FYRIR þá sem ekki hafa irkað kann irkið að virðast talsvert torskilið. En hvað er þetta irk, hvað þarf til að irka og hvaða reglur eru irkurum settar? Irkið er dregið af skammstöfuninni IRC (Internet Relay Chat) og höfundur upphaflegu útgáfu þess árið 1988 er Finninn Jarkko Oikarinen. Irkið er notað í rúmlega sextíu ríkjum í heiminum.
Irkið FYRIR þá sem ekki hafa irkað kann irkið að virðast talsvert torskilið. En hvað er þetta irk, hvað þarf til að irka og hvaða reglur eru irkurum settar? Irkið er dregið af skammstöfuninni IRC (Internet Relay Chat) og höfundur upphaflegu útgáfu þess árið 1988 er Finninn Jarkko Oikarinen. Irkið er notað í rúmlega sextíu ríkjum í heiminum. Bjarni Rúnar Einarsson, forritari og fyrrverandi kerfisstjóri hjá netþjónustu Margmiðlunar, segir að gróflega megi þýða þetta sem keðjutengt netspjallkerfi. Irkið sé í raun safn margra IRC- þjóna (tölva) sem tengjast saman og láta ganga sín á milli skilaboðin sem fólk sendir hvert öðru. Með því að tengja sig við IRC-þjóninn á Íslandi (irc.isnet.is) sé verið að tengja sig við stórt net slíkra þjóna sem allir vinna saman til að gera fólki kleift að spjalla við annað fólk víðsvegar í heiminum. Þá segir Bjarni að hægt sé að tengja sig inn á önnur IRC-net og það sé gert með því að nota annan IRC-þjón en þann íslenska. Stærst hinna netanna eru EFnet í Bandaríkjunum og undernet. Að sækja forrit

Til að komast inn á irkið þarf í fyrsta lagi að hafa aðgang að tölvu með nettengingu. Því næst þarf að sækja sér sérstakt forrit á vefnum. PC-notendur ná sér í forritið á vefnum http://www.mirc.com en Macintosh-notendur http: //www.ircle.com. Til að komast inn á íslenska irkið þarf að skrá nafn sitt og netfang og velja sér gælunafn. Svo er valin einhver af spjallrásum Internets á Íslandi hf. (INTIS), www.isnet.is, t.d. spjallrásin #Iceland eða #Iceland20+. Með spjallrásunum fylgjast bæði sérstakir gæslumenn (svokallaðir oppar á irkinu) og vélmenni (robotar) eða sérstök forrit. Hlutverk gæslumanna er mismunandi eftir rásum og getur farið eftir duttlungum þeirra sjálfra því hver sem er getur stofnað nýja spjallrás og við það öðlast hann stjórnenda- eða gæslumannsréttindi. Það er svo hans hlutverk að velja sér meðstjórnendur. Á rásinni #Iceland sem er vinsælasta spjallrásin hér á landi eru nokkrir sem fara með hlutverk gæslumanna. Þeir stjórna rásinni samkvæmt reglum Félags íslenskra irkara. Megininntak þeirra reglna er að lágmarkskurteisi gildi í samskiptum, að fólk sé ekki að svívirða hvert annað, ekki lagt í einelti og að koma í veg fyrir auglýsingar og sölu muna. Vélmennin henda notendum sjálfkrafa út af rásinni ef nákvæmlega eins skilaboð eru endurtekið send út á spjallrásina, ef of oft er skipt um gælunafn á of skömmum tíma og ef of mikill texti er sleginn inn í einu. Hlutverk gæslumanna er jafnframt að taka við kvörtunum frá notendum og veita fólki áminningar. Þá koma þeir gjarnan með innlegg inn í samræðurnar til þess að reyna að beina þeim inn á ákveðnar brautir eða skapa umræður um tiltekið efni. Á #Iceland-rásinni eru aðallega yngstu irkararnir, á aldrinum 12­16 ára. Á rásinni er fólk aðallega að sjá hverjir eru að irka og ná sambandi við fólk. Síðan er iðullega stofnuð önnur rás sem færri safnast inn á og stundum fer fram spjall milli einungis tveggja einstaklinga. Sumir eru á mörgum spjallrásum í einu. #Iceland-rásin er því nokkurs konar félagsmiðstöð eða kaffihús og svo sest fólk saman niður við borð í minni hópum og ræðir saman.