Skúli Jónsson Enda þótt Skúli Jónsson dveldi allan síðari hluta ævi sinnar á Selfossi, eða fjörutíu ár, var hann alltaf sami Vatnsdælingurinn en í Vatnsdal fæddist hann og lifði fyrri hluta sinnar löngu ævi sem varð fast að 98 árum.

Lífdagar Skúla hófust á vordögum þeirrar aldar sem nú er rétt að kveðja og var hann því einn af þeim Íslendingum sem tóku þátt í þeim ótrúlegu breytingum sem orðið hafa með þjóðinni á þessu sögulega tímabili sem jaðrar við byltingu, en var í raun hraðfara þróun frá gamla tímanum til þess tækniþjóðlífs sem nú er staðreynd. Engin von er til þess að miðaldra nútímafólk, hvað þá yngra, geti gert sér ljósa þá ótrúlegu breytingu sem orðið hefir frá kyrrstöðu fyrri alda til þeirrar öru framþróunar sem nú ríkir og ekki sér fyrir endann á.

Mikið félagslíf var í Vatnsdalnum á uppvaxtarárum Skúla Jónssonar frá Undirfelli þar sem hann dvaldi til fullorðinsára. Öflug stúka var starfandi í dalnum fram á annan áratug aldarinnar og var hún til á prestskaparárum sr. Hjörleifs Einarssonar, en hann sat á Undirfelli fyrir aldamótin 1900 til ársins 1907. Foreldrar Skúla, hjónin Jón Hannesson og Ásta Bjarnadóttir, höfðu búið á ættarjörð Ástu, Þórormstungu, og þar fæddist Skúli, en við brottför prestsins flutti fjölskyldan að Undirfelli og dvaldi þar um nokkurt árabil, uns leið hennar lá aftur að Þórormstungu.

Er tímabil stúkunnar leið tók við málfundafélag sem starfaði af þrótti í nokkur ár og þjálfaði menn í ræðumennsku og fundarstjórn, en arftaki þess varð ungmennafélag er einnig starfaði af þrótti, m.a. um málfundastarfsemi. Bæði þessi félög gáfu út handskrifað blað, Ingimund gamla, sem birti efni sitt í óbundnu og bundnu máli. Voru bæði félögin hinn besti félagsmálaskóli og urðu Vatnsdælingar, margir hverjir, harðsnúnir málafylgjumenn, bæði til sóknar og varnar. Íþróttir voru einnig mikið iðkaðar svo sem fótbolti og skautahlaup á vetrum mátti jafnvel telja sveitaríþrótt. Skúli á Undirfelli var í framvarðarliði ungra manna í dalnum á þessu tímabili. Hann varð harðskeyttur fundarmaður, annar besti skautamaður sveitarinnar og einmitt á þessum árum átti hann atgervisgæðinginn Létti, sem var svifléttur klárhestur með tölti. Hann var undan Þorfinnsstaðajarp sem gat af sér fleiri gæðinga svo sem Goða Guðmundar Ólafssonar bónda og alþingismanns í Ási í Vatnsdal. Goði var aftur á móti alhliða gæðingur með miklu skeiðrými, en á þessum árum þótti það nokkur metnaður að eiga gæðing sem skilaði eigandanum með áberandi glæsibrag um sveitina. Þar var Skúli fremstur í flokki á Létti sínum og duldist engum, er til þekkti, hver var á ferð.

Þar kom að Skúli Jónsson festi ráð sitt og varð eiginkona hans Ástríður Sigurjónsdóttir frá Tindum í Svínavatnshreppi, kona góðviljuð og fórnfús. Bjuggu þau hjónin á Tindum fyrstu búskaparárin en fluttu að Þórormstungu við búskaparlok foreldra Skúla. Ekki fengu þau þó að eignast jörðina og hefi ég alltaf haldið að það hafi orðið til þess að þau brugðu búi og fluttu til Suðurlands. Fleira mun þó hafa komið til um brotthvarfið frá Þórormstungu, svo sem að einkasonur þeirra, Sigurjón, hneigðist ekki til búskapar og stóð annað nær huga hans.

Skúli Jónsson bjó í Þórormstungu á mesta jarðræktartímabili í lífi íslenskra bænda og tók mjög til hendi í því efni. Hann fór líka vel með allan bústofn sinn og hafði af honum góðan arð. Hann hafði enga tilhneigingu til fleytingsbúskapar, en nýtti bújörð sína vel. Í félagsmálum sveitarinnar var hann virkur, sem á yngri árum í áðurnefndum félögum. Samvinnumál voru honum hugleikin, ásamt sveitarstjórnarmálum, einkum fjallskilmálum og refaveiðum, sem hann var gjörkunnugur af eigin raun. Um stjórnmálaskoðanir Skúla er mér ókunnugt og ég dreg í efa að hann hafi nokkurn tíma eða nokkurs staðar verið flokksbundinn. Skoðanir hans á samferðamönnum fóru því ekki eftir pólitísku mati og hann lét þær í ljósi á afdráttarlausan hátt og átti til að renna í skap, en hann var líka óvenju sáttfús og allra manna orðvarastur um náungann. Skapaði þetta Skúla virðingu og vinsældir.

Þau Ástríður og Skúli héldu traustu sambandi við sína gömlu sveitunga "þótt vík yrði milli vina" og komu ár hvert hingað norður í Húnavatnsþing meðan þeim entist þrek til. Hlýja og traustleiki fylgdi komu þeirra og þess nutu þeir einnig er voru gestir þeirra á Selfossi, enda var ekki ótítt að Vatnsdælingar gerðu sér beinlínis ferð "austur fyrir fjall" að finna þau hjónin. Í minnum er haft er þau, ásamt Erlendi bróður Ástríðar og hans konu, gerðu húnvetnskum konum dýrðlega veislu eitt sinn er þær áttu leið um Selfoss. Þannig voru þau hjón bæði góðir fulltrúar sinnar gömlu sveitar og héraðs en mér er þó nær að halda að Skúli hafi, þrátt fyrir tryggð við hans gömlu heimkynni, orðið hinn besti Árnesingur og þeim kynntist hann mörgum á þeim árum sem hann var starfsmaður Kaupfélags Árnesinga á Selfossi.

Atvikin höguðu því þannig að sá er þetta ritar gat hvorki fylgt Skúla Jónssyni "síðasta spölinn" eða sent kveðjuorð við útför hans. Úr þessu er reynt að bæta með ofanrituðu máli þótt seint sé. Við Skúli vorum um árabil samtíðarmenn, samstarfsmenn og nágrannar. Aðeins Vatnsdalsáin á milli jarðanna. Af þætti árinnar er nokkur saga í samkiptum okkar, sem ekki verður sögð hér eða öðru því sem við deildum og fjölluðum um. Hitt ber svo miklu ofar hversu gott var að starfa með Skúla að hag okkar gömlu sveitar og ég minnist þess alls með hlýju þakklæti.

Við hjónin vottum einkasyni þeirra Ástríðar og Skúla, Sigurjóni, eiginkonu hans, börnum þeirra og öðrum nákomnum samhug okkar. Þáttaskil langrar sögu hafa orðið. Hennar er gott að minnast.

Grímur Gíslason frá Saurbæ.