20. ágúst 1999 | Myndlist | 900 orð

"Norrænt landslag"

MYNDLIST Listasafn Árnessýslu VATNSLITIR, BLÝRISS, MYNDBANDSVERK FAITH COPELAND, EDUARDO SANTIERE, ELISABET JARSTÖ

Opið fimmtudaga til sunnudaga. Til 22. ágúst. Aðgangur ókeypis. LISTASAFN Árnesinga er við hliðina á Sundlauginni á Selfossi og ætti það að vera alveg öruggur vegvísir því sennilega vita mun fleiri á staðnum um tilvist laugarinnar en safnsins.

"Norrænt landslag"

MYNDLIST

Listasafn Árnessýslu

VATNSLITIR, BLÝRISS, MYNDBANDSVERK

FAITH COPELAND, EDUARDO SANTIERE, ELISABET JARSTÖ

Opið fimmtudaga til sunnudaga. Til 22. ágúst. Aðgangur ókeypis.

LISTASAFN Árnesinga er við hliðina á Sundlauginni á Selfossi og ætti það að vera alveg öruggur vegvísir því sennilega vita mun fleiri á staðnum um tilvist laugarinnar en safnsins. Þannig er líkast til árangursríkara fyrir ókunnuga ef spurt skal til vegar að þykjast vera á leið að þvo af sér skítinn til að fólkið í sjoppustaðnum, eins og einhver nefndi Selfoss í dagblaði á dögunum, fari ekki í forundran að munstra skrítna fólkið á leið til safnsins. Að öllu gamni slepptu er vel greinanlegt skilti er vísar til safnsins við afleggjarann af þjóðveginum austur og stuttur spölur þaðan, svo enginn þarf að vera hræddur um að villast, en það sem gangsetti þessar hugleiðingar er hve fáir virðast sækja safnið heim ef marka má gestabókina. Hins vegar er góð yfirsýn úr glugga þess til laugarinnar, sem eðlilega nýtur stórum meiri hylli, og þaðan geta menn nær óséðir virt fyrir sér holdafar og blóma Suðurlandsins ef vill, og til nánari glöggvunar skaðar ekki að hafa sjónauka í farteskinu! Valkyrjurnar 29, sem áður fylltu alla sali safnsins margþættri náttúrusýn á framkvæmdinni, Land, eru nú horfnar af vettvengi, en í staðinn kominn myndrænn gjörningur þriggja útlendra ævintýramanna í lífi og list . . .

­ Faith Copeland er uppalinn í Massachusetts, en býr nú í nágrenni Nýhafnarinnar í Kaupmannahöfn. Hún segist aðallega mála undir áhrifum frá fegurðinni sem hún sér allt um kring, sérstaklega hafinu, einnig plöntu- og dýraríkinu. Leitast við að gæða myndir sínar lífsgleði og glaðlegum litum, auk áhrifa af landslagi frá norðlægum slóðum einkum Færeyjum og Íslandi, hefur þó einnig leitað á suðlægar slóðir, Flórída og Miðjarðarhafssvæðisins. Verið vel virk á sýningarvettvangi í Danmörku, Færeyjum og Bandaríkjunum.

Það er rétt sem skrifað stendur, að myndir hennar séu blátt áfram og segja oftlega einhverja sögu, einkum af sjávarsíðunni, því hughrifin fangar hún umhugsunar- og milliliðalaust, málar af fingrum fram. Hins vegar eru þær afar óbeislaðar, tæknilega ófullkomnar og lausar í sér, og þrátt fyrir að gerandinn sé auðsjáanlega gæddur bernskri sýn skortir nokkuð á þá sérstöku formkennd sem einkennir nævista, þar fyrir utan eru litur og lína meira á yfirborðinu en að tengjast innri lífæðum myndflatarins . . .

Edourdo Santiere er frá Buenos Aires og nam upprunalega tölvunarfræði, en hefur lagt hana á hilluna í bili og lagt á listabrautina, þó ekki alveg á því sviði sem ætla mætti að stæði honum næst, heldur í hinu forna blýrissi. Dvelur nú á Listamiðstöðinni að Straumi og teiknar ofan í kort af Íslandi og ríður þar net fínlegra blýantsdrátta sem hann vill meina að séu kraftlínur jarðarinnar. Segir útlínur landsins og einstakra héraða eins og Vestfjarða búa yfir sérstæðum og tjáningarfullum einkennum. Landið sé eins og skapnaður sem iðar og hreyfist í sjónum, er heillaður af landabréfum og segir Borgarskipulag og borgarkort öðlast sitt eigið innra líf gegnum fólkið sem notast við það. Í öllum uppdráttunum leynast felumyndir, andlit eða hlutvaktar hugdettur sem gerandinn finnur nautn af að draga fram í dagsljósið. Myndirnar eru fínlega unnar, en þó er hinn menntunarlegi bakgrunnur meira en sýnilegur, því þær minna ekki svo lítið á tölvur ásamt valinu á myndefnum, helst í þá veru að landið og kortin líkjast forritum sem unnið er ofan í. Fyrir vikið verður vinnsluferlið afar vélrænt og ekki úr vegi að auka rennsli skynrænna og skapandi kennda til þess, þannig að skoðandinn skynji meira af blóði tári og svita að baki athafnanna . . .

Elisabet Jarstö, sem er frá Stafangri, lét heillast af Íslandi er hún kom þangað fyrst 1985. Nam eitt ár við MHÍ, kom svo aftur til landsins 1988 og þá með norskum og þýskum listamanni og dvaldist í tvo mánuði í Landmannalaugum og Þórsmörk, síðan einn á Korpúlfsstöðum. Afraksturinn var svo sýndur í Noræna húsinu. Jarstö stofnaði tilraunasal í lítilli byggingu sem eitt sinn hýsti lyfjaverslun Ríkisspítalans í Ósló og fór þar fram eins konar samræða milli rýmisins og þeirra 25 listamanna sem sýndu þar á þeim þremur árum sem tilraunin stóð yfir, en framkvæmdin féll ekki að hugmyndum um almenna sýningarsali.

Jarstö sýnir eitt myndband sem hún nefnir, Vendetta, og byggt er á íslenzku landslagi með froskum og málmhljóðum og segir verkið ekki þurfa að vera tilvitnun í íslenzkt landslag, gæti eins verið umfjöllun um söluna á íslenzkum erfðavísum . . .

Um er að ræða innsýn í fiskabúr að virðist, þar sem tveir blakkir fiskar eru í aðalhlutverkunum, ásamt hreyfingu í vatninu, gárum, loftbólum svo og gróðri. Einnig sér í landslag og leist mér það líflegasti kaflinn. Aðalkostur myndbandsins er þó að það er óvenju stutt og skal ekki misskilið, en þessi hæggengu myndbönd með endurtekningum í síbylju sem geta staðið yfir í hálfa og heila klukkutíma fara oftar en ekki mjög í taugarnar á fólki. Á tvíæringnum í Sao Paulo um árið reiknaðist listrýni nokkrum, að það tæki allt að tvær til þrjár vikur að skoða myndböndin ein(!) . . .

Þetta er framníngur sem skilur hvorki mikið eftir sig né gefur tilefni til ítarlegrar umfjöllunar. Með síðustu sýningum virðist listasafn Árnessýslu komið í samkeppni við Nýlistasafnið og raunar fleiri listhús á höfuðborgarsvæðinu sem er þunnur þrettándi og varla vænlegt til að draga að gesti hvorki staðar innansveitar né aðkomufólk, og síst af öllu af höfuðborgarsvæðinu. Að auk þarf að vanda meira til umgerðar hverrar framkvæmdar fyrir sig svo að sýningargesturinn fari í burt með einhverjar heimildir á milli handanna.

Bragi Ásgeirsson

Eduardo Santiere, Ísland, blýriss.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.