HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og hafnað kröfu ríkisins um staðfestingu sjálfskuldarábyrgðar sveitarfélagsins Árborgar vegna láns til Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka árið 1983. Skilmálum lánsins var breytt eftir að ný og breytt sveitarstjórnarlög tóku gildi og taldi Hæstiréttur að sjálfskuldarábyrgð hafi ekki tekið gildi þar sem afgreiðsla málsins var ekki í samræmi við
Ríkissjóður getur ekki krafist greiðslu Sjálfskuldarábyrgð Árborgar ekki gild HÆSTIRÉTTUR hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og hafnað kröfu ríkisins um staðfestingu sjálfskuldarábyrgðar sveitarfélagsins Árborgar vegna láns til Hraðfrystistöðvar Eyrarbakka árið 1983. Skilmálum lánsins var breytt eftir að ný og breytt sveitarstjórnarlög tóku gildi og taldi Hæstiréttur að sjálfskuldarábyrgð hafi ekki tekið gildi þar sem afgreiðsla málsins var ekki í samræmi við nýju lögin. Sveitarfélagið Eyrarbakki samþykkti að takast á hendur sjálfskuldarábyrð á veðtryggðu láni Hraðfrystihúss Eyrarbakka hjá ríkissjóði, þá að fjárhæð tæpar 3 milljónir króna. Til tryggingar greiðslu lánsins setti félagið fasteign sína á Eyrarbakka, með 33. veðrétti á eftir skuldum að fjárhæð tæpar 19 milljónir. Ekki var greitt af láninu á fyrsta gjalddaga árið 1984 né öðrum árið 1985. Árið 1987 féllst ríkissjóður á breytta greiðsluskilmála skuldabréfsins. Nýr höfuðstóll skuldarinnar, með gjaldföllnum afborgunum og eftirstöðvum, nam þá rúmum 7 milljónum. Hreppsnefnd Eyrarbakka staðfesti breytta skilmála með áritun á skuldabréfið í lok janúar 1987. Illa gekk að innheimta skuldina, sem safnaði vöxtum, og var Eyrarbakkahreppur krafinn um greiðslu í febrúar 1992. Oddviti undirritaði þá réttarsátt um greiðslu hreppsins á skuldinni, en ritaði forsætisráðherra síðar bréf og bað um niðurfellingu skuldarinnar. Í september sama ár, þegar engin viðbrögð höfðu orðið af hálfu ráðherra, borgaði skuldarinn, sem nú hét Bakkafiskur, tæplega 6,5 milljónir inn á skuldina. Ekki var um frekari greiðslur að ræða, félagið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 1993 og lýstar kröfur í þrotabúið námu rúmum 156 milljónum króna. Ráðuneytið samdi um lækkun Hreppurinn reyndi enn að semja við ríkið um greiðslur. Í október 1996 samþykkti fjármálaráðuneytið skuldbreytingu á þann veg, að miðað skyldi við samningsvexti, en ekki dráttarvexti, af skuldinni. Hún nam tæpum 39 milljónum með dráttarvöxtum, en með þessari breytingu fór sú upphæð niður í rúmar 25 milljónir. Hreppsnefndin vildi hins vegar aðeins greiða höfuðstólinn, rúmar 7 milljónir, og hélt því fram að vafi léki á réttmæti greiðsluskyldu hreppsins, sem á þessum tíma var að vísu runninn inn í sameinaða sveitarfélagið Árborg. Málið kom því til kasta dómstóla. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu, að sjálfskuldarábyrgðin hefði aldrei öðlast gildi. Þegar gengið hafi verið frá henni upphaflega, árið 1983, hafi hún ekki verið lögð fyrir sýslunefnd Árnessýslu til samþykkis og því ekki öðlast samþykki samkvæmt þágildandi sveitarstjórnarlögum, 58/1961. Ábyrgðaryfirlýsingin við skilmálabreytingu skuldabréfsins árið 1987 hafi orðið að fullnægja skilmálum nýrra sveitarstjórnarlaga, 8/1986, en samkvæmt 4. mgr. 89. greinar þeirra hafi sjálfskuldarábyrgð sveitarfélags við þessar aðstæður ekki verið heimil. "Í málinu hafa ekki verið leiddar líkur að því að ábyrgð gagnáfrýjanda [Árborgar] vegna breytingarinnar á skilmálum skuldabréfsins hafi verið veitt gegn tryggingu, sem metin var gild," segir Hæstiréttur. "Fullnægði yfirlýsingin því heldur ekki skilyrðum 5. mgr. 89. gr. um veitingu einfaldrar ábyrgðar og getur hún ekki bundið gagnáfrýjanda," segir Hæstiréttur, sem dæmdi ríkið til að greiða sveitarfélaginu Árborg 200 þúsund krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.