Í gær var hópi sem starfar að rannsóknum á ryðsjúkdómum á ösp og gljávíði veittur 500 þúsund króna styrkur til þeirra rannsókna úr Skógarsjóði. Í hópnum eru Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur á Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetri,
Styrkur til rannsókna á trjásjúkdómum Smithætta mikilÍ gær var hópi sem starfar að rannsóknum á ryðsjúkdómum á ösp og gljávíði veittur 500 þúsund króna styrkur til þeirra rannsókna úr Skógarsjóði. Í hópnum eru Halldór Sverrisson plöntusjúkdómafræðingur á Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir sveppafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands, Akureyrarsetri, og Guðmundur Halldórsson skordýrafræðingur hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá. Guðmundur var spurður hvert væri markmið þessara rannsókna?
Markmiðið er að finna arfgerðir af ösp og gljávíði sem hafi nægan mótstöðuþrótt gegn þeim ryðsjúkdómum sem hafa skotið hér upp kollinum að undanförnu.
Hvaða ryðsjúkdómar eru það?
Það er annars vegar gljávíðiryð sem lýsir sér þannig að rauðgulir flekkir myndast á blöðum gljávíðis og hins vegar asparryð, sem lýsir sér svipað og gljávíðiryð.
Eru þetta alvarlegir sjúkdómar?
Reynslan hér á landi af því er ekki mikil enn sem komið er, en gljávíðiryð virðist þó valda mjög verulegum usla. Auk þess er hætta á að aspaeryð verði til verulegra vandræða, einkum í garðrækt.
Hvernig fara þessar rannsóknir fram?
Þær eru gerðar í tilraunareitum á tveimur stöðum á landinu. Þessir tilraunareitir eru nú þegar til hvað öspina varðar en gróðursetja þarf í tilraunareiti af gljávíði. Í þessum tilraunareitum verður mismunandi efniviður af ösp og gljávíði. Þar verður með öðrum orðum safnað saman öllu því sem talið er getað hentað hér á landi. Plönturnar verða síðan smitaðar af viðkomandi sjúkdómi og fylgst er með þróun sjúkdómsins á plöntum af mismunandi arfgerð. Þannig er unnt að sjá hvaða plöntur hafa þann viðnámsþrótt sem nægilegur er. Athuganir sem gerðar voru nú í sumar á ösp benda til þess að viðnámsþróttur aspa hér á landi gegn asparyði sé verulega mismunandi. Þar kom fram að einn asparklónn stóð sig sérlega vel gegn ryðsjúkdómum, það var svokölluð Sælands-ösp. Þannig má gera sér góðar vonir um að hægt sé að finna efnivið sem standist þessa óværu.
Hvaðan kemur þessi óværa?
Hún kemur væntanlega frá Evrópu en hins vegar er óvíst hvernig hún hefur borist til landsins.
Sótti hópurinn um styrk í Skógarsjóð?
Nei, sjóðurinn hafði frétt af þessu vandamáli og stjórn hans sá að þarna var vandi á ferð sem brýna nauðsyn bar til að bregðast skjótt við. Stjórnin hafði samband við mig og bauð fram styrk til þessarar rannsóknar. Við vorum þá að byrja að leggja drög að umsókn um styrk til Rannís til þessara rannsókna. Hins vegar er mikilvægt fyrir okkar að fá þennan styrk nú þegar því nauðsynlegt er að hefja strax söfnun á efnivið ef takast á að hefja rannsóknir strax næsta sumar.
Er mikil smithætta af þessum sjúkdómum?
Já, það er mjög mikil smithætta og gljávíðiryðið sem við höfum lengri reynslu af hefur borist á fimm árum frá Hornafirði vestur á Reykjanes. Búast má við að þessir sjúkdómar berist á skömmum tíma um land allt.
Er hægt að sporna við þessari þróun?
Það er mjög erfitt. Það er hægt að beita sveppaeitri en árangur hefur ekki verið fullnægjandi og þarf að margeitra á hverju sumri. Hvað öspina áhrærir þá er rétt að taka fram að ryðsjúkdómurinn á henni þarf að komast á lerki til að ljúka lífsferli sínum. Því er hægt að rjúfa smithringinn með því að fjarlægja lerki úr nágrenni aspanna.
Er sveppaeitrið hættulegt fólki?
Þetta efni þarf að meðhöndla af fullri gát eins og öll eiturefni, auk þess sem það er óæskilegt fyrir umhverfið.
Hvenær má vænta niðurstöðu úr þessari rannsókn ykkar?
Ef allt tekst eins og stefnt er að má búast við fyrstu niðurstöðum úr aspartilraunum strax næsta haust. Fyrstu niðurstöður úr gljávíðitilraunum verða tilbúnar haustið 2001. Lokaniðurstaða á að liggja fyrir í lok árs 2002.
Guðmundur Halldórsson fæddist 1952 á Langanesi í Norður-Þingeyjarsýslu. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1973 og líffræðiprófi frá Háskóla Íslands 1977. Doktorsprófi frá Landbúnaðarháskólanum í Kaupmannahöfn lauk Guðmundur 1985. Hann starfaði á Rannsóknarstofnun landbúnaðarins fyrsta árið eftir heimkomu frá Danmörku, um fjögurra ára skeið vann hann síðan hjá Hollustuvernd ríkisins en hóf störf hjá Rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins að Mógilsá haustið 1990 og starfar þar enn. Guðmundur er kvæntur Önnu Kristínu Björnsdóttur meinatækni og eiga þau þrjá syni.
Fyrstu niðurstöður haustið 2000
Guðmundur Halldórsson