ÁÆTLAÐ er að hlutur Íslands í HIPC-átakinu sem felst í niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims verði um það bil 200 milljónir kr. en ákveðið hefur verið að tillögu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra að Ísland taki beinan þátt í fjármögnun verkefnisins. Með yfirlýsingu Íslendinga um beina þátttöku er orðið ljóst að öll Norðurlöndin standa að átakinu.
Skuldir þróunarríkja Ísland greiðir 200 milljónir

ÁÆTLAÐ er að hlutur Íslands í HIPC-átakinu sem felst í niðurfellingu skulda fátækustu ríkja heims verði um það bil 200 milljónir kr. en ákveðið hefur verið að tillögu Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra að Ísland taki beinan þátt í fjármögnun verkefnisins.

Með yfirlýsingu Íslendinga um beina þátttöku er orðið ljóst að öll Norðurlöndin standa að átakinu. Kom þetta fram á fundi þróunarmálaráðherra Norðurlanda sem haldinn var á Hótel Sögu í fyrradag.

Ráðherrarnir voru einhuga í stuðningi sínum við átakið og fögnuðu því að aðstoð við þróunarríki nyti meiri og vaxandi stuðnings. Að því er fram kemur í fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins voru þeir bjartsýnir á að þjóðum heims tækist að fjármagna HIPC- verkefnið og lögðu í því sambandi áherslu á það fordæmi sem Norðurlöndin gæfu með sinni þátttöku. Þau hafa öll afráðið að standa skil á sínum hlut og vel það.

Auka framlög til þróunar

Á fundinum kom einnig fram að Norðurlöndin ráðgera að auka framlög sín til þróunarmála á næstu árum, enda þótt þau hafi um árabil verið í fararbroddi á því sviði og lagt stærri skerf til aðstoðar við fátæk ríki en flest önnur iðnríki. Opinber framlög Íslendinga til þróunarmála munu þrefaldast á næstu fimm árum samkvæmt þeim áætlunum sem fyrir liggja.