ALLIR vita að sífellt ofát leiðir til offitu. En hvernig veit líkaminn hversu mikið hann þarf af mat? Rannsakendur hafa öðlast aukinn skilning á því hvað stjórnar hinu flókna eldsneytisgeymslu- og orkueyðslukerfi líkamans.

Leptín ræður miklu um

líkamsþyngd

Medical Tribune News Service

ALLIR vita að sífellt ofát leiðir til offitu. En hvernig veit líkaminn hversu mikið hann þarf af mat? Rannsakendur hafa öðlast aukinn skilning á því hvað stjórnar hinu flókna eldsneytisgeymslu- og orkueyðslukerfi líkamans. Vísindamennirnir vona að rannsóknir á sviði líffærafræði taugakerfisins og í erfðavísindum leiði til skilnings á því hvernig líkamsþyngd er stjórnað og hvað gerist þegar kerfið virkar ekki rétt, eins og þegar um offitu er að ræða.

Fyrir tæpum fimm árum uppgötvuðu vísindamenn, undir stjórn dr. Jeffrey Friedmans, hormónið leptín, sem myndast í fitufrumum og sendir merki til heilans um stjórnun á fæðuneyslu. Friedman greindi nýverið frá nýjustu uppgötvunum á sviði rannsókna á leptíni, m.a. áhrifum leptínmeðferðar á barn er þjáðist af meðfæddum leptínskorti, sem sagt var frá í The New England Journal of Medicine 16. september.

"Uppgötvun leptíns mun reynast eins mikilvæg og uppgötvun insúlíns og það mun verða mikilvægt í læknisfræði," sagði Joel Elmquist við Beth Israel-heilsugæslustöðina í Boston. Friedman og samstarfsmenn hans komust að því, að ef músum, sem skorti leptín, var skammtað það minnkaði magn líkamsfitu, fæðuneysla minnkaði og orkunýting jókst.

Magn leptíns í blóðinu er í hlutfalli við fitumagn. Því feitara sem dýrið er, því meira magn af leptíni framleiðir líkaminn. Hormónið ætti því að draga úr matarlyst. En í rannsóknunum kom í ljós, að mýs sem eru of feitar hafa mikið af leptíni. Friedman dró þá ályktun að í flestum offitutilfellum sé líkaminn ekki eins næmur fyrir leptíni og eðlilegt væri.

Dr. Stephen O'Rahilly og samstarfsmenn hans við Addenbrook- sjúkrahúsið í Cambridge í Bretlandi meðhöndluðu níu ára stúlku, sem þáðist af alvarlegri offitu, með leptíni. Hún var 94,4 kíló að þyngd við upphaf meðferðarinnar, en léttist strax á fyrstu tveim vikum meðferðarinnar, sem tók eitt ár, og léttist alls um 16,4 kg á meðan á meðferðinni stóð.

Meðfæddur leptínskortur er ákaflega sjaldgæfur, en niðurstöðurnar benda til þess að leptín ráði miklu um fitumagn og matarlyst fólks.

Presslink Frá sumarbúðum í Flórida. Búðirnar eru ætlaðar sykursjúkum börnum. Þar er leitast er við að kenna börnunum hvaða lífshætti þau þurfa að tileinka sér sjúkdómsins vegna.