VÁTRYGGJENDAHÓPURINN Ibex Motor Policies hjá Lloyd's hætti að tryggja bíla hér á landi um síðustu mánaðamót og við hefur tekið nýr vátryggjendahópur, Octavian Motor Policies. Tafir á frágangi á formsatriðum varðandi skiptin ollu því að lokað var fyrir sölu á bílatryggingum hjá FÍB-tryggingu í eina viku.

Octavian verður leiðandi

hópur vátryggjenda

Ibex hefur hætt tryggingastarfsemi hérlendis og í þeirra stað verður Octavian leiðandi hópur í bílatryggingum Alþjóðlegrar miðlunar, sem rekur FÍB-tryggingu. Guðjón Guðmundsson rekur aðdragandann að þessu máli.

VÁTRYGGJENDAHÓPURINN Ibex Motor Policies hjá Lloyd's hætti að tryggja bíla hér á landi um síðustu mánaðamót og við hefur tekið nýr vátryggjendahópur, Octavian Motor Policies. Tafir á frágangi á formsatriðum varðandi skiptin ollu því að lokað var fyrir sölu á bílatryggingum hjá FÍB-tryggingu í eina viku.

Halldór Sigurðsson, hjá Alþjóðlegri miðlun, sem rekur FÍB-tryggingu, gefur þær skýringar á brotthvarfi Ibex að hópurinn ætli að einbeita sér að heimamarkaði. Hann segir að tryggingar af þessu tagi geti skipt um hendur með skömmum fyrirvara. Gunnar Felixson, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, setur spurningamerki við ástæður sem gefnar eru upp fyrir því að Ibex hættir starfsemi hér á landi.

"Ibex tapaði miklum fjármunum hér"

Gunnar segir að látið hafi verið að því liggja að Ibex hætti á markaði hérlendis af þeirri ástæðu einni að hópurinn ætli að einbeita sér að heimamarkaði. Í ársskýrslu Ibex sl. vor er því hins vegar lýst yfir að vátryggjendahópurinn sé þvert á móti að færa út kvíarnar erlendis. "Það væri eðlilegt að spyrja hvers vegna Ibex er að hætta hérlendis ef starfsemi þeirra hefur skilað svo góðum árangri hér. Þessir menn hafa aldrei viðurkennt að það væri nokkuð að afkomunni í greininni. Við höfum linnulaust kvartað undanfarin tvö eða þrjú ár undan henni. Auðvitað liggur það fyrir að Ibex er að hætta hér vegna þess að þeir hafa verið að tapa miklu fjármagni. Er það trúverðugt að þeir hætti starfsemi hér ef vel hefur gengið?" segir Gunnar.

Hann segir að íslensku tryggingafélögin hafi orðið fyrir gegndarlausri tortryggni og ásökunum fyrir iðgjaldsákvarðanir sínar. Þau hafi verið borin röngum sökum. Nær væri að beina sjónum að þeim erlendu aðilum sem koma inn á markaðinn í þrjú ár, setji þessa mikilvægu tryggingargrein í uppnám og hlaupist undan merkjum þegar það henti þeim. Tryggingamiðstöðin ætli hins vegar að starfa áfram á íslenskum markaði.

"Það er alveg ljóst í mínum huga að bílatryggingar eru reknar með tapi. Ibex var að taka mun lægri iðgjöld en við. Hvernig fer það líka saman að þeir séu ánægðir með afkomuna en hætta engu að síður starfseminni?" segir Gunnar.

Ekki gott útlit fyrir 1998

Halldór Sigurðsson hjá Alþjóðlegri miðlun, sem rekur FÍB-tryggingu, segir að þegar Ibex hóf hér starfsemi í september 1996 hefðu þeir boðið iðgjöld sem þeir töldu að dygðu. Um áramótin voru ekki komnir nema um 900 bílar í tryggingu og ekki hefði þurft nema eitt stórt tjón til að þurrka út hagnað á því ári. 1997 hefði ekki verið tap á ökutækjatryggingum Ibex en um 1998 sé ekki hægt að fullyrða þar sem ekki sé búið að gera árið upp. Halldór segir hins vegar að útlitið sé ekki gott fyrir það ár.

Halldór segir að við Ibex taki hópur vátryggjenda og Lloyd's komi fram fyrir hönd þeirra. "Það er Lloyd's sem er skráður hér sem vátryggjandi og hefur alltaf verið frá upphafi. Lloyd's vildi koma fram fyrir hönd einstakra vátryggjendahópa þegar Ibex kom hér inn á markaðinn 1996 en andstaða hjá þáverandi Vátryggingaeftirliti var gegn því," segir Halldór. Hann segir að Vátryggingaeftirlitið hafi fengið því framgengt að það yrði Ibex Motor Policies at Lloyd's sem kæmi fram á eigendaskiptablöðum og á skráningarskírteinum bíla en hvorki Lloyd's né FÍB-trygging.

"Nú hefur Lloyd's farið formlega fram á það að þeir séu skráðir aðilar að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi eins og þeir eru skráðir annars staðar á evrópska efnahagssvæðinu að sambærilegum félögum og Fjármálaeftirlitið hefur gefið út þann úrskurð að þeim sé það heimilt," segir Halldór.

FÍB deilir á ABÍ og SÍT

Tafir á frágangi á formsatriðum vegna brotthvarfs Ibex hópsins og innkomu nýs vátryggjendahóps ollu því að lokað var fyrir sölu á bílatryggingum FÍB-tryggingar í eina viku. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, gagnrýnir framgöngu Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi, ABÍ, í þessu máli. Hann bendir á að ABÍ sé vistað hjá samkeppnisaðilum FÍB-tryggingar en víðast hvar annars staðar séu sambærileg félög vistuð hjá hálfopinberum stofnunum. Hann segir að í stjórn ABÍ sitji forsvarsmenn samkeppnisaðila FÍB-tryggingar. Runólfur segir jafnframt að Samband íslenskra tryggingafélaga, SÍT, hafi leynt og ljóst reynt að leggja stein í götu fyrirtækisins með því að taka að sér upplýsingagjöf til breskra vátryggjenda um íslenska bifreiðatryggingamarkaðinn og mála hann dekkri litum en ástæða sé til. Þetta hafi m.a. leitt til þess að Ibex hafi ákveðið að hætta starfsemi hérlendis.

Hann segir að út frá samkeppnislögum hafi hvorki SÍT né ABÍ með slíkar úttektir að gera enda séu það fyrirtæki á samkeppnismarkaði sem myndi þessi samtök. Runólfur segir að SÍT hafi notað ABÍ til þess að hafa áhrif á aðila á samkeppnismarkaði. Það hafi að sjálfsögðu töluvert vægi þegar Alþjóðlegar bifreiðatryggingar á Íslandi sendi frá sér úttekt af þessu tagi, "sem reyndar varð síðar grundvöllur að því að íslensku tryggingafélögin hækkuðu sín iðgjöld um 40­50% 1. júní sl. Þetta leiddi einnig til þess, eftir því sem við höfum fregnað, að Ibex ákvað að hætta starfsemi hérlendis og einbeita sér að sínum heimamarkaði," segir Runólfur.

Hann segir að hækkun iðgjalda hafi eðlilega valdið félaginu vonbrigðum en á móti komi að það hafi reynt að bjóða hér upp á valkost þar sem byðust ódýrari tryggingar. "Við vitum að samstarfsfélag FÍB er enn sem fyrr að bjóða upp á langódýrustu bílatryggingarnar á markaðnum. Segja má að það hafi tekist þrátt fyrir ótrúleg bolabrögð samkeppnisaðila á markaði og samtaka þeirra til þess að reyna að brjóta þessa samkeppni á bak aftur. Þessi saga öll hefur styrkt þær fullyrðingar sem hafa komið fram nýverið í ummælum forsætisráðherra og í leiðara Morgunblaðsins um þann fákeppnismarkað sem hér er og hve litla möguleika íslenskir neytendur eiga til þess að ná hagstæðasta vöruverði á hverjum tíma. Það er því mikill sigur fyrir félagið í viðleitni sinni við að halda niðri vátryggingaverði hér á landi að búið er að ná samningum við Lloyd's um vátryggingar félagsmanna," segir Runólfur.

Sams konar skipan ABÍ og erlendis

Sigmar Ármannsson, framkvæmdastjóri SÍT og ABÍ, segir að samkvæmt lögum sem gilda alstaðar á Evrópska efnahagssvæðinu er vátryggjendum á sviði lögmæltra ökutækjatrygginga skylt, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, að eiga aðild að sambærilegum samtökum og ABÍ. Hlutverk þeirra er að bera ábyrgð á akstri íslenskra ökutækja erlendis, gera upp tjón sem erlend ökutæki valda hérlendis og að gera upp tjón sem óþekkt og óvátryggð ökutæki valda hér í umferðinni. Hann segir að íslensku vátryggingafélögin hafi enga hagsmuni af því að halda erlendum vátryggjanda á íslenskum markaði utan við ABÍ.

Sigmar segir að stjórnir sams konar samtaka erlendis, t.d. á öllum Norðurlöndunum, séu skipaðar fulltrúum bifreiðatryggingafélaga eins og hátti til hér á landi. Jafnframt falli það undir verksvið ABÍ að halda utan um lög og reglur sem varða ökutækjatryggingar og hafa áhrif á starfsemi félagsins og þær skuldbindingar sem á félagið kunna að falla og upplýsa aðildarfélögin um slíkt. Þess háttar upplýsingum hafi verið komið á framfæri við alla vátryggjendur sem eiga aðild að ABÍ. "Við fengum sérfræðing til að skoða hugsanleg áhrif breytinga á skaðabótalögum á greiðslu skaðabóta. Að sjálfsögðu sendum við athugun þessa sérfræðings til Ibex rétt eins og til íslensku tryggingafélaganna. Ef við hefðum ekki gert það hefðum við bersýnilega verið að mismuna aðildarfélögum okkar," segir Sigmar.

Lloyd's veitt aðild að ABÍ

Sigmar segir að 30. september sl. hafi ABÍ fengið símbréf frá Lloyd's of London. Þar var tilkynnt að Ibex væri að hætta starfsemi á sviði ökutækjatrygginga á Íslandi. Jafnframt var því lýst yfir að annar vátryggjandi innan Lloyd's hygðist koma inn á markaðinn í stað Ibex en þar sem ekki væri ljóst hver sá vátryggjandi væri gæti Lloyd's ekki nefnt hann að svo stöddu. Jafnframt óskaði Lloyd's eftir aðild að ABÍ og bað um upplýsingar um slíka aðild.

"Af hálfu ABÍ var málinu strax komið í farveg. Fundur var haldinn í stjórn ABÍ þann sama dag og bréfið barst. Í bréfi til Lloyd's strax daginn eftir voru umbeðnar upplýsingar sendar," segir Sigmar.

Hann segir að Lloyd's sé ekki vátryggjandi heldur samtök vátryggjenda, eða svonefndra "syndicates", eins og tekið væri fram í gögnum Lloyd's. Þar með bæri Lloyd's ekki ábyrgð á starfsemi einstakra vátryggjenda. Þegar Ibex hóf starfsemi hér á landi 1996 hefði öllum aðilum, jafnt Ibex sem Vátryggingaeftirlitinu, forvera núverandi fjármálaeftirlits, þótt það hinn eðlilegi framgangsmáti að vátryggjandinn sjálfur, þ.e.a.s. Ibex, en ekki samtökin Lloyd's of London, yrði aðili að ABÍ. Sigmar segir að ABÍ hafi ráðgast við fjármálaeftirlitið um þetta mál og hafi Lloyd's verið greint frá því. Fjármálaráðuneytið tók málið upp við bresk stjórnvöld.

Sigmar segir að þrátt fyrir að umbeðin gögn hafi ekki borist fjármálaeftirlitinu frá Bretlandi hafi ABÍ í samráði við Fjármálaeftirlitið 6. október sl. enn tekið upp aðildarmál Lloyd's. Ákveðið var á fundi stjórnar ABÍ daginn eftir að veita Lloyd's aðild til bráðabirgða og var hún háð því að kröfum stjórnvalda og formskilyrðum íslenskra laga væri fullnægt en fyrir lá að þau atriði væru enn ekki frágengin. Jafnframt hafi Lloyd's verið beðið um að gefa út yfirlýsingu um ábyrgð sína eða hlutaðeigandi vátryggjenda á skuldbindingum sínum hér gagnvart ABÍ. Gefinn var vikufrestur til þessa. Með bréfi Lloyd's 12. október sl. greinir Lloyd's frá því að fyrir liggi hvaða vátryggjandi taki við af Ibex, þ.e.a.s. Octavian Motor Policies at Lloyd's.

"Þetta kom öllum mjög á óvart því fulltrúar Alþjóðlegrar miðlunar höfðu áður gefið út þá yfirlýsingu að við Ibex tæki DP Mann. Lloyd's bauðst jafnframt til að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu vegna þessarar starfsemi þar til línur skýrðust í þessu efni milli Lloyd's of London og Octavian Motor Policies. Síðastliðinn miðvikudag kom stjórn ABÍ saman og samþykkti þá lausn sem Lloyd's stakk upp á. Með bréfi frá ABÍ til Lloyd's hefur þetta fyrirkomulag verið formlega staðfest," segir Sigmar.

Halldór Sigurðsson hjá Alþjóðlegri miðlun segir að skýringuna á því að DP Mann hafi verið nefndur til sögunnar felast í eðli Lloyd's tryggingamarkaðarins. Þessi skipan hafi þó ekki verið tilkynnt Fjármálaeftirlitinu. "Það sem er undir Lloyd's er afar hreyfanlegt. Þótt DP Mann hafi ætlað að taka þátt í þessu fyrir þremur vikum þá hefur það breyst á þann veg að þeir hafa hætt við og aðrir tekið við í staðinn. Það er því ekki að ástæðulausu að Lloyd's vill vera í forsvari fyrir þessa hópa. Ég held ég hafi aðspurður látið það út úr mér að DP Mann væri líklegur til að vera með sem leiðandi "syndicate" en þeir eru nú hættir við það," segir Halldór.

Hann segir að það hafi verið ljóst fyrir þremur vikum að DP Mann yrði ekki með en Lloyd's, sem sækist eftir aðild að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum, hafi tilkynnt ABÍ sl. þriðjudag að leiðandi vátryggingahópur yrði Octavian.

Sigmar Ármannsson segir að ABÍ hafi lagt sig í framkróka við að leysa þetta mál með Fjármálaeftirlitinu. "Lloyd's hefur beinlínis þakkað þátt okkar í málinu og ég kannast hvorki við óánægju þaðan né heldur frá Ibex. Það er ekki við okkur að sakast ef í ljós kemur að þeir aðilar sem hafa átt að ganga frá lögformlegum kröfum hafa ekki gert það eða ekki með þeim hætti sem íslenskum stjórnvöldum er þóknanlegt. Það er ekki heldur við okkar að sakast hafi aðilar þjófstartað og fengið bágt fyrir það hjá íslenskum stjórnvöldum," segir Sigmar.

Innra skipulag Lloyd's óskýrt í hugum Íslendinga



Helgi Þórsson, hjá Fjármálaeftirlitinu, segir að eftirlitið geri engar athugasemdir við þátt ABÍ í þessu máli. Hann segir að í meginatriðum hafi málið gengið eðlilega fyrir sig. Þó hafi verið mikill flýtir viðhafður í málinu öllu sem geri það dálítið sérstakt.

"Það fylgir því óvissa að innra skipulag Lloyd's er ekki sérstaklega skýrt í huga Íslendinga. Annars vegar þurfti að breyta tilkynningum frá 1996 og þær eru á leiðinni og hins vegar þarf að kljást við spurningar um hver geti skuldbundið hvern. Beðið var um skýringar á þessu og þær eru einnig á leiðinni að því ég best fæ séð," segir Helgi.

Helgi segir algengara hjá Lloyd's en öðrum að stuðst sé við svokallaða samtryggingu sem virkar þannig að vátryggjendur dreifa á sig áhættunni í ákveðnum hlutföllum. Ibex hafi á hinn bóginn einn staðið að sinni ábyrgð. "Það sem skiptir mestu máli í þessu tilviki er að Lloyd's tekur að sér að vera í fyrirsvari fyrir þessa vátryggjendur, hverjir sem þeir eru, varðandi aðildina að Alþjóðlegum bifreiðatryggingum á Íslandi," segir Helgi.