Á liðnu ári starfaði Ketill Sigurjónsson lögfræðingur í Ástralíu við framfylgd á löggjöf um gróður­ og jarðvegsvernd. Hér segir frá ferðum hans með fjölskyldunni um afskekktar sveitir þessa fjarlæga lands.

Áströlsk

sveitasæla

Á liðnu ári starfaði Ketill Sigurjónsson lögfræðingur í Ástralíu við framfylgd á löggjöf um gróður­ og jarðvegsvernd. Hér segir frá ferðum hans með fjölskyldunni um afskekktar sveitir þessa fjarlæga lands.

SNÁKURINN kom undan bílnum og hlykkjaðist hratt í átt að gráum runnagróðrinum. Hann var um fimm feta langur og sverleikinn á við grannan úlnlið. Þetta var greinilega sú tegund sem Ástralir kalla "eastern brown snake". Eins og nafnið gefur til kynna eru þeir brúnleitir og finnast víða um austanverða Ástralíu. Þeir eru ábyrgir fyrir flestum slöngubitum í landinu, enda talsvert algengir. Bit er oft banvænt ef ekki tekst að koma fórnarlambinu undir læknishendur innan nokkurra klukkustunda og gefa móteitur. Þórdís hljóp í veg fyrir kvikindið til að trufla það, svo ég næði mynd, en þessar slöngur eru þekktar að árasárgirni og því varaðist hún að fara of nálægt. Guðrún Diljá, níu mánaða gömul dóttir okkar, sat í burðarpoka framan á mér og skildi hvorki upp né niður í spenningi foreldranna. Og þeim "dímonska" var greinilega nóg boðið og lét sig hverfa í skrælnaðan eyðimerkurgróðurinn.

Eyðilandið

Við vorum stödd nálægt Mungo- þjóðgarðinum í Nýju Suður-Wales í Ástralíu, um 800 km vestur af Sydney. Þarna er landið nánast alveg flatt og afar gróðursnautt en stöku klettar og sandöldur sjá um að mynda landslag. Flestir Íslendingar hafa fengið sýnishorn af þessum dæmigerðu rauðu og gulleitu áströlsku eyðimörkum í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, en ekkert jafnast þó á við að upplifa auðnina sjálfur. Við vegarslóðann lágu stórar syfjulegar kengúrur og eðlur skriðu löturhægt um í steikjandi sólinni. Fyrstu skriðkvikindin sem við sáum vöktu óskipta hrifningu og gáfu tilefni til að stöðva bílinn og rétta úr sér. Hrifningin var aftur á móti ekki gagnkvæm; þegar Íslendingurinn gerðist nærgöngull var blárri tungunni otað að honum með háu hvæsi. Eðlur þessar draga nafn sitt af tungulitnum og kallast "blátungur" (blue tongued shinks). Einnig mátti sjá "drekaeðlur" (dragon lizards) sem eru alsettar göddum á bakinu og sitja langtímum saman hreyfingarlausar í sólarhitanum.

Eftir því sem vestar dró varð landið þurrara og slóðinn torfærari. Af og til sáust fáeinar kindur og virtust þær bara vel haldnar í þessu eyðilandi. Fyrr á öldinni var blómlegur sauðfjárbúskapur mjög stundaður á hinum úrkomusnauðu sléttum í austurhluta Ástralíu. Vatnsból eru víða og þegar rignir er landið fljótt að verða ótrúlega grænt. Meðan ullarverð hélst sæmilega hátt var þessi búskapur rekinn með góðum hagnaði, en nú er öldin önnur. Lækkandi ullar- og nautakjötsverð hefur leitt til þess að margir bændur hafa snúið sér að ræktun hveitis og annarri akuryrkju. Til að þess háttar búskapur sé mögulegur hefur þurft að byggja mikil áveitukerfi og afleiðingarnar hafa um margt verið hrikalegar. Áveituframkvæmdir hafa leitt til hækkunar á grunnvatnsborði, sem aftur leiðir til stóraukinnar seltu í yfirborðslögum jarðvegs. Seltan dregur úr frjósemi jarðvegsins og fer afar illa með gróður. Engu að síður teygir akuryrkjubúskapurinn sig sífellt innar í landið og kvikfjárræktin hopar.

Mungo-þjóðgarðurinn dregur nafn sitt af uppþornuðu Mungo stöðuvatninu. Fyrir tugþúsundum ára var þarna öðruvísi umhorfs. Á bökkum "vatnsins" hafa fundist leifar af horfinni menningu og ljóst að áður fyrr lifðu Ástralíufrumbyggjar góðu lífi á þessum slóðum. Aldursgreining hefur sýnt að rekja má búsetu þeirra á svæðinu allt að 40 þúsund ár aftur í tímann (þó svo þeir fengju ekki ríkisborgararétt í eigin landi fyrr en á 7. áratug þessarar aldar!). Vegna mikils jarðvegsrofs eru merkar mannvistarleifar sífellt að koma í ljós og ferðamenn eru beðnir um að raska ekki neinu ef þeir ganga fram á grafir eða aðrar fornminjar. Þarna er stórbrotin náttúra en auðnin og flatneskjan gera manninn afar smáan. Ástralir kalla svæðið umhverfis Mungo "innganginn að auðninni", en vestur af Mungo teygir eyðimörkin sig hundruð og þúsundir kílómetra yfir landið þvert og endilangt.

Við röltum um sandskafla og príluðum upp á sérkennilega klettana, sem eru sorfnir af veðri árþúsundanna. Guðrún Diljá naut þess að sitja berfætt í fíngerðum sandinum með nefið upp í vindinn, en hattlausir foreldrarnir voru á góðri leið með að fá sólsting. Þá var ekki annað að gera en að drífa sig í litla kofann okkar við afskekkt gistihúsið og svolgra í sig einn ískaldan Melbourne Bitter (Ástralir mega eiga það að þeir brugga úrvalsbjór). Þar kom agnarsmár kengúruungi hoppandi til okkar og hnusaði forvitinn af Guðrúnu Diljá, sem varð ekki um sel. Reyndist þetta vera munaðarlaus jafnaldri hennar, sem dóttir gestgjafanna hafði tekið í fóstur eftir að bíll hafði keyrt á móðurina eina nóttina.

Í ljósaskiptunum sátum við á veröndinni og horfðum á blóðrauða sólina síga í eyðimörkina. Það er um þetta leyti sem kengúrurnar eru hvað sprækastar og hlakka til svala næturinnar. Litlir "Joeyar" hoppuðu í kringum kofann og stungu snoppunni ofaní poka mömmunnar til að fá sér smá mjólkursopa (Ástralir kalla kengúruungann Joey). Guðrún litla var sofnuð í fanginu á mömmu sinni; við létum kengúrunum eftir eyðimörkina og drógum okkur í hlé. Eftir að hafa fleygt lítilli eðlu úr rúminu og út fyrir kofadyrnar var kominn tími á að hvíla sólbakaðan skrokkinn. Þetta var snemma vors (og vetur að ganga í garð á norðurslóðum). Hitasvækjan síðdegis var þvílík að við gátum aðeins reynt að ímynda okkur hvernig sólin grillar þessar slóðir um hásumarið, sem er í janúar og febrúar. Þar að auki verður þá allt krökkt af litlum flugum, sem kallast "bush flies" og geta verið ansi aðgangsharðar. Þar er komin ástæða þess að sveitafólk í Ástralíu talar gjarnan með tennurnar samanbitnar; svo það fái ekki ófögnuðinn upp í sig. Varirnar bærast vart þegar gestur er boðinn velkominn: "G'day mate ­ howr'ye going"? Senn fengjum við að heyra þessa ágætu kveðju enn á ný; stefnan var sett á Deniliquin.

Af veðmálum og sundsnákum

Deniliquin ("Deni") er þorp eða lítill bær, um 300 km suðaustur af Mungo. Bærinn liggur á mikilli sléttu sem hentar vel fyrir sauðfé og nautgripi. Erindi okkar þangað var að heimsækja Roger Oxley, vistfræðing og gróðureftirlitsmann. Báðir störfuðum við fyrir ráðuneyti í Nýju Suður-Wales, sem nefnist "Department of Land and Water Conservation" og fer með málefni vatns-, gróður- og jarðvegsverndar.

Roger reyndist vera hinn dæmigerði dreifbýlis-Ástrali í jákvæðustu merkingu. Afslappaður og óformlegur, hæfilega fámáll, þægilega gestrisinn og sést sjaldan öðruvísi en með kalda bjórdós í hendi. Hann býr ásamt fjölskyldu sinni í útjaðri bæjarins með Játvarðsána (Edward River) í bakgarðinum. Nokkur spölur er frá húsinu niður að ánni, enda flæðir hún reglulega yfir bakka sína eins og algengt er með ár í Ástralíu. Á flæðilandinu næst ánni vaxa tré, sem nefnast "river red gum", en þau finnast eingöngu á svæðum sem fara reglulega undir vatn. Flæðilandið þarna var u.þ.b. 150­200 metra breitt við árbakkann þeim megin sem Roger býr og "river red gum" skógurinn mjög þéttur.

Eins og venjulega eftir vinnu var Roger að fá sér sundsprett í lygnri ánni. Hann brá skjótt við kalli konu sinnar, kom sér í gallabuxur og leðurstígvél og seildist í ísskápinn eftir bjór handa gestunum frá Norðurpólnum. Restinni af síðdeginu eyddum við á bökkum árinnar sötrandi Victoria Bitter (eða VB upp á áströlsku). Kyrrðin var aðeins rofin af einni og einni bátskænu sem var tilefni til veðmáls: Hversu margar mínútur væru í að báturinn birtist frá því skellirnir í utanborðsvélinni heyrðust? Þess á milli mátti veðja um það hvert okkar kæmi fyrst auga á snák á sundi yfir ána. Auðvitað varð Roger hlutskarpastur og benti okkur hvar eitt kvikyndið skellti sér fram af bakkanum og til sunds. Þetta var svo sannarlega ólíkt okkar ástsæla skeri norður í Dumbshafi. Við ákváðum að sleppa því að skola af okkur rykið í ánni.

Veðmál eru vissulega stór hluti af daglegu lífi Ástrala en þó aldrei eins og þegar Melbourne-kappreiðarnar fara fram. Þann dag snýst allt þjóðfélagið um þessi fáeinu (en glæsilegu) hross og knapa þeirra. Við horfðum í beinni sjónvarpsútsendingu á Jezibel vinna æsispennandi hlaupið á síðustu sentimetrunum og verða sjónarmun á undan næsta hesti, hvers nafn er gleymt enda man enginn eftir þeim sem tapar. Potturinn kom að mestu leyti í hlut tveggja ríkustu manna Ástralíu, sem höfðu á síðustu stundu veðjað stórfé á hrossið. Var skítalykt af málinu? Við urðum þó að viðurkenna að við sáum örlítið eftir því að hafa ekki rennt suður til Melbourne til að taka þátt í öllum herlegheitunum, uppábúin að sið enskra aristókrata með glæsilegan höfuðbúnað og teygandi kampavín.

Gróðureftirlit á gresjunni

Næstu tvo dagana fór ég vítt og breitt með Roger um sveitirnar umhverfis Deni. Leiðin lá á nokkur bændabýli á svæðinu og hvað eftirminnilegust er heimsóknin til Boonoke. Þetta er afar myndarlegt býli, u.þ.b. 120 þúsund ha með um 110 þúsund fjár! Það er þekkt fyrir ræktun á merino-hrútum og fer árlegt uppboð fram síðasta föstudag septembermánaðar (ef einhvern skyldi vanta góðan hrút). Merino-féð er einkum haldið vegna ullarinnar, sem getur verið afar fíngerð. Á svæðinu umhverfis Deni er merino-ullin oftast um 22 míkrómetrar að þvermáli en austar í landinu, t.d. kringum Canberra, er fínleikinn allt niður í 15 míkró. Til samanburðar má geta þess að ullin af íslenska fénu er almennt ca. 30-47 míkró (þ.e. togið, en þelið getur jafnast á við merino-ullina að fínleika).

Árið 1978 komst Boonoke-býlið í eigu fjölmiðlajöfursins Ruperts Murdock en hann er fæddur og uppalinn í Ástralíu. Áður hafði landareignin um langt skeið tilheyrt Falkiner-fjölskyldunni sem stofnaði sauðfjárbú sitt árið 1861. Á jörðinni vinna að jafnaði 50 manns en meðan rúning stendur yfir, í mars og apríl, bætast um 30 "rakarar" við og eru þeir gjarnan maoríar frá Nýja-Sjálandi. Í meðalári fást 7­9 kg af ull af hverri skepnu. Það er eins gott að féð sé rúið á réttum tíma því annars getur það sligast undan þunga ullarinnar. Hinn náttúrulegi eiginleiki að ullin losni sjálfkrafa án þess að mannshöndin þurfi að koma nærri er löngu glataður.

Auk fjárhópa mátti sjá talsvert af nautgripum á sléttunum umhverfis Boonoke, en hluti landsins er leigður öðrum bændum til beitar. Féð gengur í beitarhólfum sem eru allt frá 5 ha og upp í rúma 2000 ha að stærð. En þarna voru einnig skepnur sem ekkert leigugjald greiða; hópar af áströlskum strútum (emu's) voru allvíða og m.a. gaf á að líta stolta strútsmóður skokkandi um sléttuna með hvorki fleiri né færri en sex unga. Því miður tókst okkur aldrei að smakka kjötið af þessum skringilegu skepnum í Ástralíuferðinni, en flest annað var reynt, þ.á m. kengúra og krókódíll. Hiklaust má mæla með kengúrukjötinu þótt það jafnist ekki á við hina einu sönnu íslensku villibráð.

Raunar sannaðist það á Boonoke að oft má finna hliðstæður með hálfan hnöttinn á milli. Gresjurnar umhverfis Boonoke minntu ótrúlega mikið á myndarleg túnin í Gunnarsholti á Rangárvöllum, þar sem Landgræðslan hefur aðalstöðvar sínar. Veðurfarið er þó afar ólíkt á þessum fjarlægu stöðum. Á svæðinu við Deni fer hitastgið upp í 45 C um hásumarið og á vetrarnóttum getur orðið frost eða allt að -5 C. Árleg hitasveifla er því gríðarleg (og sama má segja um hitasveifluna á hverjum sólarhring). Ársúrkoman er einungis u.þ.b. 350 mm en til samanburðar er hún um 800 mm í Reykjavík og um 500 mm á Akureyri. Þar að auki er úrkoman hér á landi miklu jafnari yfir árið; á sléttum Ástralíu rignir almennt aðeins í mjög stuttan tíma á ári hverju. Úrhellinu fylgja oft mikil flóð enda tekur hinn ævagamli jarðvegur ekki við regni með sama hætti og gerist hér á landi. Því er óhætt að segja að öfgarnar séu miklar í áströlsku náttúrunni þegar flóð bresta á í kjölfar langvarandi þurrka.

Áður en við kvöddum Roger var gripið til málbandsins og því skellt umhverfis nokkur stærstu "river red gum" trén við ána. Það sverasta reyndist vera um 9 metrar að ummáli. Þarna notaði Roger tækifærið og kenndi okkur að "lesa" í kengúruspörð og greina þannig á milli mismunandi tegunda. Kengúrutegundirnar eru fjölmargar og mjög misstórar, en þær stærstu verða um og yfir 2 metrar á hæð. En hvað sem því líður munum við Þórdís héðan í frá eiga auðvelt með að tegundargreina kengúruspörð!

Sveitasæla

Á bakaleiðinni til Sydney tókum við á okkur krók og ókum upp með Murrey-ánni til næsta áætlunarflugvallar, sem er tæplega 3ja klst. akstur frá Deniliquin, í bænum Albury. Áin Murray er ein af helstu lífæðum Ástralíu og lykillinn á bak við hin miklu landbúnaðarsvæði í suðausturhluta landsins. Það var glæsileg sjón að sjá fljótabátana liðast eftir lygnri ánni í tungsljósinu og aldrei höfðum við séð jafntindrandi stjörnuhimin og á sléttunum norður af ánni.

Frá Albury flugum við með lítilli rellu til Hunterdalsins, sem er eitt helsta vínræktarhéraðið í Nýju Suður-Wales. Á víngörðunum er algengt að boðið sé upp á gistingu og vínsmökkun og sumir búgarðarnir gera talsvert út á ráðstefnuhald í sveitinni. Erindi okkar var að sækja ráðstefnu Félags umhverfis- og skipulagsréttarlögfræðinga (EPLA), þar sem mér hafði verið boðið að flytja erindi um Ísland og íslenskan umhverfisrétt. Raunar fór það svo að fyrirlesturinn leystist upp í landkynningu því um leið og fyrstu skyggnurnar með íslensku landslagi birtust dvínaði lögfræðiáhugi samkundunnar verulega og yfir mig rigndi spurningum um eldgos, snjó og jökla.

Að erindunum loknum tóku ráðstefnugestir til við óhóflega smökkun á framleiðslu héraðsins. Nýjaheimsvínin sviku engan og brátt tók gleðin öll völd. Hátíðarkvöldverður var borinn fram í stórri hlöðu og stuðbandið "Murrumbidge Rattlers" lék fyrir dansi (Murrumbidge er ein af stórám Ástralíu, en hafa ber í huga að þrátt fyrir að vera afar langar eru áströlsku árnar ekki alltaf mjög vatnsmiklar). Fröken Guðrún Diljá varð lítt hrifin þegar henni var skellt í fangið á forsöngvara hljómsveitarinnar svo foreldrarnir gætu skakað sér við gamla smellinn "Stockmans Hall of Fame" (Smalahöllin!). Þannig leið kvöldið í dansi á plankagólfi skreyttu með heyböggum og héraðsveigarnar runnu ljúflega ofan í mannskapinn. Morguninn eftir voru sumir hálfframlágir þegar haldið var ofar í Hunterdalinn. Þar ætluðum við að leita uppi eldri bændahjón sem ég hafði kynnst á landgræðsluráðstefnu fyrr um vorið. Eftir ýmsar krókaleiðir um holótta sveitavegi hittum við á slóða sem leiddi okkur að litlu bændabýli. Heldur voru útihúsin hrörleg að sjá en íbúðarhúsið var stórt og myndarlegt þrátt fyrir að vera komið til ára sinna. Mary tók á móti okkur en Ron var rétt ókominn af fundi í landgræðslufélaginu í næsta þorpi. Hann birtist fljótlega á litlum kolryðguðum pallbíl (pickup), sem var e.t.v. til marks um bágborið ástand hjá áströlskum einyrkjum í landbúnaði.

Við byrjuðum á því að verða til einhvers gagns og aðstoða Ron við að setja varahlut í vatnsmylluna. Þannig hagar til víða í þessu þurra landi að vatni er dælt upp úr jörðu og dælan gengur fyrir vindorkunni einni saman. Þrátt fyrir stopula úrkomu er jafnan gnótt vatns í jörðinni sem auðvelt er að nálgast, nema eftir mjög langvarandi þurrka. Mary sýndi okkur myndir frá síðasta þurrkatímabili, sem var upp úr 1990, og var hreint ótrúlegt að sjá muninn á landinu. Þar sem nú var hár og þéttur gróður hafði landið verið algerlega skrælnað og jarðvegur allur sprunginn. Í kjölfar þurrkanna flosnuðu margir bændur upp á þessum slóðum. Ron og Mary höfðu aftur á móti fengið afnot af túnum fyrir nautgripi sína í úthverfum Sydney, í nær 400 km fjarlægð, og urðu fréttamenn mjög uppveðraðir af þessum úrræðagóðu bændum.

Á meðan verið var að hafa kvöldmatinn til fór Ron með okkur í bíltúr um landareignina. Við tróðum okkur öll í sætisbekkinn við hlið bílstjórans og svo var gefið í beint inn í 3ja metra háan þistlagróður. Við sáum fram á Þyrnirósarsvefn ef bíllinn gæfi sig en Ron vissi nákvæmlega hvernig slóðinn lá og fyrr en varði ókum við út úr grænblárri blindu þistlanna og inn á graslendi. Forvitnar kengúrur stungu höfði sínu upp úr kafgresinu og flýttu sér að láta sig hverfa aftur í gróðurinn þegar stynjandi skrjóðurinn nálgaðist um of. Landið var baðað í gullnum litum kvöldsólarinnar. Við röltum niður með litlum læk inn í gisinn skóg með "gum" trjám og stigum næstum á skelkað "pokasvín". Hvort íslenskt heiti er til yfir "wombat" er mér ókunnugt um, en þetta er pokadýr með brúnan feld og á stærð við stálpaðan grís, nema hvað lappirnar eru styttri. Við eltum skepnuna þangað sem hún hvarf ofaní holu sína og Ron sagði til lítils að bíða því útgangarnir væru venjulega margir. Þess í stað fékk Guðrún að sulla ofurlítið í læknum áður en við héldum heim í kvöldmatinn. Ég vaknaði fyrir allar aldir morguninn eftir. Það var ótrúlega kalt bæði innan- og utanhúss og ekki annað að gera en að fá sér göngutúr sér til hita. Á túnunum við bæinn voru hópar nautgripa og á símalínum sátu hundruð stórra skrækjandi páfagauka, alhvítir að lit. Sjálfur var ég hinn sprækasti og feginn að finna að heimabruggið hjá Ron kvöldið áður hafði einungis gert mér gott. Fyrr en varði birtust húsráðendur og Mary tók bakföll af hlátri þegar hún sagði okkur frá dóttur sinni, sem hafði hringt og orðið alveg bit að heyra um gesti alla leið frá Íslandi og spurt hvort þeir væru e.t.v. grænir með þrjú augu, hvítt skegg og rauða húfu. Við morgunverðarborðið var boðið upp á alls kyns marmelaði og sultur ásamt brauði og ferskum ávöxtum; allt heimalagað. Við máttum til með að líta á ávaxtagarðinn hjá Mary áður en við færum. Þarna virtist hreinlega allt vaxa; appelsínur, epli, sítrónur, plómur, grasker, ferskjur, jarðarber ­ æ, íslenska sumarið mætti nú alveg vera aðeins lengra. Klyfjuð ferskum ávöxtum var haldið af stað "heim" til Sydney um fáfarna sveitavegi sem reyndust jafnvel vera óbrúaðir. Loks endaði vegurinn á vatnsbakka en við tók gamall kláfur sem fleytti okkur yfir. Jórtrandi lamadýr ýttu undir afslappaða stemmninguna. Stefnan var sett á hin sérkennilegu Bláfjöll (Blue Mountains) skammt vestan við Sydney og seint um kvöldið renndum við heilum vagni heim í hlað við Kyrrahafsströndina norður af miðborginni. Alhörðustu brimbrettakapparnir voru enn að í kvöldhúminu en við létum okkur nægja að bleyta iljarnar örlítið, rétt til að finna sandinn spýtast milli tánna áður en gengið var til koju.

Eðlan blátunga "heilsar" aðkomumönnum frá Fróni.

Umferðaröngþveiti var ekki fyrir að fara í auðninni þó svo við værum þarna enn á malbiki. Hér hefur Þórdís notað tækifærið til að rétta úr sér meðan sú litla svaf.

Enn eitt "bleiustopp". Ketill og Guðrún alsæl í eyðimörkinni.

Sólsetrið í Mungo var stórfenglegt og varpaði rauðgullnum bjarma á mæðgurnar frá Fróni.

Innan um sorfna klettana í Mungo-þjóðgarðinum.

ROGER Oxley og greinarhöfundur við trjámælingar.

Erki-Ástralinn Roger svipast um á sléttunni vestur af "Deni".

Guðrún heldur ósátt í fanginu á söngvara vinsælustu sveitaballahljómsveitar í austanverðri Ástralíu.

Á kengúruslóðum með Ron.

Friðsæl stund á Glenburnie-býlinu.