ÞÓRSARAR tóku á móti Skallagrími í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöld og eftir sveiflukenndan og býsna spennandi leik fögnuðu heimamenn sigri, 75:70. Þetta er fyrsti sigur Þórs í deildinni eftir stórtöp gegn sterkum Suðurnesjaliðum.


Fyrsti sigur

Þórsara raunin ÞÓRSARAR tóku á móti Skallagrími í Íþróttahöllinni á Akureyri í gærkvöld og eftir sveiflukenndan og býsna spennandi leik fögnuðu heimamenn sigri, 75:70. Þetta er fyrsti sigur Þórs í deildinni eftir stórtöp gegn sterkum Suðurnesjaliðum. Þór tefldi fram nýjum bandarískum leikmanni sem þó er ekki alveg óþekktur hér á landi. Sá heitir Herman Myers og kom til Akureyrar fyrr um daginn og náði einni æfingu með liðinu fyrir leikinn. Hann virtist heldur þungur á sér en ætti að geta styrkt liðið þegar fram í sækir en í þessum leik voru það ungu strákarnir í liðinu sem innbyrtu sigurinn. Mikið var um mistök hjá báðum liðum í upphafi og hittnin slök. Þórsarar byrjuðu betur og virtust reyndar ætla að keyra fram úr gestunum þegar staðan var 35:23. Þá tóku leikmenn Skallagríms sig á, Dragisa Suric hitti vel og Tómas Holton hrökk í gang meðan Þórsarar flýttu sér um of og léku illa. Borgnesingar náðu nánast að vinna upp forskotið síðustu mínútur hálfleiksins en staðan í leikhléi var 39:38. Útlitið var dökkt hjá Þór í seinni hálfleik. Þeir skoruðu ekki körfu í rúmar 5 mínútur en á móti kom að Borgnesingar hittu frekar slælega og náðu aðeins 7 stiga forskoti, 39:46. Eftir þetta var leikurinn jafn og spennandi og er 6 mín. voru eftir var staðan 58:59. Þá fékk Konráð Óskarsson sína 5. villu og Myers bað um skiptingu, örþreyttur. Þórsarar náðu hins vegar upp meiri baráttu en gestirnir, komust 10 stigum yfir, 69:59, og héldu haus til loka. Óðinn Ásgeirsson og Einar Örn Aðalsteinsson voru bestu menn Þórs og þeir Magnús Helgason, Myers og Konráð áttu góða leikkafla. Saric var stigahæstur Borgnesinga og lék vel í fyrri hálfleik en Tómas Holton, Hlynur Bæringsson og Sigmar Egilsson sýndu sömuleiðis ágæt tilþrif. Stefán Þór Sæmundsson skrifar