ÍSLENSKI hugbúnaðarsjóðurinn hf. hefur keypt um 27% hlutafjár í Softa ehf. á 22,5 milljónir króna. Miðað við það er markaðsvirði félagsins rúmar 83 milljónir króna. Hluturinn er keyptur af Birni Inga Pálssyni, Guðmundi Þórðarsyni, Baldri Baldurssyni og Verkfræðistofunni Afl og orka, auk þess sem gefið var út nýtt hlutafé í félaginu. Við kaupin mun Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn hf.
Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn kaupir 27% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Softa Markaðsvirði Softa rúmar 83 milljónir

ÍSLENSKI hugbúnaðarsjóðurinn hf. hefur keypt um 27% hlutafjár í Softa ehf. á 22,5 milljónir króna. Miðað við það er markaðsvirði félagsins rúmar 83 milljónir króna. Hluturinn er keyptur af Birni Inga Pálssyni, Guðmundi Þórðarsyni, Baldri Baldurssyni og Verkfræðistofunni Afl og orka, auk þess sem gefið var út nýtt hlutafé í félaginu.

Við kaupin mun Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn hf. verða jafnstór hluthafi og Hitaveita Suðurnesja sem verið hefur stærsti hluthafi félagsins um nokkurt skeið. Softa ehf. hefur einkum beint kröftum sínum að gerð sérhæfðs hugbúnaðar á sviði viðhaldsstjórnunar fyrir stóriðjur, orkuver og orkuveitur, DMM.

Softa ehf. hóf almenna sölu á hugbúnaðinum á innanlandsmarkaði á síðasta ári og hefur náð mjög góðum árangri. Mörg af helstu stóriðju- og orkufyrirtækjum landsins eru nú viðskiptavinir félagsins. Þá hefur hugbúnaðurinn einnig vakið athygli sérfræðinga erlendis, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Áætlað að skila hagnaði í ár

Hjá Softa ehf. eru nú um 8 stöðugildi. Áætlað er að velta félagsins á þessu ári verði 40­50 milljónir króna og að reksturinn skili hagnaði. Félagið hefur þróað hugbúnaðinn í nánu samstarfi við Hitaveitu Suðurnesja undanfarin ár en nú mun áhersla vera lögð á sölu og markaðssetningu auk þess að þróa viðbætur við DMM og önnur sérhæfð kerfi fyrir þennan markað.

Að sögn Bjarna Kristjánssonar, framkvæmdastjóra Softa ehf., mun Íslenski hugbúnaðarsjóðurinn styrkja félagið aðallega hvað varðar markaðsþekkingu erlendis. Aftur á móti hafi ekki vantað fé inn í Softa heldur þekkingu og sambönd.