RJÚPNAVEIÐIN virðist fara vel af stað, að minnsta kosti norðanlands og austan, en fyrsti veiðidagurinn var í gær. Hópar sem Morgunblaðið hafði fréttir af í gærkvöldi fengu allt frá þremur og upp í 124 rjúpur. Þá bárust fréttir af þekktum rjúpnaskyttum sem fengu 50 til 70 rjúpur hver.
Rjúpnaveiðin fer vel af stað Hóparnir náðu 3

til 124 rjúpum

RJÚPNAVEIÐIN virðist fara vel af stað, að minnsta kosti norðanlands og austan, en fyrsti veiðidagurinn var í gær. Hópar sem Morgunblaðið hafði fréttir af í gærkvöldi fengu allt frá þremur og upp í 124 rjúpur. Þá bárust fréttir af þekktum rjúpnaskyttum sem fengu 50 til 70 rjúpur hver.

Ágætis veður var til rjúpnaveiða í gær, sums staðar var þó nokkuð hvasst þannig að rjúpan kúrði og flaug snöggt í burtu. Snjólétt er á helstu rjúpnaveiðisvæðum. "Veður er hagstætt mönnum en ekki rjúpum," sagði heimildarmaður fréttaritara Morgunblaðsins á Húsavík. Töluvert er um að skotveiðimenn af höfuðborgarsvæðinu hafi lagt land undir fót og láti til sín taka norðanlands og austan og á Fljótsdalshéraði voru fjórir Bretar sem komu gagngert til landsins til að veiða rjúpu.

Meira af dósum en rjúpu

Rjúpnaskyttur voru fengsælar sums staðar í Austur-Húnavatnssýslu, samkvæmt upplýsingum fréttaritara. Fjórir menn skutu samtals 60 fugla í Sauðadalnum og tveir veiddu saman 40 rjúpur í Spákonufelli. Mikil umferð var á Auðkúluheiði og þar sást meira af tómum jógúrtdósum en rjúpu, að sögn heimildarmanns.

Veiði var misjöfn í Suður-Þingeyjarsýslu, allt frá þremur og upp í 124 á bíl, eftir því sem fréttaritari komst næst, en í hverjum bíl eru yfirleitt tveir til fjórir veiðimenn. Einn af þekktari skotveiðimönnum, Jónas Hallgrímsson á Húsavík, veiddi 67 rjúpur í gær og var þó ekki að nema hluta dags.

Fjórir Bretar fengu samtals 30 rjúpur í Hallormsstaðahálsi í gær en þeir komu gagngert til rjúpnaveiða. Voru þeir ánægðir með árangurinn að sögn Þórhalls Borgarssonar leiðsögumanns. Þórhallur vissi um þrjá menn sem fengið höfðu samtals sex rjúpur og Seyðfirðing sem var einn á ferð og náði 56 fuglum.