Háþróaður körfubíll afhentur Slökkviliði Reykjavíkur Eykur öryggi og afköst NÝR körfubíll bættist í flota Slökkviliðs Reykjavíkur í gær, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri afhenti Hrólfi Jónssyni slökkviliðsstjóra háþróaðan körfubíl,
Háþróaður körfubíll afhentur Slökkviliði Reykjavíkur Eykur

öryggi

og afköst

NÝR körfubíll bættist í flota Slökkviliðs Reykjavíkur í gær, þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri afhenti Hrólfi Jónssyni slökkviliðsstjóra háþróaðan körfubíl, sem leysir af hólmi rúmlega þrítugan körfubíl í eigu slökkviliðsins.

Nýi körfubíllinn er búinn 320 hestafla vél og getur karfa hans borið allt að fjóra slökkviliðsmenn í einu, en stigann á bílnum er hægt að draga út um 32 metra.

Að sögn Hrólfs Jónssonar er ljóst að með tilkomu nýja bílsins sé um mikla framför að ræða í starfi Slökkviliðs Reykjavíkur enda muni afköst og öryggi við eldvarnastörf aukast til muna.

"Bíllinn er allur tölvustýrður og er mjög fljótlegt að reisa stiga hans í hæstu stöðu. Auk þess sem hann er mjög öflugt björgunartæki er bíllinn búinn vatnslögnum þannig að einnig er unnt að nota hann til slökkvistarfa," sagði Hrólfur.

Bíllinn er hannaður samkvæmt ströngustu gæða- og öryggiskröfum og kostar um 35 milljónir króna að meðtalinni þjálfun starfsmanna,

Morgunblaðið/Júlíus Opið hús verður hjá Slökkviliði Reykjavíkur á morgun milli kl. 14 og 17 og er þá bæði hægt að skoða nýja körfubílinn og annan búnað liðsins. Einnig verða veitingar í boði.