AUK umræðna um ýmis dægurmál er daðrað á irkinu, ráðgerð stefnumót, auglýstir munir til sölu og skipst á skólaritgerðum. Fjöldi þeirra sem tengdir eru irkinu á Íslandi í gegnum vefþjón Intís fer yfir 500 manns í einu.
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 991010 \: SLÖGG:: Hvað eru islenskir STOFNANDI:: TDGA \: \: Nýr samskiptamáti - Irkið og smáskilaboðin

Íslendingasagnastíll unglinganna Mikill fjöldi unglinga nýtir sér spjallrásir á Netinu, irkið. Í sumar varð sprenging í fjölgun textasendinga milli GSM-síma. Íslenskir unglingar hafa verið fljótir að tileinka sér nýja tækni og fundið leið fram hjá takmörkunum hennar með því að þróa nýtt ritmál. Stílnum svipar til Íslendingasagna, setningarnar kjarnyrtar og lítið um orðflúr. Kristín Sigurðardóttir kynnti sér hvað fer fram á irkinu, hvort nýja ritmálið hafi áhrif á málfar unglinga og hvað beri að varast. AUK umræðna um ýmis dægurmál er daðrað á irkinu, ráðgerð stefnumót, auglýstir munir til sölu og skipst á skólaritgerðum. Fjöldi þeirra sem tengdir eru irkinu á Íslandi í gegnum vefþjón Intís fer yfir 500 manns í einu. Flestir eru að irka upp úr klukkan sjö á kvöldin til tvö á nóttunni.

Jón Pétur Zimsen vann ásamt Skúla Kristjánssyni lokaverkefni í Kennaraháskólanum um málfar á irkinu síðastliðið vor. Hann segir þann hóp unglinga sem stunda irkið vera mjög breiðan, allt frá íþróttaiðkendum til tölvusérfræðinga. Þeir sem tengjast irkinu í gegnum íslenskan vefþjón tengjast í gegnum fyrirtækið Intís. Hægt er að fara inn í mismunandi rásir. Á rás sem nefnist #Iceland eru flestir á aldrinum 12­16 ára. Árni Arent, einn af gæslumönnum #Iceland-rásarinnar, segir að á rásinni sjálfri fari ekki fram mikið af samræðum heldur sé frekar verið að auglýsa eftir einhverjum til að eiga samræður við. Þá eru myndaðar rásir í kringum Iceland-rásina sem eru minni og sérhæfðari. Losnar um hömlur

Mörgum finnst sem það losni um ákveðnar hömlur þegar þeir spjalla við ókunnugt fólk í gegnum tölvu. Enginn þeirra sem eru á spjallrásinni veit meira um annan en fólk gefur upp. Þá sést hvorki hvernig fólk lítur út né hvernig rödd það hefur. Fólk getur því verið bólugrafið og stamað án þess að nokkur hinna á spjallrásinni viti af því. Sumum finnst líka að þeir geti látið ýmislegt flakka án þess þeir þurfi að taka afleiðingunum af því. Bjarni Rúnar Einarsson, forritari og fyrrverandi kerfisstjóri hjá Internet-þjónustu margmiðlunar, til þriggja ára, hefur irkað í níu ár og var um þriggja ára skeið kerfisstjóri hjá netþjónustu: "Sumir verða árásargjarnir og átta sig ekki alveg á því að þeir eiga samskipti við fólk en ekki tölvu og sleppa sér alveg. Það eru miklu meiri öfgar í allar áttir á irkinu, sérstaklega hjá þeim sem eru nýbyrjaðir að irka, en þegar fólk er aðeins búið að venjast þessu veit það að það kemst ekki upp með hvað sem er." Flestir irkarar vilja hafa einhverja hugmynd um við hvern þeir eru að spjalla. Því er ein af fyrstu spurningunum ASK, sem stendur fyrir aldur, staður og kyn. Bjarni heldur að flestir gefi réttar upplýsingar því fólk hafi sjaldnast ástæðu til að villa á sér heimildir. "Það er ekki hægt að skemmta sér lengi yfir því að þykjast vera einhver gervipersóna." Árni er ekki samþykkur þessu og telur að um helmingur unglinga gefi rangar upplýsingar um sig og þá sé mestmegnis verið að ljúga til um aldur og kyn. "Þetta er sýndarveröld þeirra," bætir hann við. Daður og ritgerðir

Dagny Stuedahl, fræðimaður í menningar- og upplýsingatæknideildum við Háskólann í Ósló, hefur rannsakað samskipti ungs fólks á Netinu. Hún segir að fólk sýni ákveðna hlið á sjálfu sér, þ.e. velji hvaða upplýsingar það gefi um sig og sýni oft aðrar hliðar en það gerir til dæmis í skólanum. "Þau eru leikstjórar lífs síns á Netinu. Að hluta til gerum við það sama í raunveruleikanum. Við erum okkur meðvitandi um það hvernig við lítum út, ákveðum hvað við segjum. Á Netinu hefur fólk fleiri möguleika til að leikstýra sjálfu sér en í raunveruleikanum." Jón Pétur segir að mikið sé daðrað á irkinu. Margir noti irkið til að mæla sér mót (utan netheima) við einhvern sem það ekki þekkir. Jón Pétur segir að ýmist sé verið að stofna til sambanda eða til einnar nætur kynna. Hann segir að fyrir helgarnar sé mikið um það að krakkar og unglingar auglýsi partí. "Ef krakkarnir eru búnir að drekka eitthvað eru þeir ekkert hræddir við að hittast eftir að hafa mælt sér mót við einhvern sem þeir þekkja bara í gegnum irkið." Ennfremur segist hann margoft hafa séð á irkinu auglýst eftir ritgerðum og ef einhver svaraði því gæti viðkomandi sent ritgerðina í gegnum irkið á netformi. "Þannig er viðkomandi kominn með ritgerð í tölvutæku formi og þá er ekkert annað en að breyta forsíðunni og prenta hana út." Jón hefur einnig spjallað á irkinu við einstaklinga sem sögðust vera komnir með safn ritgerða allt frá grunnskólastigi yfir á háskólastig og seldu ritgerðir. "Ég veit ekki hvort kennarar gera sér almennt grein fyrir þessum möguleika. Ég spyr mína nemendur út í ritgerðirnar þeirra til að vera viss um að þeir hafi sjálfir skrifað þær." Árni Arent segist vita til þess að hægt sé að nálgast á spjallrásunum skólaritgerðir sem aðrir hafi skrifað. Hann segist efast um að hægt sé að flokka ritgerðir undir ólöglegt efni. Það sé ekki ólöglegt að lesa ritgerðir annarra. Hann segir þó að að ekki sé gott að vita til þess að krakkar séu að prenta út ritgerðir frá öðrum til að skila til kennara, en bætir þó við að krakkarnir verði að ákveða sjálfir hvað þeir gera. Sölumennska og aðgangsorð

Jón Pétur segir að ýmislegt sé selt á irkinu, til dæmis GSM-símar, boðtæki og skellinöðrur. Þá sé talsvert um myndasendingar, til dæmis klámmyndir, og svo sé skipst á upplýsingum. Talsvert sé um að aðgangsorð inn á ýmsa vefi á Netinu sem hakkarar eru búnir að hakka upp séu látin ganga á milli. Oft séu þetta aðgangsorð inn á klámvefi. Jón Pétur segir að þetta gangi yfirleitt í nokkra klukkutíma, svo sjái umsjónarmaður vefjarins að óeðlilega mikill fjöldi manna sé inni á vefnum á sama aðgangsorðinu og breytir því. Þó að ekki sé leyfilegt að auglýsa muni til sölu segir Árni ómögulegt að fylgjast með öllu því sem fram fer á irkinu. En oft séu veittar áminningar vegna þessa. Árni segir krakka og unglinga fyrst og fremst fara á irkið til að kynnast öðrum og mæla sér mót og til að tala saman. Mörgum finnist mjög gaman að fíflast í öðrum. Hefðbundin kynhlutverk

Dagny Stuedahl líkir Netinu við myrkraherbergi. Hún segir það bæði vera ógnvekjandi en einnig herbergi möguleikanna og möguleikarnir eru margs konar. Líkaminn sé fjarverandi og fólk hafi frelsi til að gera ýmislegt. Þó segir hún að þegar allt komi til alls séu kynhlutverkin mjög hefðbundin. Stúlkurnar tali og upplifi og strákarnir framkvæmi. Hún bætir við að margir séu að gera tilraunir með að vera annars kyns en þeir eru í raun. En það sé í sjálfu sér ekki hættulegt því að ekki sé hægt að smitast, t.a.m. af eyðni, á Netinu. Hún segir að sumu leyti megi líkja kynlífi á Netinu við símaklám sem hafi verið stundað mjög lengi og að hið falda kynferði hafi alltaf heillað marga. Bjarni Rúnar Einarsson, forritari og fyrrverandi kerfisstjóri hjá netþjónustu Margmiðlunar, segir að þar sem kynlíf sé eitt helsta áhugamál fólks komi það fram á irkinu. Hann segir að fólk myndi upplifa það sama á skemmtistað ef það væri aðeins minna bælt. Þegar menn setjist niður fyrir framan skjáinn sé eins og það losni um einhverjar hömlur og þar sem unglingar séu sérstaklega bældir fái þeir mjög mikið út úr því að vera á irkinu og líða eins og enginn geti séð þá. "Það sér enginn þó þú sért með bólu og enginn heyrir að þú stamar. Fólk lætur því ýmislegt flakka sem það myndi annars ekki gera," bætir Bjarni við. Árni vildi taka fram að irkið geri mörgum gott, sértaklega fólki sem ekki á vini og er jafnvel lagt í einelti í skóla því að á irkinu skipti ekki máli hvernig maður líti út eða hvort maður eigi við líkamlega fötlun að stríða. Sjálfur segist hann hafa eignast góðan vin á irkinu sem er fatlaður. Árni segist ekki hafa vitað af fötluninni fyrir en hann hitti hann í eigin persónu. Bjarni Rúnar segir kosti irkisins heilmikla. Hann hefur notað irkið frá því hann var fjórtán ára eða í um 8­9 ár. Hann segist hafa verið mjög bældur unglingur en á irkinu hafi hann fengið mikla æfingu í mannlegum samskiptum og sú æfing hafi hjálpað honum að eignast vini. Annar kosturinn við irkið er hversu auðvelt sé að halda tengslum við vini sem eru staddir í öðru landi.

Samskiptareglur og hefðir

Félag íslenskra irkara sem hefur umsjón með #Iceland-rásinni hefur sett fram ákveðnar reglur fyrir notendur sem gæslumenn rásarinnar framfylgja. Megininntak reglnanna er að sýna öðrum kurteisi og sóa ekki tíma, peningum og skjáplássi fyrir öðrum og auglýsa ekki. Dagny Stuedahl segir samskiptareglur irkaranna byggja á mjög gamalli samskiptahefð. Stuedahl segir að þó að Netið bjóði fólki upp á ýmsa nýja möguleika eins og til dæmis að gera tilraunir með ímynd sína, sýna af sér aðra mynd er í raunveruleikanum og jafnvel segjast vera annars kyns, þá séu netsamskiptin byggð á gamalli hefð og gömlum siðareglum, reglum um það hvernig við eigum að hafa samskipti og reglum til að tryggja að fólk skilji hvað annað. Stuedahl segir að á Netinu gangi menn fram án hiks og samskiptin eigi að vera auðveld. Til þess að þetta sé hægt þarf að hafa reglur. Þessi samskipti kosta líka peninga, það þarf að hugsa um símreikninginn. "Sá sem er bara að fíflast á Netinu sóar peningum og allir hinir þurfa að eyða tíma í að lesa bullið frá honum." Þá segir Stuedahl að samskipti á spjallrásunum séu ekki ósvipuð gamalli frásagnarhefð þar sem sögumaður breytir áherslum eftir því hverjum hann segir söguna. Hann verður að gera sig skiljanlegan og lesa í viðtakendahópinn. Samfélagið í hverjum hópi á Netinu viðheldur reglunum og refsar þeim sem brýtur þær. Þeim sem brýtur reglurnar er sparkað út af rásinni, bætir Stuedahl við. Hún telur að á irkinu skrifi fólk yfirleitt það fyrsta sem kemur upp í hugann, dálítið eins og götumál. Stuedahl segir að þetta minni sig á leikhússpuna, því flæðið sé oft mjög hratt. En fréttahóparnir á Netinu eru meira eins og auglýsingatafla. Þú varpar skoðun þinni fram og færð viðbrögð. Stuedahl segir málfarið í fréttahópunum allt annars eðlis en á irkinu. Fólk gefi sér yfirleitt lengri tíma til að koma skoðunum sínum í orð. Að verða vinsæll og þekktur

Þeir sem eru hraðskreiðir á lyklaborðinu, fljótir að hugsa og hafa hnyttin tilsvör á reiðum höndum, "slá í gegn" á irkinu. Sumir gera ýmislegt til að vekja á sér athygli til dæmis með því að nota stóra stafi eða liti. Þá er líka öruggt að tekið sé eftir því ef maður brýtur reglurnar og er sparkað út af rásinni. Við það birtast skilaboð á skjánum um að Jónu irkara hafi verið sparkað út. Jón Pétur Zimsen segir þann hóp unglinga sem stunda irkið vera mjög breiðan, allt frá íþróttaiðkendum til tölvusérfræðinga. Á sunnudögum geta verið allt að 400 manns inni á sömu rásinni og til að vera gjaldgengur í umræðum þar sem fimmtíu manns tala í einu gildir að vera fljótur að hugsa og vélrita, segir Jón Pétur. "Ef það kemur spurning á irkinu þýðir ekkert að fletta svarinu upp í bók því að eftir 2­3 mínútur snýst umræðan um annað." Jón Pétur segir að þeir krakkar sem draga að sér mesta athygli á irkinu séu þeir sem eru fljótir að svara fyrir sig og tekst oft að gera grín að öðrum. "Eru fljótir að hugsa og góðir húmoristar. Það er ekki tekið mark á þeim sem eru með lélegar svívirðingar út í loftið. Það virkar vel ef einhver kemur inn og er mjög skemmtilegur og með hnyttin tilsvör." Aðspurður segist Jón Pétur þess fullviss að einhverjir krakkar í þessum aldurshópi séu orðnir þekktir á irkinu. Þegar fólk tengist inn á spjallrásirnar velur það sér gælunafn. Hann segir að þeir þekktustu séu oft eldri strákar sem stjórna rásunum og eru að vinna sem kerfisfræðingar. Þá telur Jón Pétur að það sé venjan með irkarana að þeir viti ekki hverjir hinir irkararnir eru í raunveruleikanum því hægt sé að fara um irkið með leynd. "Þegar maður kemur inn á irkið þarf að slá inn netfangið sitt og nafn en það ljúga nánast allir til um það, nema þeir sem eru rétt að byrja. Þannig að þú veist ekkert hver hver er, nema hafa séð hann lengi og talað við hann á einkarás og þannig kynnist fólk oft og fer að veita hvert öðru upplýsingar. Annars veit enginn hver er hvað. Þú getur logið til um aldur og kyn og hvað sem er. Þú ert oft að leika einhverja ímyndaða persónu." Árni Arent, einn af gæslumönnum á Iceland-rásinni, segir að þeir sem stundi irkið og séu duglegir að spjalla við aðra hljóti athygli annarra. Hann segir krakkana á Iceland-rásinni aðallega þekkja nöfn gæslumannanna og svo vélmennanna sem sparka þeim út sem brjóta ákveðnar reglur. Vísbendingar í gælunöfnum

Dagny Stuedahl hefur rannsakað samskipti ungs fólks á Netinu. Hún segir að þó að það fólk sem hún hafi hitt fyrir á spjallrásunum hafi flest komið sér upp fleiri en einu gælunafni noti langflestir bara eitt nafn því að það skipti máli að verða þekktur. Hún segir gælunöfnin geta haft mikið að segja um ímyndina. Saga af ungum manni sýni þetta vel. Hann hafði komið sér upp ákveðnu gælunafni sem hann notaði á Netinu og var orðinn þekktur af ákveðnum hópi irkara. Einn dag uppgötvar hann að annar er búinn að taka upp gælunafnið hans. Við þetta missti hann kennimark sitt og vildi ekki fara inn á Netið fyrr en hann var búinn að finna sér nýtt. Það tók hann 2­3 mánuði. Þessi strákur var vanur að stunda Netið mjög mikið en hann notaði það ekki fyrr en hann hafði fundið sér nýtt nafn. Stuedahl segir grundvallaratriði til að öðlast vinsældir á spjallrásunum sé að vera fljótur að vélrita. Fólk þurfi að tjá sig á mjög skýran hátt svo allir skilji því ef maður sé ekki skilinn sé maður hunsaður. Þá þarf maður að vera fyndinn, frjór og áhugaverður. Stuedahl segir að það gildi alveg það sama á Netinu og utan þess, að fólk sé misjafnlega áberandi. Ef maður vill að það sé tekið eftir manni er nauðsynlegt að kynna sig fyrir öðrum.