Bækur með íslenskum sögum og Leyndardómar Snæfellsjökul kveiktu á barnsaldri ódrepandi Íslandsáhuga hjá pólska embættismanninum Grzegorz Witkowski. Nú er hann aðstoðarforstjóri kynningar- og utanríkisskrifstofu héraðsstjórnar Neðri-Slesíu, og Þorleifur Friðriksson sótti hann þangað heim.
ÉG VIL

KYNNA

ÍSLAND

FYRIR ÞJÓÐ MINNI

Bækur með íslenskum sögum og Leyndardómar Snæfellsjökul kveiktu á barnsaldri ódrepandi Íslandsáhuga hjá pólska embættismanninum Grzegorz Witkowski. Nú er hann aðstoðarforstjóri kynningar- og utanríkisskrifstofu héraðsstjórnar Neðri-Slesíu, og Þorleifur Friðriksson sótti hann þangað heim. ÞAÐ var einhverntíma á áliðnum útmánuðum að ég sat á læknastofu og blaðaði í tímaritum. Hver brosir ekki við mér á forsíðu annar en vinur minn, stórsjarmörinn Grzegorz Witkowski. Inni í blaðinu voru fleiri myndir frá ferð Ólafs Ragnars Grímssonar og föruneytis til Póllands í mars sl. Þar á meðal var mynd af Gregorz á tali við Döllu Ólafsdóttur og virtist fara vel á með þeim. Nafn hans kom ekki fram, en hann var kynntur sem pólskur kaupsýslumaður. Síðast þegar ég vissi kleif Gregorz embættismannastiga Neðri-Slesíu og miðaði vel. ­ Hvar er hann nú staddur á sinni leið, ­ hugsaði ég og ákvað á þeirri stundu að leita svara þegar ég ætti leið um Wroclaw næst. Að því kom undir lok maí þegar ég var í ævintýraferð með hinn óviðjafnanlega heimsklúbb Hana- nú úr Kópavogi. Þótt dvölin í Wroclaw yrði stutt að þessu sinni gafst okkur tækifæri á að setjast undir sólhlíf við gamla torgið Kurzy Targ. Að þessu sinni var hugur minn hvorki bundinn við guðaveigar né litríka fegurð barrokkhúsanna við torgið. Ég vildi fá svör við nokkrum af þeim spurningum sem flögrað höfðu um huga minn á læknastofunni. En fyrst, hver er hann þessi maður og hvers vegna talar hann þessa líka ágætu íslensku? Neistinn "Þegar ég var krakki gaf systir mín mér bók með íslenskum sögum. Hún tendraði einhvern neista. Síðar las ég bók Jules Vernes, Leyndardómar Snæfellsjökuls. Síðan þá hefur stafað einhverjum ævintýraljóma frá þessu landi. Einhver tilfinning gagntók mig, þrá eftir að vita meira. Ef til vill til að svipta af landinu ævintýrablæjunni og kynnasast af eigin raun lífi fólks þarna í miðju Norður-Atlantshafi. Þegar ég var í menntaskóla var keppni sem fólst í að lesa bækur og svara spurningum um eitt Evrópuland. Ég valdi Ísland, leitaði uppi það sem hægt var að fá í Póllandi um landið og vann keppnina. Í sagnfræðinámi í háskóla hélt sami áhugi áfram að marka mér leið. Þegar kom að því að semja magisterritgerð ákvað ég að gera samanburðarathugun á túlkun Adams úr Brimum í Gesta Hammaburgensis ecclesia pontificum, (Saga Hamborgarabiskupa) á norrænum eyjum, með hliðsjón af fornleifum. Þá hafði áhugi minn á þessari þjóð, menningu og landi komist á það stig að mér fannst ég þurfa að læra málið. Ég var þá svo heppinn að pólski málvísindamaðurinn Stanislaw Jan Bartoszek, sem býr í Reykjavík, hafði nýlega gefið út pólska kennslubók í íslensku. Þar fékk ég fyrstu tilsögn og grunnurinn að frekara íslenskunámi var lagður. Hvergi er betra að læra tungumál en hjá þeirri þjóð sem það talar, svo næst lá leiðin til Íslands. Þar innritaði ég mig í Háskólann, í íslensku fyrir erlenda námsmenn. Að tveimur árum liðnum sneri ég svo heim og gerðist sagnfræðilegur ráðunautur bókaforlags með víkinga sem sérsvið. Nú er ég aðstoðarforstjóri kynningar- og utanríkisskrifstofu héraðsstjórnar Neðri- Slesíu og dreymir dýrari draum en embættismanni sæmir," segir hann og brosir. Wroclaw og Neðri-Slesía Neðri-Slesía er eitt af 16 sjálfstjórnarhéruðum í Póllandi. Í þessu frjósama héraði í Óderdal búa um þrjár milljónir manns, en þar af um 700 þúsund í Wroclaw, höfuðborg héraðsins. Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að fólk hefur búið á þessum slóðum a.m.k. frá yngri steinöld, 4000­1800 f. Kr. Wroclaw er miðalda- og barrokkborg sem á rætur að rekja a.m.k. aftur í 9. öld. Elsti hluti hennar stendur á Dómkirkjueyju í Óderfljóti og myndar ásamt þeim hluta sem stendur á Sandeyju og við gamla torgið eins konar byggingarsögulegan kjarna borgarinnar. Þessi borgarhluti er perla fyrir hvern þann sem hefur yndi af því að lesa götur og hús. Flestir stílar frá 13. til 20. aldar eiga hér sína fulltrúa þótt gotík, renesans og barrokk séu mest áberandi. Lega Wroclaw við Óderfljót, á vegamótum norðurs og suðurs gerði hana þýðingarmikla bæði frá sjónarhorni herfræði og kaupmensku. Hér var áningarstaður Rómverja í raf- og loðvöruferðum til Eystrasalts og Hansakaupmenn byggðu þar miklar miðstöðvar enda borgin í þjóðleið fyrir saltflutninga frá námunum miklu í Wieliczka. Lega borgarinnar hefur valdið því að um hana hafa leikið menningarstraumar úr mörgum áttum, tékkneskir og slavneskir, þýskir, austurrískir. Hinar íburðarmiklu barrokkbyggingar sem setja svo mjög svip sinn á miðbæinn eru frá tímum Austurríkismanna. Pólska nafn borgarinnar Wroclaw er kennt við tékkneska aðalsmanninn Vraticlav sem réð þar ríkjum undir lok 10. aldar, en sennilega þekkja flestir Íslendingar betur þýska nafnið hennar ­ Breslau. Að beisla jarðhita Hinir fjölbreyttu og blæbrigðaríku menningarstraumar sem um aldir hafa umleikið borgina eru ekki aðeins söguleg fyrirbrigði heldur hafa þeir einnig markað nútímann. Nú á tímum frjálsra fjármagnsflutninga og mikillar uppbyggingar í Póllandi eru Wroclaw og Neðri-Slesía þeir staðir í Póllandi sem vestræn fyrirtæki leita hvað helst til í því skyni að fjárfesta, enda ríkir þar alþjóðlegur andi sem býr við gamla hefð. "Wroclaw er í þriðja sæti pólskra borga hvað varðar erlendar fjárfestingar, ­ og vonandi geta Íslendingar tekið þátt," segir Grzegorz og greinir frá hugmynd sinni. "Við rætur Súdetafjalla er jarðhiti sem hugsanlega er hægt að nýta. Þarna er um umhverfisvæna orku að ræða sem ætti að verða auðvelt að fjármagna, ef hægt er að sýna fram á að hugmyndin sé raunsæ. Embættismenn eru dálítið þungir, enda ber þeim að fara varlega, en á móti kemur að núna er vaxandi áhugi á umhverfismálum. Innan Evrópska efnahagssvæðisins er mikill áhugi á að hjálpa Pólverjum við að draga úr mengun, enda eru mengurnarmál náttúrulega ekki einkamál einstakra ríkja. Þetta er á kynningarstigi og nýlega lauk ég við ítarlega skýrslu sem liggur nú hjá umhverfisnefnd Neðri-Slesíu. Vonandi leitum við að því loknu til Íslands eftir þeirri þekkingu sem við þörfnumst. Af alls kyns tengslum Í Wroclaw eru hlutir sem tengjast íslenskri sögu. Í Háskólabókasafninu á Sandeyju er eitt fárra eintaka Guðbrandsbiblíu. Á gamla bókasafninu "Ossolinski" er einnig Orteliusar-kort af Ísandi frá lokum 16. aldar. Á sama stað er frumútgáfa af ferðasögu Tékkans, eða Mórovans (frá Mæri) Daníels Vetters til Íslands í byrjun 17. aldar. Ferðasagan Islandia er fyrsta ferðasagan sem kom út á pólsku (kom út í borginni Leszno árið 1638). Biskupssetri var valinn staður í Wroclaw um líkt leyti og Íslendingar gengu kristni á hönd. "Tengslin eru ekki aðeins söguleg," segir hann og segir frá nokkrum vinum sínum frá Wroclaw sem búa á Íslandi, eða hafa búið þar. Í þeim hópi er hún Katarzyna Guðmundsson rithöfundur sem skrifað hefur sögur og kvikmyndahandrit á pólsku. Annar er Jacek Pogórski, íslenskur ríkisborgari sem talar íslensku, hugsar á pólsku og vinnur í prentsmiðju í Berlín. Að eiga sér dýran draum Um þessar mundir er hugur Grzegorz ekki allur bundinn við sýslan embættismanns í Neðri-Slesíu. Hugur hans er að hluta til á Íslandi og að hluta til að í tómum húsakynnum rétt við miðbæ Wroclawborgar. Skammt frá gamla torginu hefur hann tekið á leigu húsnæði og er að hefja framkvæmdir við að breyta því í krá sem á að opna nú í haust, Heklukrá. "Já, Hekla á veitingastaðurinn minn að heita, ætli ég byrji ekki á því að opna krá og kalla hana "Heklukrá" og færa síðan út kvíarnar. Draumur minn er að selja íslenskan mat og drykk í umhverfi sem minnir á Ísland. Það eru nefnilega allt of margir Pólverjar í sömu stöðu og ég var sem barn að hafa áhuga á að vita meira um Ísland og íslenska menningu, en hafa bara einhverja þokukennda fantasíu í höfðinu." En af hverju nafnið Hekla? "Hekla er nafn sem flestir þekkja og tengja við Ísland, það er í mínum huga menningarlegt tákn í þeirri merkingu að menning íslensku þjóðarinnar hefur mótast af nálægð sinni við óbeisluð og óbeislanleg náttúruöfl. Nafnið er líka gott til markaðssetningar, stutt og auðvelt í framburði og allir tengja það Íslandi. Það sem Pólverjar vita um Ísland er að þar eru jöklar, Hekla og Geysir. Þessari vanþekkingu þarf að breyta. Mig langar að draga frá tjöld vanþekkingar um Ísland sem hafa hangið hér í Póllandi að minnsta kosti frá dögum Daniels Vetters. Ég vil kynna landið. Heklukráin á að verða menningarstaður og veitingastaður í umhverfi sem minnir á Ísland, íslenska baðstofu. Ég læt mig einnig dreyma um að í framtíðinni geti ég boðið íslenskum listamönnum til að troða upp, lesa, spila, syngja eða miðla list sinni á annan hátt. Draumur minn er að Heklukráin verði áningarstaður íslenskrar menningar í Póllandi þar sem Pólverjar geta kynnst henni og notið. Heklukráin á að verða staður sem Pólverjar vita að Ísland er kynnt og helst vildi ég að Íslendingar gætu haft þennan stað sem áningarstað á ferðum sínum um Pólland." Íslandsvinurinn Grzegorz Witkowski.Ráðhúsið í Wroclav. Gotnesk bygging. að stofni til frá 13. öld, lokið á þeirri 16. Í þessu húsi er einnig borgarsögusafnið. Undir suðurgafli þess er gangur inn í hinn fræga Swidnica kjallara "Piwnica Swidnica" sem allt frá miðöldum hefur verið frægur fyrir hinn góða Swidnicka bjór.Ríkmannleg kaupmannahús við Gamla Torgið í Wroclaw.Greinarhöfundur og Björn sonur hans á góðri stund.