EVRÓPSK hlutabréf hríðféllu í verði í gær á sama tíma og bandarísk hlutabréf og dollar urðu fyrir barðinu á hagtölum, sem komu á óvart. Um leið gætti áhrifa ummæla Greenspans seðlabankastjóra um að hækkun á hlutabréfaverði í Bandarikjunum geti leitt til sölugleði á heimsmörkuðum.


Hagtölur og Greenspan veikja stöðu á mörkuðum



EVRÓPSK hlutabréf hríðféllu í verði í gær á sama tíma og bandarísk hlutabréf og dollar urðu fyrir barðinu á hagtölum, sem komu á óvart. Um leið gætti áhrifa ummæla Greenspans seðlabankastjóra um að hækkun á hlutabréfaverði í Bandarikjunum geti leitt til sölugleði á heimsmörkuðum. Þótt Greenspan legði áherzlu á að hann væri ekki að spá kauphallahruni ráðlagði hann bankastjórum að leggja meira fé til hliðar til að tryggja sig gegn mikilli niðursveiflu á mörkuðum. Hækkandi verð á skuldabréfum bætti þó stöðuna á hlutabréfamarkaði. Dow Jones lækkaði um 2% eða rúmlega 200 punkta á fyrsta hálftímanum eftir opnun þegar kunngert var að framleiðsluverðsvísitala (PPI) hefði hækkað um 1,1% í september miðað við 0,5% hækkun í ágúst. Búizt hafði verið við 0,5% hækkun. Verðbólgan er greinilega á leiðinni upp, ekki niður," sagði hagfræðingur við bankann í Montreal. Mikil hækkun á vindlinga-, bíla- og orkuverði í september olli því að hækkun heildsöluverðs hafði ekki verið meiri í níu ár og það vekur ugg um vaxtahækkun. Evran hækkaði í 1,0911 dollara og hafði ekki verið sterkari síðan 18. marz. Lokagengi FTSE 100 í London lækkaði um 2,2%, sem var mesta lækkun á einum degi síðan 10. ágúst. Vísitalan hefur nú lækkað fjóra viðskiptadaga í röð um alls 327 punkta. Miðlarar benda á að í næstu viku verði 12 ár liðin frá Svarta mánudegi".