovo.

Helstu baráttumál Gasis í stjórnmálum hafa verið að upplýsa önnur ríki Evrópu um ástandið í Kosovo "því það vissi enginn í rauninni hvað var þar um að vera," segir Gasi. Hann segir það hafa verið erfitt að koma sjónarmiðum flokksins á framfæri. "Eins og þið vitið hefur fréttaflutningi í Kosovo og Serbíu verið stjórnað af yfirvöldum í Belgrad og því gátum við ekki upplýst Kosovo-Albana né aðra um ástandið í gegnum fjölmiðla. Við höfðum ekki tækifæri til að eiga í beinum viðræðum við ríkisstjórnir í Evrópu og því reyndum við að koma boðum og upplýsingum til systurflokka okkar í Evrópu, þ.e. flokksmeðlima demókrataflokka, í von um að þeir kæmu upplýsingunum áfram til ríkisstjórna landa sinna."

Viðbrögðin sagði Gasi hafa verið "góð á endanum, eins og raun ber vitni, þrátt fyrir að Evrópuríkin hafi brugðist svolítið seint við". Gasi segir starfsemina ekki hafa verið hættulausa og í ljósi þess hafi hann og samstarfsmenn hans beitt öllum mögulegum ráðum til að koma boðunum áleiðis. "Við notuðum öll tiltæk boðkerfi. Faxtæki voru notuð, skýrslur og skjöl voru lesin staf fyrir staf í gegnum síma, alls kyns upplýsingar og gögn voru falin í bílum hjá fólki sem var á leið til útlanda, eða í farangri þeirra sem ferðuðust með lestum og rútum. Starfsmenn flokksins urðu að fara huldu höfði eða fela gögn sín vandlega á sér ef þeir fóru með þau frá einum bæ til annars."

Gasi segir lögregluna ítrekað hafa reynt að koma í veg fyrir þetta upplýsingaflæði og starfsemi flokksins almennt. "Serbnesk stjórnvöld töldu flokkinn ekki löglegan. Einungis einn flokkur var viðurkenndur af serbnesku ríkisstjórninni í Kosovo og það var Lýðræðisflokkurinn, flokkur Ibrahims Rugova. Aðrir flokkar störfuðu samt sem áður í Kosovo en voru ekki viðurkenndir af stjórnvöldum í Serbíu.

Fyrir kom að lögregla handtók flokksmeðlimi ­ til að mynda þar sem við vorum við fundahöld á skrifstofu flokksins ­ fór með þá á lögreglustöðina þar sem þeir voru svo lamdir og hvað eina. Ég veit ekki almennilega hvað þeir gerðu við þá. Í stuttu máli sagt reyndi hún að gera allt til að koma í veg fyrir starfsemi okkar."

Öllum skólum fyrir Albana lokað

"Að mínu mati var ástandið sambærilegt því sem var í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Öll völd voru í höndum lögreglunnar og hún gat farið með þau eins og henni hentaði. Til dæmis réðst hún inn á heimili fólks, lagði þar allt í rúst og fór með karlmennina í fangelsi án þess að þurfa að útskýra gjörðir sínar fyrir kóngi eða presti. Við höfðum engin völd og engan rétt.

Frá og með árinu 1989 lokuðu serbnesk stjórnvöld öllum skólum fyrir albönsk börn, unglinga og háskólanema í Kosovo. Albanskir kennarar voru reknir úr störfum og krökkunum var ekki einu sinni leyft að fara á fótboltavelli eða aðra leikvelli í nágrenni skólanna. Við þurftum því að koma á laggirnar okkar eigin heimarekna skólakerfi þar sem fólk bauð kennurum og nemendum afnot af húsum sínum undir kennslu því að við höfðum ekki ráð á að byggja nýjar skólabyggingar.

Námið var nemendum að kostnaðarlausu þar sem kennararnir kenndu án þess að fá greitt fyrir og húsráðendur vildu ekki fá neina greiðslu fyrir afnot af heimilunum. Reynt var að safna peningum á ýmsa vegu til að hjálpa til við rekstur skólakerfisins og Kosovo-Albanar sem unnu erlendis sendu peninga heim til kennslunnar. Svona hefur þetta gengið fyrir sig í tíu ár."

Gasi segir mikla einingu hafa ríkt meðal albanskra íbúa Kosovo. "Ef það þurfti til að mynda að mála húsin sem notuð voru undir kennsluna komu málarar og gerðu það án þess að fá borgað fyrir. Fólk reyndi að gera allt fyrir þjóðina, fyrir börnin og skólakerfið og það gerði það ókeypis."

Án atvinnu í tíu ár

Gasi talar hlýlega um heimabæ sinn, Klína, en þar lét hann til sín taka í velferðarmálum bæjarins. "Í bænum og nágrenni hans búa 50.000 manns en í Klína einum búa um 10.000 manns. Á 21 árs starfsferli mínum í Klína vann ég í tólf ár sem dómari ­ til ársins 1989 ­ og svo var ég forseti bæjarstjórnar.

Til ársins 1989 var réttarkerfið í Júgóslavíu nokkuð sanngjarnt gagnvart öllum. Eftir það svipti Milosevic hins vegar alla Kosovo-Albana réttindum og henti þeim út á götu. Þá var ég rekinn úr starfi ­ líkt og flestir aðrir Kosovo-Albanar í raun og veru."

Gasi er fjögurra barna faðir, á tvo syni og tvær dætur sem öll eru búsett á Íslandi. Elsta dóttir hans og eiginmaður hennar komu til Íslands árið 1987 en með hjálp þeirra komu hin systkinin til landsins, það síðasta fyrir rúmu ári. Þau höfðu verið við nám í háskóla í Kosovo en vegna síversnandi ástands þar ákváðu þau að koma til Íslands.

Gasi vildi reyna að halda börnunum í Kosovo í lengstu lög því hann stóð ætíð í þeirri trú að ástandið myndi batna. Þó kom að því að ástandið var orðið óbærilegt er serbneskir hermenn ráku Gasi og eiginkonu hans frá heimili þeirra í Klína. Því fylgdu þau fordæmi barna sinna og flúðu til Íslands í byrjun maí.

"Menntað fólk eins og ég vildi ekki fara frá Kosovo heldur vera þar áfram og búa aðra íbúa undir það sem var í vændum og útskýra fyrir þeim hvað var að gerast. Við vildum alls ekki fara frá Kosovo. Það var aldrei á dagskrá að gera það.

Albanar sem yfirgefið hafa Kosovo er fólk sem hrakið hefur verið frá héraðinu. Þetta er fólk sem hefur þurft að þola margt og því hefur það flúið. Það flúði ekki vegna þess að lífið átti að vera betra á Vesturlöndum, sem hefur því miður verið erfitt að útskýra fyrir mörgum Vesturlandabúum.

Árið 1980 byrjuðu Serbar að drepa Albana sem gegndu herþjónustu í Júgóslavíuher. Þeir myrtu þá á meðan á herþjónustunni stóð og sendu þá svo heim í líkkistum og gáfu þá skýringu að þeir hefðu framið sjálfsmorð. Er við svo opnuðum kisturnar sáum við að viðkomandi hafði verið skotinn með tíu skotum. Hvernig má slíkt vera ef menn fremja sjálfsmorð?

Mörg dæmi voru um þetta og því kom að því árið 1986 að við ákváðum að senda ekki fleiri Albana í herinn. Júgóslavíustjórn krafðist þess hins vegar áfram að Albanar frá Kosovo gegndu herskyldu með þeim afleiðingum að fjöldi ungra drengja og karlmanna á herskyldualdri flúðu til Evrópu."

Gasi segir þjóðernishreinsanir Serba í Kosovo hafa verið vel skipulagðar og að í rauninni hafi þær staðið yfir í fjöldamörg ár. "Menntamenn innan serbnesku akademíunnar, sem rekin er af hinu opinbera, hafa í fjölmörg ár verið að skrifa um áætlanir Serba um að "hreinsa" Kosovo af Albönum. Til að mynda skrifaði maður að nafni Ilija Garashanin fyrir hundrað árum um hvernig standa ætti að þjóðernishreinsunum á Albönum í Kosovo. Árið 1937 gerði það annar þekktur maður innan akademíunnar sem heitir Vasa Qubrillovic.

Þótt kaldhæðnislegt sé má að mörgu leyti þakka það seinni heimsstyrjöldinni að Albanar hafi, á þessum tíma, komist hjá því að þessi langtímaáætlun um þjóðernishreinsanir yrði framkvæmd. Milosevic hélt að nú væri rétti tíminn til að taka þessa stefnu upp, sem gekk ekki hjá honum því að Vesturlönd komu okkur til bjargar.

Serbnesk yfirvöld gerðu sér einnig grein fyrir völdum menntafólks í Kosovo og til að halda sem fastast um stjórnartaumana gripu þau til þess ráðs að fangelsa menntafólk þar og ofsækja á annan hátt. Í mörg ár voru serbnesk yfirvöld á eftir þessu fólki. Það sem var að gerast í Króatíu komst ekki í hálfkvisti við það sem Serbíustjórn gerði við Kosovo-Albana því í Kosovo varði ástandið í mörg ár. Vegna þessara þjóðernishreinsana Serba eru fleiri Albanar búsettir í Tyrklandi í dag en þeir eru í Kosovo."

Gasi segir óvíst hversu margir Albanar hafi búið í Kosovo áður en loftárásirnar hófust en íbúafjöldi var skráður þar síðast árið 1981, þrátt fyrir að slík skráning eigi að fara fram á tíu ára fresti samkvæmt lögum. "Um það bil tvær milljónir bjuggu í Kosovo áður en Serbar hófu að herja á héraðið en allt frá árinu 1980 hafa Albanar verið að flýja Kosovo."

Gasi segir stjórnarskrá Serbíu vera tiltölulega lýðræðislega en stjórnvöld í Belgrad hafi ekki farið að lögum hennar og því hafi þau getað blekkt Vesturlandabúa og leynt því fyrir þeim hvernig ástandið var í rauninni.

Árið 1989 svipti ríkisstjórn Serbíu Kosovo sjálfstjórn og frá þeim tíma var öll löggæsla undir stjórn serbneskra yfirvalda. "Kosovo-albanskir lögreglumenn tóku þá ákvörðun að segja upp störfum sínum í mótmælaskyni því þeir vildu ekki vera undir stjórn yfirvalda í Belgrad.

Því var svo komið að Albanar í Kosovo, sem voru 90% af íbúum héraðsins, höfðu enga albanska lögreglumenn til að gæta öryggis þeirra. Þessi 8-10% Serba í Kosovo fóru því með lögreglustjórn yfir okkur, 90 prósentum íbúanna. Sem dæmi má nefna var bæjarstjóri eins sveitarfélags Serbi, þrátt fyrir að allir íbúarnir væru Albanar."

Mannréttindasamtök sett á laggirnar

"Ég og mínir samstarfsmenn trúðum því allan tímann að friður myndi komast á í Kosovo. Okkar helsta vandamál var hins vegar að opna augu fólks í öðrum Evrópulöndum og heiminum öllum fyrir því hvað raunverulega var um að vera en ekki einungis því sem það vildi sjá.

Þegar svo var komið að allur lögregluflotinn var skipaður Serbum, bæði frá Serbíu og þeim sem bjuggu í Kosovo, átti lögreglan erfitt með að fá upplýsingar frá albönskum íbúum um hvað væri að gerast í hverfunum. Þeir hófu því að ráðast inn á heimili fólks þar sem þeir fengu engar upplýsingar öðruvísi.

Frá árinu 1990 viðgekkst það alls staðar í Kosovo að lögregla réðist inn á heimili fólks, legði þau í rúst og færi með fjölskyldumeðlimi á lögreglustöðvar þar sem þeir svo börðu þá. Sjö til átta hundruð þúsund manns, búsett víðsvegar í Kosovo, hafa lent í slíkum innrásum og hefur lögreglan borið fyrir sig að hún sé að leita að "einhverju".

Brátt fóru þeir að senda sérsveitir lögreglu til Kosovo og höfðu þær það hlutverk eitt að berja fólk. Ég hef orðið vitni að því er íbúar Klína voru barðir hver á eftir öðrum. Þeir áttu það til að setja upp vegatálma og er rútum eða bílum var ekið í gegn voru farþegarnir beðnir að stíga út úr farartækjunum. Á götunni voru þeir allir barðir og að því loknu sagt að halda leiðar sinnar.

Þetta gerðist á öllum tímum sólarhringsins, víðsvegar um Kosovo. Loks rann það upp fyrir okkur að það var ómögulegt að berjast gegn slíkri ógnarstjórn. Þetta var árið 1995 en þá settum við á laggirnar mannréttindasamtök, Samtök um vernd mannréttinda hétu þau, og skrifuðum á skipulagðan hátt niður hvað væri að gerast til að ná heildarmynd af ástandi mála í héraðinu. Þessi samtök voru starfrækt í öllum bæjum og þorpum í Kosovo.

Sem fyrr var starfsemi okkar bönnuð og því þurftum við að koma gögnum á milli staða á leynilegan hátt, oft á nóttunni, til að lögreglan kæmist ekki að starfa okkar. Hefði lögreglan komist á snoðir um starfsemina hefði hún skotið viðkomandi. Þær upplýsingar og myndir, sem við söfnuðum, sendum við til Evrópu til að vekja athygli á þeim aðstæðum sem við bjuggum við.

Með starfsemi okkar fengust m.a. þær upplýsingar að réttur Kosovo-Albana var brotinn á tvö hundruð mismunandi vegu. Til að mynda réðst lögreglan inn á skrifstofur og tók þar fjóra eða fimm starfsmenn sem hún barði til óbóta og stundum skar hún eyrun af fólki.

Áður var það þannig í Kosovo að fólk fékk ókeypis læknisþjónustu ef það var að vinna en eftir 1995 voru allir Kosovo- Albanar án atvinnu sem hafði það meðal annars í för með sér að við þurftum að borga háar upphæðir fyrir læknisþjónustu. Þegar ástandið var orðið svona slæmt og við höfðum reynt allar hugsanlegar leiðir til að bæta úr því fórum við að ræða leiðir til að verja okkur."

Fingur af börnum og eyru í vösunum

"Fólk var orðið þreytt á ofbeldinu og kúguninni og því fóru Albanar að vopnast til að geta varið þorpin gegn árásum lögreglunnar og sérsveitanna. Smám saman byrjuðu íbúar þorpanna að vopnast og með tímanum varð Frelsisher Kosovo til. Þetta var ósköp venjulegt fólk sem vildi gera eitthvað til þess að verjast serbnesku lögreglunni og hernum.

Með tilkomu frelsishersins má segja að mikið af fólki hafi hlotið frelsi á ný þar sem lögreglan komst ekki lengur í þorpin. Frelsisherinn hélt til í fjöllunum og gat stöðvað lögregluna áður en hún komst inn í þorpin. Hins vegar héldu Serbarnir áfram að ráðast á íbúana, nú með því að skjóta á þá og eyðileggja hús þeirra úr fjarlægð."

Gasi segir liðsmenn frelsishersins stundum hafa leitað á serbnesku hermönnunum eftir að þeir voru búnir að fella þá skammt frá þorpunum. Ósjaldan beið þeirra ófögur sjón.

"Það kom oft fyrir að þeir fundu ýmsa líkamshluta í vösum hermannanna, eins og eyru, fingur af börnum og fullorðnum, nef og fleira sem þeir ætluðu sér að fara með aftur til Serbíu og sýna fram á hversu marga þeir hefðu drepið.

Frá 15. september 1998 voru serbneskar hersveitir búnar að jafna sextíu þúsund hús við jörðu í Kosovo með þeim afleiðingum að fjögur hundruð þúsund manns voru á götunni. Þeir sem enn áttu heimili buðu þeim sem voru heimilislausir að gista hjá sér. Stundum voru fimmtíu manns á einu heimili og er fólk lagðist til svefns var gólfið oft þakið fólki.

Á þessum tíma, í september 1998, voru Serbar farnir að herða mjög sókn sína í Kosovo og afskipti Vesturlanda af átökunum hefðu alveg mátt hefjast þá. Frelsisherinn var farinn að vopnast enn frekar því það var orðið deginum ljósara að Serbar voru á leið í stríð. Kosovo-Albanar vildu að þjóðir heims reyndu að fá Milosevic til að snúa frá stefnu sinni gegn Albönum í héraðinu áður en veturinn gengi í garð. Hins vegar var það ekki fyrr en í mars að öðrum Evrópuríkjum og Bandaríkjunum varð það ljóst að þetta gat ekki gengið lengur."

Við dauðans dyr

"Hinn 27. mars síðastliðinn má segja að ég hafi staðið við dauðans dyr. Ég var á leið í heimsókn til vinar míns er ég sá hvar serbneskir óbreyttir borgarar höfðu brotist inn í verslun sem var í eigu Albana og voru að stela vörum úr henni. Serbneskir lögreglumenn stóðu álengdar og fylgdust með án þess að aðhafast nokkuð.

Lögreglan skipaði mér að koma til sín og spurði mig hvert ég væri að fara. Er ég sagðist vera á leið til vinar míns rengdi hún mig og sagði: "Nei, þú ert kominn til að fylgjast með þessu [ráninu] og skrá niður upplýsingar." Ég sagði svo ekki vera en lögreglumaðurinn vildi ekki trúa mér. "Gakktu af stað," sagði lögreglumaðurinn. Ég hlýddi honum en er ég hélt áfram göngu minni heyrði ég hann hlaða byssuna.

Mér varð litið til nokkurra kvenna sem stóðu álengdar og huldu andlit sín af óhug vegna þess sem í vændum var og ég beið þess að hann hleypti af skoti. En ég komst leiðar minnar og enn þann dag í dag skil ég ekki hvers vegna ég var ekki skotinn því lögreglan hefði ekki þurft að svara fyrir verknaðinn.

Öll þorpin umhverfis Klína höfðu verið brennd til kaldra kola og ástæðan fyrir því að íbúar Klína höfðu ekki yfirgefið þorp sitt var sú að það sama beið þeirra alls staðar annars staðar í Kosovo. Við vorum innilokuð á heimilum okkar og gátum okkur hvergi hreyft nema að taka áhættu, líkt og ég hafði gert."

Gamalt fólk bað um að fá að vera skilið eftir

"Um klukkan tíu um morguninn 28. mars byrjuðu þeir að brenna nokkur hús í þorpinu í um 200 metra fjarlægð frá heimili okkar hjónanna. Fyrst gerðum við okkur ekki grein fyrir því hvað var að gerast en brátt rann það upp fyrir okkur að Serbarnir voru að ganga hús úr húsi, þeir skipuðu fólki að yfirgefa þau og brenndu síðan.

Ég og konan mín sáum hvar hús vina okkar stóð í eldhafi og hún fór út til að aðgæta hvað væri um að vera. Er hún var komin út á götu kom lögreglan auga á hana og hóf skothríð fyrir framan fæturna á henni og spurði hvert hún þættist vera að fara. Dauðskelkuð og hljóðandi hljóp hún inn í húsið okkar aftur. Skömmu síðar tilkynnti lögreglan mér að við hefðum fimm mínútur til að yfirgefa heimili okkar.

Við gerðum eins og okkur var sagt og fórum, ásamt nágrönnum okkar, í röð sem þá hafði myndast í bænum. Við máttum ekki taka neitt með okkur og þeim sem áttu verðmæta bíla var bannað að fara á þeim því hermennirnir hirtu þá sjálfir. Þrír eða fjórir voru skotnir til bana þennan morgun.

Þrír til viðbótar voru teknir úr röðinni og viku síðar fréttum við að þeir hefðu verið skotnir til bana. Þessir menn voru í stjórn Kosovo og einn þeirra var meðlimur Lýðræðisflokksins.

Það er mjög erfitt að lýsa því andrúmslofti sem ríkti í Klína þennan örlagaríka morgun; í þessu lendir maður aðeins einu sinni á ævinni. Sumir þorpsbúanna voru veikir og þarna var mikið af gömlu fólki sem átti erfitt með að komast leiðar sinnar. Nágrannarnir reyndu að aðstoða það við að ganga . . . það var erfitt að horfa upp á þetta allt saman.

Sumir settu gamalt og veikt fólk í ábreiður sem þeir báru sín á milli en aðrir báru það í fangi sér. Ég heyrði gamalt fólk biðja börnin sín um að skilja sig eftir þar sem það var orðið veikburða."

Um átta þúsund manns höfðu safnast saman í röð á götum bæjarins og skipuðu serbneskir hermenn þeim að fara til Albaníu. Íbúarnir vildu ekki yfirgefa Kosovo og gengu því upp fjallshlíð við Klína í átt að þorpi sem hafði verið mannlaust eftir að það var brennt til kaldra kola fyrir rúmu ári. Þar héldu þeir til í um það bil viku en þar sem þorpið lá hærra yfir sjávarmáli en Klína gat fólkið séð yfir heimabæ sinn er fengið hafði sömu útreið og draugabærinn sem það leitaði skjóls í.

Í þessu þorpi voru fáein hús sem hægt var að hírast í við þröngan kost og bar oftsinnis við að um tvö hundruð manns byggju saman í einu húsi, líkt og Gasi og kona hans fengu að reyna.

Þó sagði Gasi að ræktarland þeirra, sem búið höfðu í þorpinu áður, hefði fært þeim björg í bú meðan á dvölinni stóð. "Þarna hefur töluverð ræktun verið meðal Albana og því var nægilegt af korni til baksturs. Konurnar sáu um að baka ofan í fólkið sem bjó þarna saman." Gasi vissi ekki hvað orðið hafði um fólkið sem búið hafði í þorpinu áður.

Á flótta með frelsishernum

Íbúar Klína höfðu haft í hyggju að halda til í "draugaþorpinu" í von um að geta snúið aftur til Klína er átökunum linnti. Það kom hins vegar að því að hermennirnir fundu aðsetur þeirra og umkringdu þorpið. Gasi beið ekki boðanna er hann sá þá nálgast og tók til fótanna í átt til fjalla. Stöðu sína mat Gasi þannig að hann væri í meiri hættu en eiginkona hans, þar sem óvinirnir voru á höttunum eftir menntamönnum. Eiginkona hans varð því eftir með hinum Albönunum.

"Er þeir voru búnir að umkringja þorpið skipuðu hermennirnir þeim að raða sér upp og völdu tvö hundruð manns sem þeir skildu frá hópnum og tóku með sér á brott. Hinum skipuðu þeir að halda beinustu leið til Albaníu."

Gasi segist ekki vita hvað hafi orðið um þessi tvö hundruð en er hann heyrði í fréttum fyrir skömmu að fjöldagröf með jafnmörgum líkum hefði fundist skammt frá Klína, sagðist hann telja víst að þar væri um sama fólkið að ræða.

Gasi var í u.þ.b. þrjár vikur á flótta, undir vernd Frelsishers Kosovo, um fjalllendi héraðsins á leið til Svartfjallalands. "Ég gekk með Frelsishernum um grýttan jarðveg í rúmlega 2.500 metra hæð yfir sjávarmáli. Það snjóaði. Við drógum þá sem voru verst haldnir á plastdúkum yfir fönnina.

Á þeim tíma varð ég vitni að því er fjöldi fólks var drepinn. Í eitt skiptið er við vorum á flótta undan Serbunum hæfðu þeir fimm manns sem hlupu fyrir aftan mig. Einn þeirra særðist en fjórir létust."

Gasi komst yfir til Svartfjallalands 24. apríl. Þar hringdi hann til barna sinna á Íslandi til að láta vita af sér en þá hafði hann ekkert frétt af konu sinni. Börn hans gátu upplýst hann um að hún væri á sjúkrahúsi í Kukes í Albaníu og því lá leið hans rakleitt þangað. Kona hans hafði legið á sjúkrahúsinu frá því hún kom yfir til Albaníu, eftir að hafa verið samfleytt í fimm daga og fimm nætur á gangi eftir að hún og aðrir þorpsbúar Klína voru reknir frá heimaslóðum sínum. Gasi sagði hana enn kenna sér meins í fótunum eftir flóttann.

"Frá Albaníu fórum við til Vínarborgar 3. maí og komum til Íslands 4. maí, með hjálp barna minna," sagði Gasi. Flestir ættingjar Gasis flúðu til Albaníu meðan á átökunum stóð en nú hafa margir þeirra snúið aftur til Kosovo.

NATO hefur sýnt fyrir hvað það stendur

Gasi segist að mörgu leyti hafa fundið til léttis er loftárásir Atlantshafsbandalagsins á Júgóslavíu hófust. "Við höfðum verið að bíða eftir hjálp Vesturlanda og heimsins alls því við gerðum okkur grein fyrir því að við hefðum aldrei getað komið okkur úr þessu ástandi á eigin spýtur. Við erum þakklátir NATO fyrir það sem það hefur gert, þrátt fyrir að hjálpin hafi borist nokkuð seint, því þetta var okkar eina von og eina lausnin sem við sáum á vandanum.

Sem verjandi mannréttinda hefur NATO sýnt fyrir hvað það stendur. Hefði bandalagið ekki hafið íhlutun til bjargar Kosovo-Albönum úr þessum hörmungum myndi það sjálft ekki vita fyrir hvað það stæði. NATO myndi ekki hafa þýðingu í dag hefði það ekki reynt að stöðva þjóðernishreinsanir Milosevic í héraðinu."

Þrátt fyrir óöldina og hörmungarnar sem Gasi hefur þurft að þola og horfa upp á er hann bjartsýnn á framtíðina. "Meðal okkar Kosovo-Albana ríkir mikill vilji til að byggja upp nýja framtíð og við erum bjartsýnir á það uppbyggingarstarf sem nú er að hefjast í Kosovo. Evrópulöndin hafa nú gert sér grein fyrir því að án lýðræðis á Balkanskaganum mun lýðræði ekki ná að dafna í Evrópu.

Kosovo hefur fulla burði til að vera sjálfstætt, landið er ríkt frá náttúrunnar hendi og fólkið er duglegt," sagði Gasi. Hvað uppbyggingu í Kosovo varðar hefur Gasi sínar hugmyndir. "Fyrst og fremst verður að virkja og fjárfesta í þeim fyrirtækjum sem nú þegar eru fyrir hendi í Kosovo. Til þess að þetta verði hægt þarf fjármagn að koma frá ríkjum Vestur-Evrópu. Hvað andlegu og félagslegu hliðina snertir er ekki síður mikið starf framundan. Það verður mjög erfitt fyrir fólk að ná sér andlega eftir þessar hörmungar. Það er búið að sjá og reyna mikið, einnig lítil börn, og það mun taka langan tíma að yfirvinna þá eyðileggingu.

Það verður ekki síður erfitt að taka á þessum málum við svo slæmt efnahagsástand sem nú er í Kosovo. Að mörgu leyti mun það þó líklega reynast auðveldara fyrir þá sem fullorðnir eru að sigrast á þessum andlegu erfiðleikum því á endanum fengu þeir það sem þeir óskuðu eftir; sjálfstæði."

Á fund dómsmálaráðherra Íslands

Fyrir skömmu hitti Gasi Sólveigu Pétursdóttur dómsmálaráðherra að máli. Sagði hann viðræður þeirra hafa verið "mjög uppbyggilegar", ekki síst þar sem Sólveig hefði látið í ljós vilja Íslendinga til að aðstoða við uppbyggingu dómskerfisins í Kosovo. "Það er margt sem Íslendingar geta gert til að hjálpa okkur. Til að mynda tel ég upplýsingastreymið innan dómskerfisins á Íslandi vera til fyrirmyndar. Það hversu óháð dómskerfið er ríkinu þykir mér mjög áhugavert og hlutverkaskipting milli saksóknara og lögreglustjóra er ekki síst hlutur sem ég tel okkur geta tekið til fyrirmyndar þar sem störf þessara embættismanna skarast oft í Kosovo.

Þrátt fyrir smæð Íslands er margt í íslenska dómskerfinu sem ætti að verða öðrum löndum til eftirbreytni. Glæpatíðni er lág á Íslandi í samanburði við þau lönd sem ég hef kynnt mér og meðhöndlun yfirvalda á ungu fólki sem brýtur af sér er til fyrirmyndar.

Gasi sagðist afar þakklátur Birni Friðfinnssyni, starfsmannastjóra dómsmálaráðuneytisins, og Boga Nilssyni saksóknara fyrir einkar gott viðmót og hjálpsemi sem þeir hefðu sýnt honum.

Gasi segir íslensku þjóðina og ríkisstjórnina eiga þakkir skildar fyrir að hafa tekið beinan þátt í að lina þjáningar Kosovo-Albana og láta sig hörmungar þeirra varða. Móttökur þær er flóttafólkið fékk á Íslandi segir Gasi hafa verið miklu betri en í öðrum löndum. Annars staðar hafi flóttafólki oft verið troðið saman í eitt hús, en á Íslandi búi það innan um Íslendinga og eigi þannig auðveldara með að aðlagast.

Gasi segist þakklátur Rauða krossi Íslands, Sameinuðu þjóðunum, NATO og öllum þjóðum Evrópu fyrir þá hjálp sem veitt hafi verið til að minnka þjáningar Kosovo-Albana og gera þeim kleift að snúa aftur til síns heima.

Ímynda mér að allt sem ég átti sé þar ekki lengur

Gasi segist hlakka til að fara aftur til Kosovo en þó fylgi heimkomunni nokkur kvíði. "Eins og er ber ég blendnar tilfinningar til Kosovo. Ég get ekki beðið eftir að sjá hvað bíður mín heima en jafnframt veit ég vel hvað hefur gerst. Ég vil sjá uppbyggingarstarfið hefjast og Kosovo lifna við en mér finnst erfitt að eiga eftir að þurfa að horfast í augu við eyðilegginguna. Það sem bíður mín verður brennd hús, fjöldagrafir og annað sem ber ódæðisverkunum glöggt vitni.

En ég vil fara til baka þótt það verði erfitt að hitta vini og ættingja sem misst hafa börn sín, maka eða aðra ástvini. Kannski get ég einhvern tímann sagt þeim að þetta hafi allt verið í þágu frelsis í Kosovo; að ef til vill hafi þetta allt á einhvern hátt verið þess virði. Ég er mjög jákvæður og finnst framtíðin björt. Það þýðir þó ekki að ég sé að byggja mér skýjaborgir hvað framtíðina varðar því ég er raunsær maður.

Reynsla mín af átökunum hefur kennt mér að reyna að skilja annað fólk sem lent hefur í svipuðu ástandi, að vera ekki með fordóma. Ég óska þess að barnabörnin mín frá Íslandi læri af þeim atburðum sem átt hafa sér stað í Kosovo, að þau lesi um þá og kynni sér söguna. Einnig vona ég að þau komi til með að ferðast til Kosovo og leggja sitt af mörkum til menningarinnar þar."

Flestir rekja þá atburði, sem Gasi talar um, til Serba. Hvaða tilfinningar skyldi hann bera til serbnesku þjóðarinnar í ljósi átakanna?

"Ég hef, og að ég tel meirihluti Albana, ekkert á móti Serbum sem þjóð þrátt fyrir hörmungarnar í Kosovo. Heil þjóð getur ekki gert slíka hluti, heldur eru það leiðtogar sem fá meirihluta hennar til að framkvæma þá. Þó get ég sagt þér eitt; við getum aldrei búið saman framar.

Á endanum mun serbneska þjóðin gera sér grein fyrir því að hún er fámennari en kínverska þjóðin! Serbar eru um sjö milljónir talsins, jafnmargir og Albanar sem búsettir eru í Kosovo, Albaníu, Svartfjallalandi og Makedóníu. Þrátt fyrir að serbneska þjóðin sé ekki stærri hafa samskipti hennar við öll nágrannaríkin verið vandkvæðum bundin því hún hefur ráðist nánast á þau öll. Ég óska þess að serbneska þjóðin læri af sögunni og láti slíkar hörmungar ekki endurtaka sig.

Gasi segist vonast til að komast sem fyrst aftur til Kosovo og býst við að Klína verði hans fyrsti áfangastaður. Hefur hann sett sér fyrir sjónir hvað bíður hans við heimkomuna?

"Ég ímynda mér að ég sjái að allt sem ég átti sé ekki lengur til. Það eina sem þeir gátu ekki tekið frá okkur var jörðin og hún er þarna ennþá. Ég óska engum svo ills að þurfa að ganga í gegnum það sem ég hef þurft að gera. Hörmungarnar eru nokkuð sem maður vill ekki að gerist og aðrir þröngva upp á mann, nokkuð sem maður fær ekki breytt. Þetta er eins og að vera á báti sem fer með straumnum óháð vilja manns.

Ég er stoltur af því að vera Albani og tilheyra þjóð sem getur státað af fólki eins og arkitektinum sem byggði Taj Mahal á Indlandi, Clement Sinton páfa, Móðir Theresu og Skender Beu, sem stýrði andspyrnubaráttu gegn Ottomanveldinu, er varði í um hundrað ár.

Það sem ég hef unnið að hörðum höndum hefur orðið að veruleika. Kosovo er frjálst. Ég gat ekki komið í veg fyrir hörmungarnar en ég hef unnið að því að fá frelsi til handa Kosovo-búum og nú hefur það gerst. Þangað sæki ég allan minn kraft."

Morgunblaðið/Árni Sæberg

ADEM Gasi flúði frá Kosovo í mars sl. og er nú staddur á Íslandi en stefnir að því að halda aftur heim hið fyrsta. Gasi er bjartsýnn á framtíð Kosovo-héraðs, sem hann segir vera ríkt frá náttúrunnar hendi og hýsa duglegt fólk.

Morgunblaðið/Þorkell

GASI fór á fund Sólveigar Pétursdóttur dómsmálaráðherra fyrr í mánuðinum. Viðræður þeirra segir Gasi hafa verið mjög gagnlegar og íslenskt dómskerfi telur hann geta orðið öðrum ríkjum til eftirbreytni.

Reuters

ALBÖNSK kona frá Kosovo grætur við útför ættingja sinna 5. júlí sl. sem serbneskir hermenn myrtu í Bela Crkva. Alls voru 64 karlar, konur og börn borin til grafar þennan dag. Enn eru alþjóðlegir sérfræðingar að finna fjöldagrafir sem bera ódæðisverkunum sem framin hafa verið í héraðinu glöggt vitni.

Reuters

ALBÖNSK börn frá Kosovo veifa til ljósmyndara í gegnum gaddavírsgirðingu á Cegrane-flóttamannabúðunum í Makedóníu. Hundruð þúsunda Kosovo-Albana voru hraktir á brott frá heimilum sínum meðan á þjóðernishreinsunum Serba í héraðinu stóð.

Reuters

KOSOVO-ALBANI gengur um götur Djakovica 18. júní sl. og virðir fyrir sér rústir húsanna þar. Íbúar Djakovic segja að um eitt þúsund manns sé enn saknað eftir að serbnesk lögregla handtók þá.

Reuters

LANGÞRÁÐUR draumur hefur ræst, - albanskt par frá Kosovo fellur í faðma og fagnar því að vera loks komin aftur heim til Kosovo 17. júní sl.