Íslenskt mál Umsjónarmaður Gísli Jónsson 1027. þáttur Sælir verið þér, séra minn, sagði ég við biskupinn. Aftur á móti ansar hinn: Þér áttuð að kalla mig herra þinn. Orðin herra og séra eru merkileg.
Íslenskt mál

Umsjónarmaður Gísli Jónsson

1027. þáttur



Sælir verið þér, séra minn,

sagði ég við biskupinn.

Aftur á móti ansar hinn:

Þér áttuð að kalla mig herra þinn.



Orðin herra og séra eru merkileg. Þau ein karlkynsorða í máli okkar eru eins í öllum föllum, hvernig sem á því stendur.

Í vísunni hér að ofan kemur fram að biskupinn hefur talið sig vantitlaðan með orðinu séra . Tignarstigafræði, eða rankólógía, er erfið fræðigrein, og er enginn harðsnúnari í þess konar lærdómi en dr. med. Halldór Baldursson, svo að ég viti. En lítum á virðingarorðin. Séra , eða síra (um presta) á sér fjölda margar hliðstæður bæði hérlendis og erlendis. Verður það allt rakið til latínu, frá þeim tíma er aldurinn þótti virðingar- og vegsaukamerki. Senatus var öldungaráðið, senectus ellin sjálf.

Senex á latínu merkir öldungur, senior eldri. Og þetta lýsingarorð hefur orðið ærið frjósamt með þjóðunum. Stundum er þetta haft í tignarskyni, stundum er það bara um venjulegt fólk. Senior , seniora og seniorita í spönsku er herra, frú og ungfrú, e.t.v. án mjög mikillar tignar. Í frönsku rann þetta saman við eignarfornafnið og varð t.d. monsieur , sem bæði var venjulegt ávarp og nafnbót, eða skulum við segja heldri maður, monsér hjá okkur.

Þá var líka til gerðin signor komin úr ítölsku, virðulegur titill heldri manna.

En einna mestum frama náði þetta hjá Englendingum í orðinu Sir , og ekki þótti slakt meðal okkar að vera séra . En ekki má gleyma því að forn íslensk skáld notuðu orðið sinjórr um konung.

Við eigum ekkert kvenkynsorð sem samsvari séra , en jafnstætt orðinu herra , sem nú skal lítillega athuga, er að sjálfsögðu frú ("sú sem ræður").

Orðið herra tengist líka ellinni. Þetta er samstofna ævagömlu tökuorði harri = konungur, yfirboðari, en er náskylt lýsingarorðinu hárr = gráhærður. Að hárum þul/hlæ þú aldregi, segir í Hávamálum.

Mér leiddist og leiðist enn, þegar kona er nefnd séra . Mér finnst karlkynið einhvern veginn límt við orðið, sbr. í upphafi þessa þáttar séra minn . En ég verð víst að hopa með þetta, því að ég hef fyrir löngu talið sjálfsagt að kona væri ráð herra .

Konur eru auðvitað menn, og ber því konum, sem sitja á alþingi, að sjálfsögðu heitið alþingis maður . Konu í forsetastóli má svo ávarpa eftir smekk, herra, frú eða virðulegi forseti.



Áslákur austan kvað:



Græðgin í Guðmundi presti

gekk fram af manni og hesti,

hann át og hann át, ­

það var aldrei á lát, ­

jafnvel allt heila Veganesti.





"Sumt bendir til þess að íslenzk tunga muni ekki lifa af þá alþjóðlegu rósturtíma sem við nú lifum, annað sýnir eindregið að hún muni hrista af sér þrýstinginn, hina alþjóðlegu kröfu um einsmenningu, og halda velli og miðla samfélagi þjóðanna af því sem við höfum bezt gert og eigum væntanlega eftir að gera bezt. Margvíslegir misbrestir á notkun íslenzkrar tungu benda til hins fyrra en annað er stórlega uppörvandi og sumt með þeim hætti að fagna ber af alhug. Svo er guði fyrir að þakka að enn eru til íslenzk skáld og rithöfundar sem láta sér annt um tunguna, rækta hana og leita þeirra fagurfræðilegu leiða í skáldskap sínum sem hæfa henni og eru í senn sómi þeirra og hennar, til eru einnig þeir kennarar ­ og það er grundvallaratriði ­ sem láta sér annt um íslenzkuna og leggja stolt sitt og metnað í að kenna ungu fólki að tala og skrifa móðurmálið, en á því er þó oft og einatt mikill misbrestur. Sumt af því sem dagblaði eins og Morgunblaðinu berst í hendur er á svo hráslagalegri íslenzku að undrun sætir og eiga þar bæði ungir og gamlir hlut að máli, en að sjálfsögðu er þetta ekki prentað óbreytt. En jafnframt er ekki óalgengt að heyra svo hraksmánarlega íslenzku í ljósvökunum að þeir virðast í einni hendingu breytast í hryllingsóperu, þegar mestur gállinn er á mannskapnum. En þegar þessi veizla stendur sem hæst verður það stundum til bjargar að allt, sem sagt er, er með öllu óskiljanlegt, svo að hrognamálið fer bæði fyrir ofan garð og neðan.

Á það ber að leggja þunga áherzlu að skólarnir kenni móðurmálið, ekki einungis í íslenzkutímum, heldur ­ og ekki síður ­ í kennslu á öðrum tungumálum eins og frumherjarnir gerðu í Bessastaðaskóla, svo að dæmi séu nefnd. Það er t.a.m. ekki aðaltilgangur enskukennslunnar að kenna Íslendingi ávæning af ensku til að hann geti fleytt sér áfram einhvers staðar, heldur til þess að tungan verði honum auðvelt tæki, sem hann getur notað í íslenzku umhverfi sínu."

(Mbl., Reykjavíkurbréf 18. sept.) 1999. Umsjónarmaður tekur alveg sérstaklega undir síðasta atriðið. Og þessi Bessastaðaháttur var enn hafður, þegar hann var nemandi í M.A. En mér skilst að hjá mörgum þeim, sem kenna erlend tungumál, hafi viðhorfið snarbreyst síðari áratugina.



Lítilræði .

1) Orðið "bakbein" hefur heyrst í fréttum. Ekki finnst það í íslenskum orðabókum. Líklega er þetta hrá þýðing úr ensku backbone sem merkir hryggur, einnig meginstoð. Stundum er það líka í ensku notað í yfirfærðri merkingu = skapfesta, svona eins og þegar við tölum um að hafa bein í nefinu. Mér sýnist að "bakbein" hjá okkur sé óþarft. Flestir vita að eftir endilöngu bakinu liggur hryggur .

2) Mér þykir nauðsynlegt að bera samsett orð þannig fram, að hljóðbil verði á samsetningarmótum, dæmi Sam-skip, ekki "Sams-kip", Ís-land , ekki "Íssl- and eða jafnvel "Issl-and, Fá- skrúðsfjörður, ekki "Fásk-rúðsfjörður."



Vilfríður vestan kvað:



Ýmist kann ófróða að henda,

sagði Áslákur sjóklæðabenda,

en þó einna verst

fyrir þriflátan gest

að snæða með öfugum enda.