HAFIN er í Bandaríkjunum framleiðsla á fjögurra sæta eins hreyfils flugvél úr trefjagleri og með innbyggðri neyðarfallhlíf fyrir sjálfa flugvélina. Ein af fyrstu vélunum af þessari gerð, SR20, hafði hér viðdvöl í gær í ferjuflugi austur um haf.
Ein af fyrstu flugvélunum frá Cirrus millilendir í Reykjavík Með innbyggða neyðarfallhlíf fyrir flugvélina

HAFIN er í Bandaríkjunum framleiðsla á fjögurra sæta eins hreyfils flugvél úr trefjagleri og með innbyggðri neyðarfallhlíf fyrir sjálfa flugvélina. Ein af fyrstu vélunum af þessari gerð, SR20, hafði hér viðdvöl í gær í ferjuflugi austur um haf. Að sögn Snorra Guðmundssonar, flugvélaverkfræðings hjá Cirrus Design Corporation, er þetta fyrsta flugvélin með innbyggðri neyðarfallhlíf sem hlýtur lofthæfisskírteini. Hann telur að hún sé tæknilega þróaðasta smáflugvélin í heiminum um þessar mundir.

Cirrus flugvélaframleiðandinn er í borginni Duluth í Minnesota- ríki. Fyrirtækið framleiddi og seldi vélar í hlutum sem kaupendurnir settu sjálfir saman en árið 1994 kynnti það þessa nýju vél, SR20, og fékk lofthæfisskírteini fyrir hana. Snorri hóf störf hjá fyrirtækinu árið eftir og stjórnaði tilraunaflugi vélarinnar. Nú annast hann allt sem snýr að flugeðlisfræði við hönnun og smíði flugvélarinnar.

Snorri segir að trefjaplastið hafi mikla yfirburði yfir ál við hönnun og smíði flugvélar. Auðveldara sé að móta skrokk og vængi vélarinnar út frá flugeðlisfræðilegum sjónarmiðum. Sjást þess merki á vélinni, flatarmál vængja er 30% minna en á öðrum vélum í sama stærðarflokki og skrokkurinn er hafður bjúglaga, líkist fiski, til að minnka viðnám. Mikil áhersla var lögð á öryggi við hönnun SR20, Snorri nefnir öruggari sæti og stjórnklefa sem tryggja á meira öryggi en í sambærilegum vélum. Þá er neyðarfallhlífin einstök. Ef óhapp verður getur fallhlífin borið flugvélina. Að vísu eyðileggst hún við lendingu en farþegar og flugmenn stíga heilir út úr flakinu og það er aðalatriðið eins og Snorri bendir á.

Þótt framleiðsla á SR20 sé nýlega hafin hafa 400 flugvélar verið pantaðar. Búið er að afhenda þrjár. Flugvélin sem kom við á Reykjavíkurflugvelli í gær er sú sjöunda og verður notuð við kynningar hjá sölumanni fyrirtækisins í Evrópu. Flugvélin kostar tæpa 180 þúsund bandaríkjadali eða liðlega tólf og hálfa milljón íslenskra króna og er sjálfstýring og staðsetningartæki innifalið í verðinu. Snorri segir að það sé talsvert lægra verð en á þeim flugvélum sem eru ríkjandi á markaðnum í dag.

Morgunblaðið/Þorkell Sjöunda Cirrus SR20 flugvélin millilenti á Reykjavíkurflugvelli í gær, á leið sinni til Evrópu þar sem hún verður notuð við kynningarstarf. Á innfelldu myndinni er tölvumynd af vélinni hangandi í fallhlíf.