aAf jörðU voru þeir komnir, til jarðar eru þeir aftur að hverfa, íslensku torfbæirnir. Í inndölum og á útkjálkum eru tóftir þeirra smám saman að renna endanlega saman við þúfnakollana og grassvörðinn aftur.

YFIR FJÖLLIN

FLÝGUR ÞRÁ

EFTIR ÞÓRGUNNI SNÆDAL

Þess er hér minnst að 8. þ.m. eru liðin 80 ár frá fæðingu Rósbergs G. Snædal skálds og rithöfundar. Hann var frá Kárahlíð í Laxárdal í Austur-Húnavatnssýslu, en um líkt leyti og hann hleypti heimdraganum 1940 var Laxárdalurinn að fara í eyði. Greinarhöfundurinn segir: "Faðir minn sætti sig aldrei við þá þróun sem svipti hann æskustöðvunum. Dalurinn var honum alla tíð mjög hjartfólginn og lífið þar og umhverfið hugstætt yrkisefni bæði í bundnu og óbundnu máli."

aAf jörðU voru þeir komnir, til jarðar eru þeir aftur að hverfa, íslensku torfbæirnir. Í inndölum og á útkjálkum eru tóftir þeirra smám saman að renna endanlega saman við þúfnakollana og grassvörðinn aftur. Þó er svo undarlega stutt síðan flestir Íslendingar fæddust í moldarkofum og ólust upp við raka og reykjarstybbu. Á örfáum áratugum um miðja öldina eyddust, eins og kunnugt er, margar byggðir og margir fluttu beint frá búhokri á harðbalakoti inní þægileg húsakynni nútímans.

Á einu slíku koti í harðbýlum afdal, Laxárdal í Austur-Húnavatnssýslu, fæddist 8. ágúst 1919 faðir minn Rósberg G. Snædal skáld og rithöfundur. Hann hefði því orðið áttræður í ár hefði honum enst aldur, en hann lést 9. janúar 1983.

Þegar foreldrar hans, Klemensína Klemensdóttir, ættuð úr Svínadal og Guðni Sveinsson úr Fljótum, fluttu upp á dalinn 1916 úr húsmennsku í Bólstaðarhlíð taldi byggðin í dalum ennþá 200-300 manns. Afi og amma, sem allan sinn búskap voru fátækir leiguliðar, bjuggu fyrst í Kárahlíð og þar fæddist faðir minn. Seinna fluttu þau að Vesturá og seinast að Hvammi. Á báðum þessum kotum voru þau síðustu ábúendurnir. Alls eignuðust þau fjóra syni, Ingva, Pálma, Rósberg og Guðmund. 1948 fluttu þau til Skagastrandarkaupstaðar og settust að í litlu gulu húsi undir Höfðanum. Þar bjuggu þau með svipuðu sniði og á dalnum við þröng húsakynni, eina kú og 20 kindur. Þau kynntust aldrei nútíma þægindum, þótt bæði lifðu fram undir 1970.

Í viðtali við tímaritið Heima er bezt 1977 lýsir faðir minn aðstæðunum á bernskuheimili sinu: "Nánast var ekki til neitt af neinu. Þá voru erfiðir tímar, eins og alltaf hafa verið í voru landi - og kreppa. Búin voru ekki neitt á nútíma mælikvarða, 60-80 rollur og húsakynnin aðeins kofar, nokkrar ferálnir að gólffleti, - og allt varð að vera á sama stað, hvað innan um annað. Hvernig allir hlutir komust fyrir í baðstofukrílinu, það skil ég ekki núna. Víst má flokka það undir kraftaverk að stórir barnahópar skyldu þroskast til manns við slíkt atlæti og allsleysi, - já og dafna vel...En við áttum samt sem áður góða og skemmtilega æskutíð þarna inn milli fjallanna. Það var alltaf eftirvænting í blænum, - líka í stórhríðinni.

Laxárdalurinn er nálega 30 kilómetra langur, hann liggur austan við Langadalinn og eins og hann frá norðvestri til suðausturs. En Laxárdalurinn liggur um 200 metrum hærra yfir sjó og er því miklu snjóþyngri og harðbýlli en Langidalurinn. Samt hefur Laxárdalurinn verið í byggð frá landsnámsöld, er Gautr, föðurnafns er ekki getið, nam land í Gautsdal.

Um aldamótin 1900 voru 26 bæir í byggð og fram yfir 1930 voru 22 býli í dalum. Á kreppuárunum á 4. áratugnum og á stríðsárunum þegar tækifæri fóru að bjóðast til betri kjara og minna erfiðis í þéttbýlinu eyddist byggðin með undraverðum hraða. Á 6. áratugnum voru bara sex bæir eftir, nú bara tveir, nyrsti bærinn Balaskarð og Gautsdalur í syðri hluta dalsins.

Kárahlíð stóð í suðaustari hluta dalsins norðanvert við mynni Strjúgsskarðs sem er eitt af fjórum skörðum sem tengja Langadal og Laxárdal saman. Í þættinum Inn milli fjallanna í greinasafninu Fólk og fjöll lýsir hann skarðinu nákvæmlega: "Frá náttúrunnar hendi er Strjúgsskarð greiðfærara og léttara yfirferðar en öll hin skörðin ­ Strjúgsskarð var líka langfjölfarnasta leiðin milli dalanna. Kom það þó ekki eingöngu af því að byggjendur þeirra settu þar umferðarmet, heldur má segja að um skarðið lægi þjóðbraut að sumarlagi um langan aldur, eins konar hjágata hinnar viðurkenndu póstleiðar um Stóra- Vatnsskarð. Þeir voru margir, ferðamannahóparnir, sem völdu fremur kelduna en krókinn: beygðu af Langadalsvegi upp Strjúgsskarð, yfir þveran Laxárdal, þar sem hann er einna keldusælastur, norður Litla-Vatnsskarð, Víðidal og Kamba til Sauðárkróks. Oft hafa því stigið þéttir jóreykir í Strjúgsskarði þegar stórir hópar velríðandi ferðamanna létu spretta úr spori um greiðfærur þess. Í minningu minni, sem er barnfæddur á næsta bæ við austurenda skarðsins, er mikill ævintýra- og riddarablær yfir þessum mannaferðum, þegar tugir ríðandi fólks birtust á hæðinni fyrir vestan bæinn og teygðu fáka sína á skeiði eða stökki hjá garði, niður grundirnar meðfram Kárahlíðará. Það liggur nærri að mér finnist að allt þetta fólk hafi verið í skrautklæðum og fákar þess gulltygjaðir."

Yfir lýsingum hans á uppvexti sínum lá einnig slíkur ævintýraljómi að sem barn hélt ég að hann hefði alist upp í sannkölluðum sæludal. Ekki fyrr en ég gekk með honum upp Strjúgsskarð að Kárahlíð í júní 1982, síðasta sumarið sem hann lifði, varð mér ljóst hvernig aðstæður hann hafði alist upp við og að sárin sem fátækt og allsleysi bernskunnar höfðu sært hann sviðu ennþá.

Þó ekki væri mikið eftir af bæjarrústunum var hægt að sjá að allur bærinn hafði verið í mesta lagi 6-8 fermetrar að stærð. En það er fallegt þarna undir Kárahlíðarhnjúknum. Þar er víðsýnt yfir dalinn og uppí hlíðinni skammt fyrir ofan bæinn voru steinarnir fjórir sem þeir bræðurnir eignuðu sér eftir stærð ennþá á sínum stað. Auðséð var að fáir vöndu komur sínar á dalinn nema stóðið á Refstaðagrundunum hinum megin í dalnum. Troðningar og reiðgötur voru gróin og í þann veginn að hverfa milli þúfnakollanna.

Sextán árum síðar, á blíðviðrisdegi í september 1998, gekk ég aftur upp Strjúgsskarð að Kárahlíð. Ennþá ríkti fjallakyrrðin á Laxárdalnum og þrátt fyrir kalt sumar þöktu bústin krækiber og bláber hlíðina fyrir ofan bæjartóttirnar, ef hægt er að kalla græna ferhyrninginn, sem sýnir hvar bæjarkrílið stóð, tóttir. En það var greinilegt að umferð er hér mun meiri nú en 1982. Jeppaslóð liggur frá Strjúgsstöðum upp í skarðið og margfaldar vel troðnar reiðgötur vitna um tíðar heimsóknir hestamanna. Slóðin framjá Kárahlíð er djúp og vel troðin. Hinar gömlu leiðir um skarðið og dalinn eru aftur að verða fjölfarnar gönguleiðir að sumarlagi, enda eru votlendi og keldur Laxárdalsins lítill farartálmi goretexskóuðu göngufólki nútímans.

Um þær mundir sem faðir minn fór að heiman laust fyrir 1940 fóru jarðirnar í dalnum í eyði hver á fætur annarri. Þegar þjóðvegurinn var lagður um Langadalinn og samgöngurnar milli héraða og sveita urðu auðveldari einangraðist Laxárdalurinn vegna vegaleysis. Faðir minn sætti sig aldrei við þá þróun sem svipti hann æskustöðvunum. Dalurinn var honum alla tíð mjög hjartfólginn og lífið þar og umhverfið hugstætt yrkisefni bæði í bundnu og óbundnu máli. Þegar í fyrstu ljóðbókinni Á annarra grjóti sem kom út 1949 er heimþráin ríkjandi í huga hans. Í ljóðinu Að baki blárra fjalla, örlar á sektarkennd vegna þess að hann yfirgaf æskuslóðirnar, það er eins og honum finnist að byggðin hefði ekki eyðst ef hann hefði ekki farið:

Hver var það, sem ungur

fékk ást á heimabyggðum

og unaðssemdum dalsins?

Það var ég.

Hver var það, sem fullorðinn

brást svo barnsins tryggðum

og baki snéri að öllu?

Það var ég.

Hver er það, sem stendur

að baki blárra fjalla

og bergmálsóminn skynjar?

Það er ég.

Og veit að það er dalur,

það er dalurinn að kalla það er dalurinn minn heima.

Það er ég.

Þrátt fyrir heimþrána man hann vel sára reynslu kotungssonarins og lýsir henni í ljóðinu Á annarra grjóti:

Í hjáleigukoti við höfðingjans tún

mér heimkynni forsjónin valdi,

en dalurinn allur að efstu brún

laut óðalsbændanna valdi.

Ég fæddist til öreigans kröppu kjara,

er kenndu þau boðorð: að hlýða og spara.

- - - Eftir nokkur ár í kaupavinnu tókst honum að komast í héraðsskólann í Reykholti veturinn 1939-40. Eftir stuttan tíma í Reykjavík settist hann að á Akureyri þar sem hann bjó í nærri fjóra áratugi. Han var verkamaður og ritstjóri vikublaðsins Verkamannsins um tíma og sat í stjórn verkalýðsfélagsins Einingar í aldarfjórðung. Seinna stundaði hann skrifstofustörf og kenndi nokkur ár við Barnaskóla Akureyrar. Hann stofnaði fjölskyldu og byrjaði að hasla sér völl sem rithöfundur, fyrsta ljóðabókin kom eins og áður er sagt 1949. Þrátt fyrir erfiðisvinnu, stóra fjölskyldu og mikil félagsleg umsvif var hann nokkuð afkastamikill rithöfundur á 6. og 7. áratugnum. Hann birti m.a. aðra ljóðabók Í Tjarnarskarði, tvö smásagnasöfn Þú og Ég og Vestanátt og greinasafnið Fólk og fjöll. Og þar að auki nokkur lítil vísnakver.

Þó að margt sé vel um ljóðin hans og smásögurnar er enginn efi á að það eru lausavísurnar sem eiga eftir að halda nafni hanns á lofti, enda hlýtur hann að teljast til fremstu hagyrðinga aldarinnar. Vísur hans eru svo léttar og vel ortar að það er eins og þær hafi gert sig sjálfar, enda eru þær auðlærðar:

Nú er fátt um fínan drátt,

færist náttin yfir.

Vertu sáttur ef þú átt

einhvern þátt sem lifir.Aldrei svifa undan sjó,

um mig drifið rýkur.

Faldinn rifa fráleitt þó

fyrr en yfir lýkur.Sárið grær en svíður þó,

sorgir ljær og kvíða.

Tækifæri í tímans sjó

tapast ærið víða.Hræðist valla veður stór

vog þó falla taki

sá er alla ævi fór

einn að fjallabaki.

Hann hafði glöggt auga fyrir skoplegum þáttum í fari annarra og hefði getað orðið jafn frægur fyrir níðvísur sínar og nágranni hans frá uppvaxtarárunum í Laxárdal, Sveinn Hannesson frá Elivogum, en hann fór leyndara með slíkan kveðskap og var ekki eins illyrtur og Sveinn. Margar slíkar vísur hans komust samt á kreik og áreiðanlega hefur sviðið óþægilega undan þeim hafi þær náð eyrum réttra viðtakenda:

Enn er bitið tranti tamt tönn þótt brytir illa.

Litlu viti sýnist samt

sjálfsálitið dilla.

Innilegið auraþý

aðra flegið hefur.

Svikatreyju sýslar í

sápuþveginn refur.Þú gengur í berhögg við eðli og art,

að erindi sérhverju hálfur.

Þér leyfist að gera svo mikið og margt, en mátt ekki vera þú sjálfur.

Hann dregur ekki fjöður yfir eigin galla og er ljóst að hver er sinnar ógæfu smiður:

Hvíli ég fót við feyskinn staf finnst ei bót á högum.

Margir hljóta undir af

eigin spjótalögum

Detta hlýt ég, Drottinn, hér,

dyggða- þrýtur veginn.

Syndin ýtir eftir mér

inn á vítateiginn.

Sá er gín við fölskum feng

frelsi sínu tapar.

Bölvað svín úr besta dreng

brennivínið skapar.

Á bak við einfaldleikann lá þó mikil vinna. Í áðurnefndu viðtali í Heima er bezt segir hann: "Það er útbreidd þjóðsaga að helst allar vísur verði til á tungu höfundarins um leið og hann gerir þær heyrum kunnar. En að baki langflestra góðra vísna liggur mikil, og stundum löng vinna".

Í greinasafninu Fólk og fjöll sem kom út 1959 njóta hæfileikar hans að lýsa mönnum og landslagi sín vel. Í þáttunum segir hann frá gönguferðum sínum um eyðibyggðir Skagafjarðar- og Húnavatnssýslu; um Laxárdalinn, Gönguskörðin, Víðidal, Skálahnjúksdal og Ambáttardal, en um þær slóðir lágu fyrir komu akveganna fjölfarnar leiðir milli sýslnanna. Hann lýsir einnig hinni hörðu lífsbaráttu þeirra sem þar bjuggu við einangrun og nærri samfellt vetrarríki. Í þættinum Skroppið á Skálahnjúksdal segir hann m.a. frá Gunnari Hafliðasyni sem í 44 ár bjó á Skálahnjúk í samnefndum dal og bjargaði oft hröktum ferðalöngum frá vissum dauða: "Margir komu illa til reika að Skálahnjúk. Suma leiddi hulin hönd að bæjardyrum, eftir villu, hrakninga eða útilegu, aðrir drógust þangað uppgefnir, kaldir og kalnir, og endurheimtu fjör sitt við gestrisni og góða aðhlynningu húsbændanna."

Þátturinn Óðurinn um eyðibýlið fjallar um æskuheimili skáldkonunnar Ólínu Jónasdóttur og samnefnt ljóð hennar Krókárgerði: "Ekki verður sagt, að sjálfkjörið bæjarstæði sé þar sem Krókárgerði var staðsett. Undirlendi er þar sáralítið og jörð heldur óræstisleg á alla vegu ef heyskapur er hafður í huga ­ Fjallið ofan við bratt og ofur hátt, mosagróið og lyngivaxið upp til hlíða, en ekki grösugt. Á það mun anda kalt úr norðri og austri, því þær kaldlyndu systur, Öxnadals- og Hörgárdalsheiði leiða Kára karl beint í fang þess, og vilja þá kveðjur verða fremur kuldalegar. Síðan 1898 hefur grasið fengið að gróa óáreitt yfir götuna heim að bænum þeim.

Lagzt í eyði löngu er litla heiðarkotið.

Fyrr á leiðum hafa hér

hugir þreyð og notið. (Ó.J) Gafst hér ró sem innst í önd

unun nóga leiddi,

heim í gróin heiðarlönd

hugann dró og seiddi. (Ó.J.)

Í stirðri tíð langrar ævi er Krókárgerði þessari konu ímynd vorsins og unaðar æskunnar - og leiðir andans liggja til þeirrar Rómar . . . Það er ekki endilega þráin til að hokra á heiðarkotinu, eða fullyrðing um auðsótta gleði eða gæfu í faðmi fjalls og dals, heldur óður til æskunnar, sem aldrei verður kveðin til baka - og þess vegna aldrei dáð um of."

Þessi orð um Ólínu og Krókárgerði eiga ekki síður við um hug hans til sinna æskustöðva og ljóð hans Dalurinn:

Yfir fjöllin flýgur þrá flytur yl í hjarta.

Fellur skuggi aldrei á

æskuminning bjarta.

Allt er vafið vori og sól

víðigrónar brekkur,

lágur bær á litlum hól,

lækjargil og stekkur.

- - - Lífi ungu ljúfan óð

lindir sungu fjallsins,

æskuþrungin lög og ljóð

léku á tungu dalsins.

- Æskan líður okkur frá,

elfur tímans streyma.

Bak við fjöllin blikar á

bæjarþilin heima.

Ekki er ég viss um að málið sé svo einfalt að óðir þeirra Ólínu um æskustöðvarnar fjalli fyrst og fremst um horfna æsku. Íslendingar eru ennþá að yrkja um eyðibýli landsins, þótt þeim fækki nú óðum sem eytt hafa æsku sinni í torfbæjum. Í Lesbók Morgunblaðsin 4. apríl 1998 voru t.d. tvö ljóð um eyðibýli, svo að ég bara nefni tvö dæmi af handahófi.

Þrátt fyrir fátækt og skort bernskuáranna vissu þau Ólína og faðir minn að mikilvægur hluti af þjóðarsálinni glataðist við byltinguna miklu þegar gamlar og grónar sveitir tæmdust á örfáum árum, hluti sem ekki verður kveðinn til baka fremur en æskan. Líklega á Ólína kollgátuna í lokaerindi ljóðsins Krókárgerði:

Fornhelg kenning, farsæl þrátt,

fallin senn að grunni,

skákar enn á ýmsan hátt

ungu menningunni.

Eftir að hann varð að víkja frá Barnaskóla Akureyrar vegna prófleysis kenndi hann á ýmsum stöðum norðan og austan lands. Síðustu fimm árin var hann við barnaskólann á Hólum í Hjaltadal og þar leið honum á allan hátt vel. Heimsókn okkar í Kárahlíð 1982 var síðasta ferð hans á dalinn. Enda mátti þá glöggt sjá að heilsu hanns var farið að hraka og hann var byrjaður að finna fyrir þeirri hjartaveilu sem endaði líf hans nokkrum mánuðum síðar.

1979 gaf hann út ljóðabókina Gagnvegir en í hana valdi hann þau kvæði sín sem honum þótti "skárst" en þar eru líka mörg ljóð og vísur sem ekki höfðu birst áður:

Þótt gleðibikar gjarna tæmist skjótt

og gæfuhnoðan undan renni skjótt.

Þótt grösin sölni bæði á akri og engi.

Er eilífðin til augnabliksins sótt

- og örskotsstundin getur varað lengi.

Bókin endar á ljóðinu Gatan:

Oft er gælt við grafna sjóði,

gengin spor um hól og laut.

Þar er gróinn götuslóði

gömlum manni aðalbraut.

Höfundurinn býr í Svíþjóð.

RÓSBERG G. Snædal 1979, sama ár og hann varð sextugur og ljóðabókin Gagnvegir kom út.

UNGUR maður í Reykholtsskóla 1939 eða 1940 með vini sínum Davíð Áskelssyni.

Ljósmynd/Þ.S. 1982 RÓSBERG G. Snædal á bæjarhólnum í Kárahlíð, hann horfir yfir að Vesturá hinum megin í dalnum.

Ljósmynd/Þ.S. 1998

"ÞAR er gróinn götuslóði, gömlu manni aðalbraut." Reiðgöturnar framhjá Kárahlíð eru nú aftur að verað vel troðnar. Til hægri sést í Litla­Vatnsskarð, en um það lá leiðin til Skagafjarðar.

Ljósmynd/Þ.S. 1998 HORFT frá Kárahlíð til norðurs að Vesturá.