28. ágúst 1999 | Fastir þættir | 508 orð

Hvað er rósroði? MAGNÚS JÓHANNSSON LÆKNIR SVARAR SPURNINGUM LESENDA:

MAGNÚS JÓHANNSSON LÆKNIR SVARAR SPURNINGUM LESENDA: Bólgusjúkdómur

Spurning: Fyrirspyrjandi hefur rósroða og samhliða honum blóðhlaupin og sár augu. Stundum er sviðinn nánast óbærilegur. Raunar hófust augnvandræðin fyrst, eins og oft vill verða með rósroðasjúklinga, áður en húð á nefi og kinnum varð rjóð, bólótt og óþægilega heit, en augnlæknar áttuðu sig ekki, þrátt fyrir að leitað væri til þeirra,
Hvað er rósroði? MAGNÚS JÓHANNSSON LÆKNIR SVARAR SPURNINGUM LESENDA: Bólgusjúkdómur Spurning: Fyrirspyrjandi hefur rósroða og samhliða honum blóðhlaupin og sár augu. Stundum er sviðinn nánast óbærilegur. Raunar hófust augnvandræðin fyrst, eins og oft vill verða með rósroðasjúklinga, áður en húð á nefi og kinnum varð rjóð, bólótt og óþægilega heit, en augnlæknar áttuðu sig ekki, þrátt fyrir að leitað væri til þeirra, sögðu aðeins að sjúklingurinn hefði fullkomna sjón. Heitir bakstrar á augun og augndropar duga að nokkru leyti, ráð sem lærðust af Netinu en ekki munni íslenskra lækna, en vinna fyrir framan tölvuskjá veldur þurrki og sviða. Kanntu nokkur skárri ráð, önnur en inntaka fúkalyfja, og ertu sammála um að læknar þekki ekki nægilega vel þennan þó afar algenga og hvimleiða sjúkdóm? Svar: Rósroði (rosacea) er langvinnur bólgusjúkdómur, af óþekktri orsök, sem byrjar venjulega á miðjum aldri eða síðar og einungis mjög sjaldan hjá fólki undir þrítugu. Sjúkdómurinn einkennist af háræðaútvíkkun, roða, nöbbum og graftarbólum sem eru venjulega mest áberandi á miðju andlitinu þ.e. á nefi, kinnum og enni. Einstaka sinnum fylgja sjúkdómnum bólgur og óþægindi í augum sem geta verið alvarleg og jafnvel leitt til sjónskerðingar ef ekkert er að gert. Sjúkdómurinn er heldur algengari hjá konum en körlum en karlar verða stundum verr úti og geta fengið stórt og óslétt nef sem hefur verið kallað hnúskanef. Þeir sem fá rósroða eru oftast ljósir yfirlitum og einstaklingar sem hafa mikla tilhneigingu til að roðna eru í aukinni hættu að fá sjúkdóminn. Sumir roðna í andliti í hita, við geðshræringu, áfengisdrykkju, heita drykki eða kryddaðan mat. Þessi andlitsroði getur aukist með tímanum og staðið lengur og lengur og á endanum verið stöðugt til staðar. Ofan í roðann geta svo komið æðavíkkun, nabbar og bólur. Einkennin geta líkst þeim sem koma fram við rauða úlfa og stundum er erfitt að greina þar á milli. Meðferðin byggist aðallega á því að halda bakteríusýkingum í skefjum og draga úr æðamyndun og roða í húðinni. Sýkingar eru meðhöndlaðar með sýklalyfjum, annað hvort til inntöku (töflur, hylki) eða sem borin eru á húðina (krem, hlaup) og gengur það yfirleitt vel. Oft er nauðsynlegt að grípa til langtímameðferðar með sýklalyfjum. Stundum hjálpar að bera milda stera á húðina en fara þarf varlega og sterkir sterar gera ástandið oftast verra. Sumir geta dregið úr óþægindunum með því að forðast áfengi, mikið kryddaðan mat eða annað sem hver og einn verður að finna sjálfur. Sólarljós gerir rósroða oft verri og má verjast því með því að bera á sig sólarvörn. Ekki get ég dæmt um það hvort íslenska lækna skorti þekkingu á þessum sjúkdómi en það er rétt hjá bréfritara að hann er algengur og ef tölur erlendis frá gilda hér á landi má gera ráð fyrir að 10-15 þúsund Íslendingar séu haldnir rósroða á einhverju stigi. Lesendur Morgunblaðsins geta spurt lækninn um það sem þeim liggur á hjarta. Tekið er á móti spurningum á virkum dögum milli klukkan 10 og 17 í síma 5691100 og bréfum eða símbréfum merkt: Vikulok. Fax 5691222. Einnig geta lesendur sent fyrirspurnir sínar með tölvupósti á netfang Magnúsar Jóhanssonar: elmagÊhotmail.com.

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.