Fréttir af nauðgunarmálum sem rakin voru til kynna fólks á spjallrásum á Netinu, orðrómur um sölu þýfis og fíkniefna vekja ugg hjá mörgum. Lögreglunni í Reykjavík eru farnar að berast kærur frá unglingum sem urðu fyrir áreitni eða einelti frá öðrum unglingum í gegnum SMS-skilaboð GSM-símanna.
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 991010 \: SLÖGG:: Öyggi og heiðarleiki STOFNANDI:: TDGA \: \: Öryggi og heiðarleiki á Netinu Fréttir af nauðgunarmálum sem rakin voru til kynna fólks á spjallrásum á Netinu, orðrómur um sölu þýfis og fíkniefna vekja ugg hjá mörgum. Lögreglunni í Reykjavík eru farnar að berast kærur frá unglingum sem urðu fyrir áreitni eða einelti frá öðrum unglingum í gegnum SMS-skilaboð GSM-símanna. Í EVRÓPU og Bandaríkjunum hafa verið framin höfundarréttarbrot á Netinu þar sem afbrotamennirnir eru unglingar. Einnig standa ýmis fyrirtæki frammi fyrir þeim vanda að starfsfólk þess greinir ekki á milli hvenær það skrifar tölvupóst í nafni fyrirtækisins og hvenær persónulegan tölvupóst. Margir þeirra sem eru á spjallrásunum finna til mikils frelsis og tjá sig mjög óþvingað og stundum með miður skemmtilegum athugasemdum um aðra. Þetta á einna helst við um þá sem eru nýbyrjaðir að nota rásirnar. Gæslumenn með rásunum reyna að koma í veg fyrir að fólk sé að lítilsvirða hvað annað á irkinu. Ef einhver lætur sér ekki segjast eftir nokkrar aðvaranir frá gæslumanni er haft samband við fyrirtækið eða netþjónustuna þar sem hann hefur netaðgang.

Ólátabelgjum úthýst

Árni Arent, einn af gæslumönnum #Iceland-rásarinnar á irkinu, segir að nokkrum sinnum hafi það komið fyrir að loka hafi þurft fyrir netaðgang ákveðinna notenda vegna óláta á irkinu. Þó svo að margir af irkurunum gefi upp rangt nafn og netfang þegar þeir tengja sig inn á irkið er hægt að rekja slóð hvers og eins í gegnum netþjónustufyrirtækið sem veitir viðkomandi einstaklingi netaðgang. Bjarni Rúnar Einarsson, forritari og fyrrverandi kerfisstjóri hjá netþjónustu Margmiðlunar til þriggja ára, sagði að í sumum tilvikum hefðu rifrildi á irkinu þær afleiðingar að annar aðilinn reyndi að brjótast inn á net netþjónustu "óvinarins" eða valda einhverjum usla þar. Hann segir að sá sem rífst við einhvern á irkinu finni sjaldnast sjálfur fyrir afleiðingunum af því heldur netþjónustufyrirtækið sem viðkomandi hefur netaðgang hjá. Bjarni segir slíkar árásir vera helstu rökin fyrir því að hótað sé að loka fyrir netaðgang þeirra sem eru með leiðindi á irkinu. Bjarni segir að þeir sem sífellt eru leiðinlegir við aðra í raunveruleikanum séu ekkert betri í netheimum. "Það eru alltaf einhverjir leiðinlegir og þeir þrífast á irkinu af því að það eru fáir sem kunna að stöðva þá og henda þeim út og oft er erfitt að gera það því að tæknin er mjög frumstæð." Bjarni segist hafa heyrt sögur af fólki sem hafi verið að rífast á irkinu og svo hafi rifrildið þróast í slagsmál á skólalóðinni. Hann hikar þó við að kenna irkinu um slagsmálin og segir að þeir sem um ræðir myndu áreiðanlega finna sér einhverja leið til að rífast og slást, hvort sem irkið væri til eða ekki.

Þá bendir Bjarni á að fjarlægðir skipti miklu máli. Erlendis eru yfirleitt meiri fjarlægðir en hér á milli þeirra sem eru að ræða saman á irkinu og ef tvær manneskjur ákveða að hittast í eigin persónu séu þær oftast nær búnar að kynnast vel áður en til þess kemur, þ.e. spjalla mikið á irkinu og skiptast á upplýsingum hvor um aðra. En vegna nálægðarinnar á Íslandi eigi fólk þess oft kost að hittast án mikillar fyrirhafnar í eigin persónu. Það sé því ekki endilega búið að afla sér mikilla upplýsinga um hvort annað eða orðnir góðir vinir í gegnum Netið þegar það hittist í raunveruleikanum eins og væri líklegra ef það væri mikil fyrirhöfn að hittast.

Símanúmer og stefnumót

Bjarna finnst yfirleitt óhætt að gefa einhverjum símanúmerið sitt eða mæla sér mót á fjölmennu kaffihúsi í gegnum irkið. "Menn virðast af einhverjum ástæðum mjög hræddir við margt á Netinu sem þeir eru ekki hræddir við dagsdaglega. Til dæmis allt þetta fár yfir því að fólk gefi upp kreditkortanúmer sitt þegar það verslar í gegnum Netið. En svo fer það út í sjoppu og borgar 200 krónur með kortinu sínu og kreditkortanúmerið stendur á hvíta miðanum sem verður eftir í sjoppunni." Þá segir Bjarni að Netið sé ekki miklu óöruggara en umhverfið en af því að fólk þekki það minna þá viti það kannski síður hvernig það á að bregðast við ef eitthvað bregður út af. Helsti vandinn sé sá að fólk gleymi stundum að vera varkárt í netsamskiptum, gefi of miklar upplýsingar um sjálft sig eða mæli sér mót við einhvern sem það veit ekkert um. Jón Pétur Zimsen vann lokaritgerð í Kennaraháskólanum um málfar á irkinu. Hann segist oft hafa orðið vitni að því að fólk hældi fíkniefnum á irkinu eða spyrði um þau. Hann segir að hægt sé að svara fólki með því að senda skilaboð til fyrirspyrjanda án þess að aðrir á rásinni sjái þau eða sjái að verið sé að senda einkaskilaboð. Þá sjá hvorki umsjónarmenn rásarinnar að verið sé að senda slík skilaboð né netþjónusta. Jón Pétur segist þó efins um að þetta sé leið sem fíkniefnasalar myndu nota til að afla nýrra viðskiptavina því að fíkniefnasalinn veit ekkert við hvern hann er að spjalla. Tölvuþrjótar

Dagny Stuedahl talar um tvo hópa tölvuþrjóta, annars vegar þá sem hafa dreifingu upplýsinga að markmiðið sínu (hakkarar) og hins vegar þá sem ráðist á hugbúnaðarkerfi (krakkarar). Hún segir að markmið hakkarasamfélagsins sé ekki að stunda glæpi heldur vinna að því að allir hafi aðgang að upplýsingum. Þeir líti á sig sem Hróa hetti tölvutækninnar. Tölvuþrjótar búa yfir sérfræðikunnáttu segir Stuedahl, sem er er bæði hægt að nota til góðs og ills. Þá segir hún hakkara vilja aðgreina sig frá þeim sem eru að brjóta sér leið inn í hugbúnaðarkerfi til að skemma. Hakkarar segist ekki vera að eyðileggja neitt heldur séu þeir að brjóta sér leið inn í hugbúnaðarkerfi til að þróa hluti áfram. Brot gegn höfundarrétti

Í Evrópu og Bandaríkjunum hefur talsvert komið upp af kærum vegna ólöglegrar dreifingar efnis á Netinu þar sem brotinn er höfundarréttur. Í mörgum tilvikum er um að ræða unglinga. Gunnar Thoroddssen, lögfræðingur, segir að oft sé um það að ræða að hugverk annarra séu beinlínis afrituð og þeim dreift undir öðru höfundarnafni. Gunnar segir að alls kyns efni sé dreift á Netinu sem menn hafi ekki leyfi til að dreifa. Þetta geti verið texti, hugbúnaður, myndir, tónlist og fleira. Gunnar tekur sem dæmi að nýlega birti ónefndur fréttavefur breytta útgáfu af merki fyrirtækisins OZ.COM. Hann segir hafa færst í vöxt að mál, þar sem grunur leikur á höfundarréttarbroti á Netinu, séu sótt fyrir dómstólum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Hann segir lagarammann mjög svipaðan að þessu leyti bæði á Íslandi og annars staðar í Evrópu, svo og í Bandaríkjunum. Stuedahl telur unglinga sem brjóta af sér á þennan hátt ekki gera sér grein fyrir því að þeir séu að brjóta lög. Þeir séu þeirrar trúar að í netheimum séu engar takmarkanir og eigi því oft á tíðum erfitt með að skilja að það eru reglur í takmarkalausa heiminum. Stuedahl segir að lögreglumaður hafi sagt henni frá vanda sínum við að kenna unglingum muninn á því að endurgera skjal á harða disknum í einstaklingstölvu sinni og því að endurgera skjal inni á vef eða tölvukerfi fyrirtækis. Stuedahl segir að einn hluti vandans sé áreiðanlega sá að hvort tveggja líti alveg eins út á skjánum. Af þessum sökum nái margir ekki áttum í netheiminum. Hún segir að það þurfi að koma inn í hugbúnaðarkerfi sjáanlegum mun á skjánum eftir því um hvers konar skjal er að ræða.

Þá tekur Stuedahl sem dæmi vanda sem stjórnendur olíufélags í Noregi standa frammi fyrir og segir hann vera svipaðs eðlis. Starfsfólk olíufélagsins á erfitt með að aðskilja tölvupóst fyrirtækisins frá sínum eigin tölvupósti. Það virðist ekki gera sér fullkomlega grein fyrir því að tölvupóstur sem skrifaður er í nafni fyrirtækisins verði að vera með formlegu málsniði líkt og gert er með venjuleg bréf. En það sé algengt þegar starfsfólkið skrifi tölvupóst fyrir hönd fyrirtækisins að þá verði útkoman eitthvað á þessa leið. "Hæ, Anna. Hvað segir þú? Hvernig var helgin hjá þér? Heyrðu, meðan ég man, áttu sextíu milljónir handa mér?" Stuedahl segir fólk eiga erfitt með að greina á milli annars vegar sviðs hins staðbundna og alheimsins og hins vegar milli einkasviðs og opinbers. Hún telur meginvandann liggja í því hvernig þetta lítur út á skjánum. Tölvupósturinn lítur alveg eins út á skjánum hvort sem hann er einkabréf eða fyrir hönd fyrirtækisins. Kynferðisbrot og rógburður

Háttsettur maður sem vann fyrir eitt af stærstu netfyrirtækjunum í Bandaríkjunu, Infoseek, var nýlega handtekinn fyrir að ferðast yfir fylkismörkin með það að markmiðið að hafa kynmök við stúlku undir lögaldri sem hann hafði kynnst á spjallrás á Netinu. Stúlkan, sem sagðist vera þrettán ára, reyndist lögreglumaður sem hafði fylgst með spjallrásum. Svipuð mál hafa komið upp á Íslandi en lögreglan í Reykjavík hefur haft til rannsóknar nokkur kærumál sem varða kynferðisbrot og nauðganir gegn 14­18 ára stúlkum, sem rekja má beinlínis til samskipta þeirra við eldri karlmenn sem hafa byrjað á spjallrásum á Netinu. Ekki er langt síðan lögreglunni í Reykjavík fóru að berast kvartanir um rógburð og sögusagnir sem ganga á irkinu og er dreift um Netið. Björgvin Björgvinsson lögreglufulltrúi segir lagaumhverfið ekki vera orðið nógu markvisst svo hægt sé að taka á þessu. Hann óttast að málum af þessu tagi eigi eftir að fjölga það mikið að erfitt verði að eiga við þau. Björgvin segir að í mörgum tilvikum sé um að ræða unglinga á aldrinum 13­15 ára og þeir séu ekki nógu þroskaðir til að átta sig á að rógburður er alvarlegt mál. Hann segir löggjafann hafa tilhneigingu til að vera mildur vegna þess að krakkarnir átti sig ekki á þessu. Björgvin segir ennfremur að lögreglunni hafi borist kvartanir af svipuðu tagi vegna SMS-skilaboðanna í GSM-símunum. Hann segir að ýmist sé um að ræða skilaboð sem særi blygðunarkennd fólks eða þá hótanir. Skilaboðin eru stundum "þú ert fífl" eða eitthvað álíka. Þá séu þau jafnvel að hóta því að viðkomandi verði komið fyrir kattarnef af því að hann hafi gert eitthvað. Sumar kvartanir vegna þess að blygðunarkennd fólks hefur verið særð með klámfengnum texta eða myndum. Björgvin segir að löggjafinn hafi ekki tekið á því hvort það sé eitt og hið sama að skrifa hótun í tæki eða hóta berum orðum. Hvað ber að varast? Það hefur talsvert aukist í Evrópu og Bandaríkjunum að þau mál þar sem grunur leikur á höfundarréttarbroti á Netinu séu sótt fyrir dómstólum. Í mörgum tilvikum er um að ræða unglinga sem virðast ekki gera sér grein fyrir að þeir hafi brotið höfundarrétt. Gunnar Thoroddsen lögfræðingur segir að hafa verði í huga að á Netinu gilda almennt sömu reglur og annars staðar um einkarétt höfundar til birtingar og dreifingar á hugverkum sem hann hefur sjálfur skapað. Því verði yfirleitt að gera ráð fyrir því að það þurfi sérstakt leyfi höfundar til þess að taka efni af vefnum og dreifa því svo upp á nýtt lítillega breyttu eða óbreyttu. Margir virðast gera ráð fyrir því að höfundar efnis, t.d. tónlistar, texta, mynda eða hugbúnaðar, hafi með því að setja efnið á Netið afsalað sér öllum höfundarrétti. Það er hins vegar alrangt og gildir einu þótt c-merkið eða aðrar viðvaranir komi ekki fram á vefsíðunni. Bjarni Rúnar Einarsson á ráð handa þeim sem vilja forðast vandræði á irkinu. Hann segir að mestu skipti að sýna kurteisi og háttvísi. Þá séu ýmsar einfaldar varúðarráðstafanir mikilvægar eins og að gefa ekki upp símanúmer, heimilisfang eða jafnvel netfang án þess að hugsa sig vel um. Ef fólk vill losna við daður á irkinu ætti það að halda kynferði leyndu. Þá segir Bjarni að rétt sé að varast að keyra upp forrit sem maður fær sent í tölvupósti eða í gegnum irkið nema sendandanum sé fullkomlega treystandi. Bjarni segir að ef einhver verði fyrir ofsóknum eða áreitni á Netinu sé besta ráðið að safna eins miklum upplýsingum og tök eru á um viðkomandi einstakling og senda síðan kvörtun til kerfisstjóra netþjónustunnar og netþjónustu þess sem sá tengist sem áreitninni veldur. Bjarni segir að ef kerfisstjórar fái nokkuð nákvæma tímasetningu með upplýsingum um hvaðan aðilinn tengdist, þá séu miklar líkur á að hann finnist. Ef brotið er alvarlegt hefur fólk möguleika á því að fara með upplýsingarnar til lögreglu og leggja fram kæru. Lögreglan getur fengið aðgang að símtalaskráningu Landssímans og þá, segir Bjarni, er ljóst að viðkomandi aðili finnst, jafnvel þó hann hafi verið að misnota aðgang einhvers annars til þess að hryggja þig.