HLJÓMSVEITIN Suð lét það eftir sér að gefa út breiðskífu á dögunum, Hugsanavélina. Sveitina skipa bræður sem haldist hefur illa a trommuleikurum þar til þeir fundu loks einn sem hélst í sveitinni nógu lengi til að hægt væri að taka upp plötu.
Hugsanavélin suðar HLJÓMSVEITIN Suð lét það eftir sér að gefa út breiðskífu á dögunum, Hugsanavélina. Sveitina skipa bræður sem haldist hefur illa a trommuleikurum þar til þeir fundu loks einn sem hélst í sveitinni nógu lengi til að hægt væri að taka upp plötu. Suð varð til sem samkrull þeirra bræðra Kjartans og Helga Benediktssona fyrir þremur árum eða svo, en Kjartan segir að ýmsir trommuleikarar hafi lagt þeim félögum lið á þeim tíma, þar til fyrir ári að Magnús Magnússon kom til sögunnar og hefur verið fastur liðsmaður upp frá því. "Tíð trommuleikaraskipti hafa meðal annars orðið til þess að við höfum ekki gefið neitt út fram til þessa, en það er líka kostur að vissu leyti, því við höfum haft betri tíma til að þróast." Þeir Suðarar segjast hafa gert heldur lítið af því að spila opinberlega, en eytt þess meiri tíma í bílskúrnum að semja lög og æfa. Smám saman varð lagasafnið síðan svo mikið að vöxtum að ekki varð undan því komist að gefa eitthvað út og í október á síðasta ári brugðu þeir sér í hljóðver og byrjuðu á plötu. Í októberlotunni luku þeir félagar við tvö lög og síðan restina í júlí og út ágúst, en alls tóku þeir upp þrettán lög og völdu ellefu þau bestu á skífuna. "Það er ekkert sérstakt þema á plötunni," segja þeir, "þetta eru bara bestu lögin að okkar mati og síðan settum við plötuna saman eins og okkur fannst ganga best upp." Lögin eru á ýmsum aldri, en öll samin á kassagítara og útsetningar síðan unnar í sameiningu. "Við erum miklir popparar," segir Kjartan og hlær við, "og finnst því sem lögin verði að vera grípandi." "Við finnum það strax ef lög ganga ekki upp," heldur Magnús áfram, "og þá er þeim umsvifalaust hent, en reyndar tökum við líka upp æfingar og eigum til að taka lög sem við vorum búnir að leggja á hilluna og breyta þeim til að þau gangi upp." Eins og getið er hefur Suð gert lítið af því að spila, en þeir Kjartan og Magnús segjast hafa gaman af að spila, það sé þó hægara um að tala en í að komast. "Það verður líka lítið af spilamennsku á næstunni, því Helgi er úti að læra," segja þeir en bæta við að hann sé væntanlegur í desember og þá stefni þeir á eitthvert tónleikahald til að fylgja skífunni eftir. Suðliðar gefa plötuna út sjálfir og segjast hafa brætt það með sér lengi að gefa eitthvað út. "Það hefur blundað með okkur lengi að gefa út plötu og ekki eftir neinu að bíða," segir Kjartan og Magnús bætir við að þeir séu bráðánægðir með útkomuna, þá loks þeir létu verða af því. Hvort platan seljist fyrir kostnaði segja þeir ekki skipta svo miklu, öllu skipti að platan sé vel heppnuð og þeir sjálfir ánægðir. Morgunblaðið/Ásdís Ánægðir Tveir þriðjuhlutar Suðs, Kjartan Benediktsson og Magnús Magnússon. Árna Matthíasson