25. september 1999 | Menningarblað/Lesbók | 2257 orð

KATLA OG KÖTLUGOS EFTIR ARA TRAUSTA GUÐMUNDSSON

Tvær systur Í manna minnum eru tvö eldfjöll allra eldstöðva þekktust á Íslandi: Hekla og Katla. Ástæður þessa eru einkum þær að bæði eldfjöllin eru nærri byggð og bæði hafa gosið í kringum tuttugu sinnum á sögulegum tíma. Hekla hefur sent frá sér meira af gosefnum í rúmkílómetrum talið en Katla, en sú síðarnefnda hefur líklega gosið heldur oftar en hin sl. 4.000-5.000 ár.

KATLA OG

KÖTLUGOS

EFTIR ARA TRAUSTA GUÐMUNDSSON

Þegar litið er yfir gossögu Kötlu er auðvitað næsta víst að eldstöðin gýs á næstu áratugum. Afar litlar líkur eru á að jafn virk megineldstöð og Katla þagni öldum saman. Löng goshlé geta boðað stærri gos en orðið hafa um hríð.

Tvær systur

Í manna minnum eru tvö eldfjöll allra eldstöðva þekktust á Íslandi: Hekla og Katla. Ástæður þessa eru einkum þær að bæði eldfjöllin eru nærri byggð og bæði hafa gosið í kringum tuttugu sinnum á sögulegum tíma. Hekla hefur sent frá sér meira af gosefnum í rúmkílómetrum talið en Katla, en sú síðarnefnda hefur líklega gosið heldur oftar en hin sl. 4.000-5.000 ár.

Eldstöðvarnar tvær eru harla ólíkar. Báðar eru að vísu í flokki megineldstöðva (stórra eldfjalla sem gjósa oft á löngum tíma) í Suðurlandsgosbeltinu. Þær teljast miðjur allstórra eldstöðvakerfa. Í kerfunum eru nokkuð margar sprungueldstöðvar, utan miðjunnar. Hekla, í núverandi mynd, er þó mun yngri megineldstöð en Katla og hefur myndað háreist fjall. Gos í eldfjallinu hafa tilhneigingu til að koma upp við miðbik þess. Katla, á hinn bóginn, er í raun mikill fjallabálkur með öskju og verða flest Kötlugos í öskjunni eða á jörðum hennar. Svo er Katla hulin nokkur hundruð metra þykkum jökli en aðeins þunnur, lítill hlíðarjökull er norðvestan í Heklu.

Í eldgosum Heklu kemur oftast upp hraun og gjóska en í nokkrum tilvikum eru gosin hrein gjósku- eða þeytigos. Kötlugos eru ávallt gjóskugos enda aðstæður þannig að vatn á greiðan aðgang að kviku í gosprungum með þeim afleiðingum að mikið af gosefnunum kurlast, þ.e. verður að gjósku. Hraun nær ekki að renna en undir jöklinum hlaðast þó væntanlega upp að nokkru myndanir úr föstu bólstra-, kubba- eða brotabergi.

Nú er nærri áratugur liðinn frá síðasta Heklugosi en umbrot í Kötlu nærtæk og beinist því athyglin að henni.

Frá 10. öld...

Mýrdalsjökull er nú um 580 ferkílómetrar að flatarmáli. Við landnám hefur hann verið nokkru minni en náði hámarksstærð á sögulegum tíma síðla á 19. öld. Landnema hér hefur trúlega ekki grunað, þegar þeir litu jökulinn fyrst augum, að undir honum leyndist skæð eldstöð. Vísbendingar eru um að fyrstu gos sem menn sáu hafi orðið snemma á 10. öld; alls þrjú gos, eitt samfara miklu eldgosi á auðu landi þar sem nú er Eldgjá. Fram til upphafs 16. aldar kemur eldur upp 7-8 sinnum en um þau gos er fremur lítið vitað. Fátt eitt er til í gömlum ritum um þau en sérfræðingar, fyrst Sigurður Þórarinsson og síðar einkum Guðrún G. Larsen hafa raðað saman gossögunni eftir gjóskulögum í jarðvegi. Stundum er erfitt að staðfesta tiltekin Kötlugos á þessu tímabili.

Frá og með gosinu 1580 er sagan auðraktari og eru þá m.a. komnar til ýmsar ítarlegri ritaðar heimildir. Kötlugosin raða sér þannig: 1580, 1612, 1625, 1660, 1721, 1755, 1823, 1860 og 1918. Eldgos þessi stóðu yfir í 13-120 daga en meðaltalshlé á milli sögulegra Kötlugosa (miðað við um 20 gos) er nálægt 50 árum. Stærsta gosið sem vitað er um með vissu eftir 11. öldina kemur upp árið 1755. Þá spúði eldfjallið a.m.k. 1,5 rúmkílómetrum af gjósku, en það rúmmál er 50% meira en kom upp úr Heklu 1947 (þar er stór hluti hraun), og meira en tvöföldu því magni sem upp kom í Kötlugosinu 1918.

Dæmigert Kötlugos hefst að undangenginni harðri skjálftahrinu, oftar en ekki samdægurs eða daginn áður en gosið sést. Atburðarásin þar á undan er nánast óþekkt. Menn hafa hvorki litið jökulinn úr lofti né haft jarðeðlisfræðileg mælitæki undir höndum við nokkurt gosanna til þessa. Væntanlega merkja jarðskjálftarnir stuttan forleik að gosi og upphaf þess og þá ennfremur að það tekur meðalgosið hálfan til einn sólarhring að ná upp úr jöklinum (víða 300-600 m þykkur). Jökullinn er raunar allt að 750 m þykkur og fremur kraftlítið gos undir slíkum ísmassa þyrfti ef til vill fáeina daga til þess að ná að bræða sig upp úr klakanum.

Eins og títt er um eldgos eru Kötlugos öflugust í fyrstu og rís gjóskublandinn gosmökkur (mikið til vatnsgufa) a.m.k. 10-15 km í loft upp á skömmum tíma. Gjóskufall er jafnan verulegt og ræðst auðvitað af vindátt og vindhraða hvar hin algenga, svarta basaltgjóska fellur. Hún getur valdið tjóni á gróðurlendi eða tímabundnum vandræðum, t.d. vegna efnamengunar.

Mikið er um eldingar og þrumur í mekkinum. Sjónarspilið er ekki ólíkt því er sást í Vatnajökli 1996 og 1998, á fyrstu gosdögum þar; kraftur goss líkur því sem sást í Gjálp en eldingar líkar þeim er skreyttu gosmökkinn úr Grímsvötnum.

Hlaupin ógurlegu

Vatnssöfnun í jöklinum á sér stað áður en sést til Kötlugoss. Hún getur að hluta verið vegna aukins jarðhita á gosstað, og í nágrenninu, fyrir gos, svo dögum eða vikum skiptir. Getur hluti þess vatns runnið frá bræðslustöðum og safnast á botni öskjunnar. En líklega er vatnssöfnunin þó sýnu mest á þeim hálfa til eina sólarhring sem oft líður milli upphafs goss og uppkomu þess úr jöklinum. Gosefnin bræða þá mikinn ís eins og uppgötvaðist í Gjálpargosinu 1996 en þar streymdu 5.000 tonn af vatni á sekúndu frá eldstöðinni. Vatnið safnast líklega í stækkandi, hvolflaga, geymi. Á yfirborði jökulsins sjást þá eitt eða fleiri víð ketilsig.

Lögun og stærð þessa geymis, jafnt og annarra, og þykkt jökulsins umhverfis hann stýrir því hvenær vatn getur þrengt sér af stað undir ísinn og um leið brætt sér leið áfram. Hallinn í vatnsfarveginum er býsna mikill því botn Kötluöskjunnar er víða í 600-800 m hæð og vegalengdin að jökuljaðri hlutfallslega stutt. Þarna eru aðstæður ólíkar því sem er um miðbik Vatnajökuls og auðvitað enginn "varageymir" til þess að taka við vatni eins og gerðist er bræðsluvatn úr Gjálp tafðist í Grímsvötnum. Þar náðu að safnast rúmir 3 milljarðar rúmmetrar vatns (3 rúmkílómetrar). Talið er sennilegt að meðalstórt Kötluhlaup sé um þriðjungur þessa að rúmtaki eða 1 rúmkílómetri.

Algengt er að vatnið ryðjist af stað og komist fram úr jökli skömmu eftir að sést til Kötlugoss (nokkrar klukkustundir eða innan við sólarhringur). Hlaupið brýtur feiknin öll af ís úr jaðri jökulsins. Vatnið er mjög gjóskublandið og flaumurinn hrífur með sér efni undir jöklinum og á flóðsöndum á leið til sjávar. Svo sýnist, af lýsingum sjónarvotta, að hlaupið sé í upphafi nálægt því að vera eðjuhlaup. Grauturinn er þungur í sér og ryður fram sandi svo strókar standa í loft upp en ísjakar, stórir og smáir, sökkva grunnt í flauminn, ásamt grjóti. Hraðinn er mikill, a.m.k. 20-30 km á klst. Þegar líður á meginhlaupið ber meira á vatni og það gerist því æ líkara Skeiðarárhlaupi.

Meginhlaupið er gengið yfir á á að giska 10-20 klst. enda rennslið mun meira en í stóru Skeiðarárhlaupunum (og magnið minna). Mat manna leikur helst á 100.000- 200.000 rúmmetrum á sekúndu (tvisvar til fjórum sinnum rennslið í hlaupinu eftir Gjálpargosið). Vitað er til þess að minni hlaupgusur geta komið fram síðar. Þegar meginhlaupið berst til sjávar getur orðið til flóðbylgja við ströndina næst flóðstaðnum.

Setið sem berst fram verður víða margra metra þykkt og ströndin færist í sjó fram svo kílómetrum skiptir.

Kötlukerfið

Samkvæmt rannsóknum með jökulsjá og því botnkorti sem unnið hefur verið hjá Raunvísindastofnun H.Í. undir stjórn Helga Björnssonar eru þrjú vatnasvið í öskjunni. Hún sjálf er 110 ferkílómetra sigdæld, talin að stórum hluta mynduð í hamfaragosi fyrir tæpum 11.000 árum við landsig. Vatnasviðin veita hlaupvatni (og þekktum ám) um Entujökul, Kötlujökul (norðaustan Víkur) og Sólheimajökul. Ræður lega gossprungu því undan hverjum þessara jökla sérhvert hlaup æðir. Á sögulegum tíma hafa öll Kötluhlaupin, hugsanlega að 1-2 undanskildum, komið úr Kötlujökli. Á undantekningunum leikur vafi en þau hlaup hafa verið tengd við Sólheimajökul.

Kötluhlaup hafa flæmst um allan Mýrdalssand og skapað hann í tímans rás. Vatnið og eðjan ryðjast oft beggja vegna Hafurseyjar og umlykja líka Hjörleifshöfða frammi við ströndina. Hlaupin hafa rofið gróðurlendi og kaffært, hrakið fólk úr fornum byggðum, étið af landi í Álftaveri og hlaðið upp setbunkum, t.d. austan Víkur (Höfðabrekkujökull, 1755) og miklu af sandströndinni við Vík. Ekki er vitað um manntjón beinlínis af þeirra völdum.

Öskjusigið í Kötlu ber þess vitni að undir eldstöðinni sé kvikuhólf, líkt og hefðbundið er í megineldstöðvum. Þak þess sígur. Athuganir Bryndísar Brandsdóttur og fleiri benda til þess að þykkt þaksins sé aðeins 1-2 km og að undir því sé linsulaga kvikugeymir, allt að 2 km djúpur og 3 km langur og ef til vill stórt, storkið innskot þar undir.

Vafalaust eru gamlar gossprungur utan í fjallinu sem umlykur öskjuna, en þó undir jökli. Utan jökuls sjást gígaraðir norðvestan, norðan og norðaustan jökulsins. Með Kötlu mynda þær eldstöðvakerfi þar sem hafa samtals orðið allt að 100 eldgos á sl. 10.000 árum. Í heild er þetta kerfi framleiðnasta eldstöðvakerfi landsins. Úr gossprungunum utan jökuls hafa runnið hraun, og sum stór eins og Hólmsárhraun (rúml. 6.000 ára). Tilkomumest er sambland gossprungu og sigdals, sjálf Eldgjá, sem síðast bærði á sér 934 og má líkja því gosi við Skaftárelda um margt. Ummerki stórgossins sjást m.a. í ískjörnum úr Grænlandsjökli. Fátt ef nokkuð bendir til eldsumbrota í Kötlukerfinu á íslausu landi, á sögulegum tíma.

Eyjafjallajökull er megineldstöð, nánast áföst við Kötlukerfið. Fjallið er 1666 m há eldkeila. Hún gaus síðast 1821-1823 og hófst Kötlugos um það bil er eldsumbrotunum í Eyjafjallajökli lauk. Einnig eru vísbendingar um samfallandi gos í báðum eldstöðvunum 1612.

Kötlugosið 1918

Þegar Katla bærði á sér 12. október 1918 höfðu snarpir jarðskjálftakippir fundist í nágrenni Mýrdalsjökuls. Gosmökkur braust upp úr jöklinum um eittleytið og gjóskan barst í austur. Síðdegis heyrðust dynkir þegar hlaupið braust fram úr vestanverðum Kötlujökli. Þar brotnaði upp hrikagjá í jökuljaðarinn. Skömmu síðar kom einnig fram hlaupvatn og -eðja austar, og mikið af Mýrdalssandi hvarf undir flauminn. Fórst þá nokkuð af hrossum og sauðfé. Daginn eftir var hlaupið að mestu rénað og hafði þá valdið t.d. tjóni á gróðurlendi í Álftaveri. Nokkuð jafnfallin en þunn gjóska var í Skaftártungu og aska barst til Síðu og eitthvað þar ausur fyrir. Fjöldi ísjaka lá á sandinum og voru sumir á stærð við stór fjölbýlishús, eftir myndum að dæma.

Breytileg vindátt bar ösku til Reykjavíkur og til Hafnar í Hornafirði næstu daga. Frekari jarðhræringar fundust og fleiri hlaupgusur komu, 14. október, 26. október og 10. nóvember (eftir goslok). Um hríð sást að gos kom upp út tveimur gígum en síðari tíma athuganir og staðsetning gosstöðvanna leiða í ljós að jökullinn er um 400 m þykkur þarna í austanverðum jöklinum, ekki fjarri jökulkollunum er varða þengslin þar sem Kötlujökull fellur fram úr öskjunni. Dagana 22. og 23. október herti gosið. Féll þá aska m.a. í Vík og þann 26. náði askan til Akureyrar.

Talið er að gosinu hafi lokið 4. eða 5. nóvember. Gosefnamagn er áætlað um 700 milljónir rúmmetra (0,7 rúmkílómetrar) af nýfallinni gjósku. Meta þurfti skemmdir á 42 jörðum en bátar og geymslur skemmdust að auki í Vík.

Gos í vændum?

Margoft hefur jörð skolfið undir Mýrdalsjökli á síðari helmingi 20. aldarinnar. Þaðan hafa líka komið fram snörp smáhlaup og tilheyrandi ketilsig sést í yfirborði jökulsins. Vitað eru um jarðhita undir ísnum. Iðulega hafa orðið umræður um yfirvofandi Kötlugos og oft hafa fjölmiðlar jafnt sem sérfræðingar og almannavarnarnefndir tekið við sér vegna umbrota eða skjálfta. Nú er goshlé Kötlu orðið eitt hið lengsta á sögulegum tíma.

Þegar litið er yfir gossögu Kötlu er auðvitað næsta víst að eldstöðin gýs á næstu áratugum. Afar litlar líkur eru á að jafn virk megineldstöð og Katla þagni öldum saman. Löng goshlé geta boðað stærri gos en orðið hafa um hríð. Nú sem stendur eru þrenns konar merki um óróa í Kötlu og nágrenni, sem ber að taka alvarlega:

1. Skjálftavirkni er töluverð í Mýrdalsjökli og einnig, en þó miklu minni, í Eyjafjallajökli. Hefur svo verið í sumar þannig að ekki er eingöngu um hefðbundna haustskjálfta Kötlu að ræða (er verða að lokinni sumarþynningu jökulsins, halda menn).

2. Jarðhiti hefur aukist verulega í jöðrum öskjunnar í Kötlu-megineldstöðinni. Það sést á um tug ketilsiga sem verða til við ísbráðun yfir jarðhitasvæðunum. Nærtækt er að skýra breytingarnar með kvikuinnskotum úr kvikuhólfi og auknum þrýstingi á þak þess og með hitun jarðskorpunnar. Mörg dæmi eru til um aukna og breytta jarðhitavirkni eldstöðva á undan eldgosum.

3. Um árabil hefur orðið vart við útstreymi gastegunda í Gígjökli í Eyjafjallajökli; gastegunda sem geta verið af kvikuætt.

Ekkert af þessu dugar til þess að spá eldsumbrotum. En telja verður líkur á þeim verulega meiri nú en á síðasta áratug eða svo. Engin leið er að tímasetja atburði (gos, hlaup ofl.) að svo komnu máli en jarðvísindamenn munu auðvitað reyna slíkt eftir því sem gögn aflast, m.a. með nýjustu mæliaðferðum.

Vissulega getur atburðarásin endað í bili með því að kyrrð færist yfir Kötlu eftir einhver fleiri smáhlaup og minnkandi skjálftavirkni. Menn vona hið besta og kljást við það sem að höndum ber. Það hefur eldgosasagan kennt okkur; og það hefur þekking og viðbúnaður tryggt okkur eftir því sem unnt er í viðureign manns og ótaminnar náttúru.

Höfundurinn er jarðeðlisfræðingur.

ljósm. Kjartan Guðmundsson Séð til Kötlugossins 1918 tveimur til þremur dögum fyrir goslok.

Ljósm. Kjartan Guðmundsson. Gosmökkurinn 1918, tignarlegur að sjá frá brúnum ofan Víkur. Gjóskuna leggur í norðaustur. Hæð makkarins er a.m.k. 10 km.

Ljósm. Kjartan Guðmundsson Hin klassíska Kötlumynd ljósmyndarans Kjartans Guðmundssonar í Vík. Gosið 1918 var væntanlega meðalstórt í röð um 20 Kötlugosa á sögulegum tíma.

Ljósm. Kjartan Guðmundsson Ógnvænlegur gufu- og gjóskumökkur Kötlugoss 1918 í ljósaskiptum.

Ljósm. Kjartan Guðmundsson Horft yfir hluta af umbrota- og gossvæðinu í Mýrdalsjökli, 12. október 1919, rúmu ári eftir að Kötlugosinu lauk (sjónlína líklega í norðaustur).

Ljósm. Sigurður Stefnisson Eyjafjallajökull (1666 m). Fjallið er eldkeila og sést hér vel móta fyrir um 2,5 km breiðum toppgíg. Úr honum fellur Gígjökull til norðurs. Eldgosið 1821-1823 kom úr gossprungu vestan í háfjallinu, nálægt toppgígnum.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.