HELGA Sæunn Sveinbjörnsdóttir, verkefnisstjóri á hjúkrunarsviði hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, flytur fyrirlestur um "Þvagleka hjá konum 55 ára og eldri í Egilsstaðalæknishéraði" í málstofu í hjúkrunarfræði á vegum Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði mánudaginn 25. október klukkan 12.15 í stofu 6 á 1. hæð í Eirbergi, Eiríksgötu 34.

Fyrirlestur

um þvagleka hjá konum

HELGA Sæunn Sveinbjörnsdóttir, verkefnisstjóri á hjúkrunarsviði hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, flytur fyrirlestur um "Þvagleka hjá konum 55 ára og eldri í Egilsstaðalæknishéraði" í málstofu í hjúkrunarfræði á vegum Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði mánudaginn 25. október klukkan 12.15 í stofu 6 á 1. hæð í Eirbergi, Eiríksgötu 34.

Þvagleki er algengt vandamál á meðal kvenna og getur valdið þeim andlegum, líkamlegum, félagslegum og fjárhagslegum vandamálum, segir í fréttatilkynningu. Konur sem þjást af þvagleka reyna frekar að hjálpa sér sjálfar á ýmsan hátt og oft með lélegum árangri en að leita sér aðstoðar hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Í þessari rannsókn var tíðni þvagleka könnuð á meðal kvenna á aldrinum 55 og eldri sem dvelja heima hjá sér í Egilsstaðalæknishéraði. Einnig voru kannaðar aðferðir sem þessar konur notuðu til þess að meðhöndla þvaglekann.

Niðurstöður þessarar könnunar benda til þess að nærri helmingur allra íslenskra kvenna sem eru 55 ára og eldri og dvelja ekki á stofnunum hafi einhvern þvagleka og einn þriðji þeirra hafi mikinn þvagleka. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að þær konur sem hafa þvagleka meðhöndli þvaglekann frekar sjálfar heldur en að leita sér hjálpar hjá heilbrigðisstarfsfólki.