FYRSTI reglulegi landsfundur Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs verður haldinn dagana 22.­24. október nk. á Fosshótel KEA, Akureyri. Fundurinn hefst með sérstakri setningarhátíð í Borgarbíói þar sem flutt verða ávörp og boðið upp á menningaratriði auk setningarræðu formanns flokksins. Setningarhátíðin er öllum opin. Að öðru leyti fer fundurinn fram á Fosshóteli KEA.
Fyrsti landsfundur VG

FYRSTI reglulegi landsfundur Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs verður haldinn dagana 22.­24. október nk. á Fosshótel KEA, Akureyri.

Fundurinn hefst með sérstakri setningarhátíð í Borgarbíói þar sem flutt verða ávörp og boðið upp á menningaratriði auk setningarræðu formanns flokksins. Setningarhátíðin er öllum opin. Að öðru leyti fer fundurinn fram á Fosshóteli KEA. Fundurinn er haldinn á Akureyri að þessu sinni í samræmi við þá stefnu sem flokksstjórn hefur mótað að halda landsfundi og aðra stærri atburði á vegum hreyfingarinnar til skiptis í ólíkum landshlutum, segir í fréttatilkynningu.

Sérstakur gestur fundarins verður Høgni Hoydal, þingmaður færeyska Þjóðveldisflokksins og ráðherra sjálfstæðismála í færeysku landsstjórninni. Mun hann flytja erindi og svara fyrirspurnum milli kl. 13.30 og 15 á laugardag á Hótel KEA. Aðgangur er öllum heimill.

Rúmlega eitthundrað fulltrúar hafa atkvæðisrétt á fundinum og er hann opinn öllum félögum í Vinstrihreyfingunni ­ grænu framboði, segir ennfremur.

Fyrir landsfundinum munu liggja fjölmörg verkefni svo sem lagabreytingar, bráðabirgðauppgjör vegna kosningabaráttunnar og rekstrar flokksins, afgreiðsla stjórnmálaályktunar og kosning nýrrar stjórnar.