Okkur vantar heillyndi og einlægni, segir Stefán Aðalsteinsson, í íslenska pólitík.
Samviska, sannfæring og siðferðisþrek óskast Umhverfismál Okkur vantar heillyndi og einlægni, segir Stefán Aðalsteinsson , í íslenska pólitík. PÓLITÍKIN er undarleg skepna.

Í sumar, þegar ég var á vappi í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal með undirskriftarlista gegn áformuðum byggingum og lóðaúthlutunum borgaryfirvalda í austurhluta dalsins, mætti ég meðal annarra fyrrverandi ráðherra og mikils metnum frammámanni í íslenskri pólitík. Hann brosti glaðlega, er ég spurði hann hvort hann vildi ljá þessu málefni lið og hristi höfuðið. Ég hélt áfram göngu minni. Þá sneri hann sér allt í einu við og kallaði til mín:

"Þótt ég vilji ekki skrifa nafnið mitt á listann er ég ykkur svo hjartanlega sammála," brosti ennþá glaðlegar en áður og kinkaði til mín kolli, fullur af bjartsýni og efasemdaleysi um eigin dómgreind.

Ég nam staðar og horfði á eftir honum stika öruggum skrefum á braut í góða veðrinu og hverfa síðan í mannþröngina.

"Bíddu nú við, kallinn minn," tautaði ég við sjálfan mig. "Hvað er að gerast? Hér er eitthvað sem rímar ekki. Er ég orðinn eitthvað skrýtinn?" Þessar hugsanir létu mig ekki í friði það sem eftir lifði dags.

Að vera sammála einhverju, en þora ekki að viðurkenna það. Þora samt að viðurkenna að þora ekki að standa við sannfæringu sína ... Er þetta eðlilegt?

Í hvaða farvegi eru hugsanir fólks, sem greiðir ekki eigin samvisku atkvæði sitt, þegar það fær tækifæri til þess? Er pólitíkinni um að kenna eða er þetta almennt íslenskt siðferði í dag? Hvenær breyttist þetta og hvers vegna?

Þetta litla atvik situr ennþá í mér og leiðir huga minn að öðru máli sem upp kom í síðustu viku. Þar endurspeglast enn "siðferðisþrek" stjórnmálamanna.

Einarður heimilislæknir og borgarfulltrúi í Reykjavík, Ólafur F Magnússon, berst fyrir umhverfismálum, þar á meðal gegn útrýmingu náttúruauðæfa landsins. Í síðustu viku lagði hann til við Borgarráð Reykjavíkur að það skoraði á Alþingi að fyrirhuguð virkjun á Austurlandi færi í umhverfismat, áður en til framkvæmda kæmi og náttúruperlunni Eyjabökkum yrði sökkt í eitt skipti fyrir öll. Hann gerði þetta í nafni samvisku sinnar og sannfæringar, þrátt fyrir að staðlaðar og útþynntar skoðanir flokkssystkina hans bönnuðu honum það í nafni landsmálapólitíkurinnar og Landsvirkjunar. Þetta framtak læknisins olli þvílíku fjaðrafoki í fjölmiðlum að engin auglýsing, hversu dýr sem hún er, hefði betur þjónað umhverfissinnum í þessu máli. Flestir vita hvernig tillaga Ólafs var afgreidd. Henni var vísað frá, þrátt fyrir að borgarstjóri í nafni meirihluta R-listans hefði áður lýst opinberlega yfir þeirri skoðun að Eyjabakkamálið ætti að fara í umhverfismat.

Það sem hins vegar stendur upp úr eftir atkvæðagreiðsluna um frávísun á tillögu Ólafs er, að flestir atkvæðagreiðendur lýstu yfir fullum stuðningi við umhverfismat, en vildu bara ekki greiða þeirri bjargföstu skoðun sinni, samvisku og sannfæringu atkvæði sitt, að eigin sögn vegna ótta við að landsbyggðarfólk yrði reitt. Nú sitja þeir uppi með þá skömm að hafa ekki þorað að greiða eigin skoðunum atkvæði sitt af ótta við að flokkspólitískur andstæðingur fengi fjöður í hattinn. Að sjálfsögðu datt engum í hug reiði landsbyggðarinnar við orðum borgarstjóra á brúnni nokkrum vikum fyrr.

Hvað um það. Ólafur á heiður skilið fyrir að hlusta á sína innri rödd og bera fram tillögu sína almenningi og komandi kynslóðum til heilla, en í trássi við boð og bönn þeirra afla sem ekki sjá skóginn fyrir trjám, rammvilltir í frumskógi formsatriðanna. Meinloka margra stjórnmálamanna, sem kjörnir eru til skamms tíma í senn til að þjóna hagsmunum fjöldans, er sú að láta sér detta í hug að þeir séu almáttugir og geti því ákvarðað framtíð alþjóðar þvert ofan í vilja almennings, sem kaus þá.

Okkur vantar heillyndi og einlægni í íslenska pólitík. Hvort tveggja hefur Ólafur.

Að lokum vil ég nota þetta tækifæri og þakka öllum þeim einstaklingum sem skrifuðu undir mótmæli við byggingaráform í Laugardal í sumar. Að gefnu tilefni vil ég taka það fram að 33.858 undirskriftir söfnuðust í þeirri baráttu. Þar af bárust 1.046 andmæli á Internetinu. Starfsfólki og forsvarsmönnum fyrirtækja og stofnana sem leyfðu undirskriftarlistunum að liggja frammi, svo og öllum þeim sem gengið hafa í hús eða safnað undirskriftum á vinnustöðum eða á annan hátt, vil ég þakka sérstaklega.

Lifið heil.

Höfundur er íbúi í Smáíbúðahverfi. Stefán Aðalsteinsson