12. september 1999 | Innlendar fréttir | 733 orð

Kynningardagur á karate

Sjálfsvörn sýnd og fleira

Í DAG er sérstakur kynningardagur Karatefélagsins Þórshamars og opið klukkan 14 til 16 í húsakynnum félagsins í Brautarholti 22. Helgi Jóhannesson, formaður félagsins, var spurður hvers vegna sérstakur kynningardagur félagsins væri núna. Hann er í tilefni af tuttugu ára afmæli félagsins, en það var stofnað 27. maí 1979.
Kynningardagur á karate Sjálfsvörn sýnd og fleira

Í DAG er sérstakur kynningardagur Karatefélagsins Þórshamars og opið klukkan 14 til 16 í húsakynnum félagsins í Brautarholti 22. Helgi Jóhannesson, formaður félagsins, var spurður hvers vegna sérstakur kynningardagur félagsins væri núna.

Hann er í tilefni af tuttugu ára afmæli félagsins, en það var stofnað 27. maí 1979. Frumkvöðlar að stofnun félagsins voru þeir Karl Gauti Hjaltason, Karl Sigurjónsson og Gísli Klemensson. Fram að þeim tíma höfðu ýmsir erlendir karateþjálfarar komið hingað til lands til þess að kenna íþróttina og höfðu þremenningarnir lært hjá þeim ­ sem svo aftur varð til þess að þeir ákváðu að stofna Karatefélagið Þórshamar.

­ Er félagið með umfagnsmikla starfsemi nú?

Já, það má segja það, félagið er með starfsemi í sjö mismunandi flokkum. Fjórir flokkar eru fyrir framhaldsnemendur en þrír fyrir byrjendur. Starfseminni er skipt eftir aldri. Í byrjendaflokkum eru nemendur á aldrinum frá 6 til 8 ára, 9 til 14 ára, og loks 15 ára og eldri. Einn framhaldsflokkur er fyrir unga nemendur 6 til 8 ára og svo erum við með unglingaflokk sem er fyrir 9 til 14 ára. Framhaldsflokkar fyrir fullorðna eru tveir, annar fyrir þá sem eru með "lægri" belti og svo er meistaraflokkur fyrir þá sem eru komnir með brún eða svört belti.

­ Hvað merkja litir beltanna?

Litirnir merkja hversu langt menn eru komnir í karate. Fyrstu beltin sem nemendur eru með þegar þeir byrja eru hvít, fyrstu prófin sem þeir taka eru fyrir gul belti. Svo taka menn próf til þess að fá appelsínugul belti, rauð belti, græn, blá, fjólublá og brún. Þegar nemendur eru komnir með brún belti markar það ákveðin þáttaskil í karatenáminu ­ þeir fara að undirbúa sig fyrir próf sem gefur meistaragráðu og svart belti. Fyrir lituðu beltin eru menn með með svokallaða kyu- gráðu eða nemendagráðu og þegar þeir fá svart belti eru þeir komnir með dan-gráðu.

­ Eru margir hér á landi með dan-gráðu?

Já, það eru þónokkuð margir með dan-gráðu og í Þórshamri æfa t.d. 8 einstaklingar með svart belti.

­ Komast menn þá ekki lengra í þessum fræðum?

Jú, um leið og menn fá svart belti fá þeir 1. dan. Síðan geta menn fengið allt upp í 10. dan, sem er hæsta gráðan í karate sem gefin er í heiminum. Á milli dan- gráðanna geta liðið mörg ár, sem dæmi um það má nefna að hér á landi er einn einstaklingur með 4. dan-gráðu og þrír með 3. dan- gráðu. Þeir hafa allir æft um og yfir tuttugu ár.

­ Hvað ætlið þið að sýna þeim sem sækja ykkur heim á kynningardegi?

Við ætlum að sýna hvernig starfsemi Þórshamars fer fram. Við ætlum að sýna sjálfsvörn í karate, hvernig æfingar fara fram, kata (bardagi við ímyndaðan andstæðing) og kumite, sem er bardagi milli tveggja einstaklinga. Einnig ætlum við að sýna myndbönd um karate og boðið verður upp á ýmsan annan fróðleik. Þá gefst fólki tækifæri til þess að ræða við þjálfara og aðra félaga í Þórshamri sem verða á staðnum.

­ Er þetta hættuleg íþrótt?

Nei, hún er ekki hættuleg. Slysatíðni á karateæfingum er mjög lág, enda er ekki mikið um beinar snertingar í karate. Fólki er kennt að beita tækninni rétt, á þann hátt að hreyfingarnar verði sem kraftmestar og fólk hafi fulla stjórn á þeim. Til að mynda er börnum ekki kennt kumite fyrstu árin, það er geymt þangað til þau hafa nægan þroska til þess að valda þeim þætti.

­ Hvaðan er þessi íþrótt upprunnin og hvar er hún mest stunduð?

Íþróttin er frá Japan og er mjög gömul ­ hefur þróast frá ýmsum bardagalistum sem upphaflega komu frá Kína. Stofnandi Shotokan-karate er Gichin Funakoski, sem kynnti nútíma karate fyrst fyrir almenningi upp úr 1920. Íþróttin er nú stunduð um allan heim og gera menn sér vonir um að karate verði leyft sem ólympíuíþrótt á næstu árum. Ég ætlað að vona að sem flestir sjái sér fært að mæta á kynningardaginn og fræðast þar um karateíþróttina og Þórshamar, en þeir sem ekki geta komið geta fengið upplýsingar um karate og félagið á heimsíðu þess www.Thorshamar.isHelgi Jóhannesson fæddist á Blönduósi 1967. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Sund 1987 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1983. Hann hefur unnið hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Skýrr hf. og nú er hann markaðs- og söluráðgjafi hjá Nýherja. Hann hefur lengi stundað karate og er nú formaður Karatefélagsins Þórshamars. Helgi er ókvæntur en á tvö börn, Heiðar Örn og Ásrúnu.Ólympíuíþrótt á næstu árum?Helgi JóhannessonAðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.